Hvað er tilraunatónlist og hverjum er ekki sama?

hugleiðingar um svokallaða tilraunatónlist

Berglind María Tómasdóttir

 

Hægt er að skilgreina tilraunatónlist á marga vegu. Orðið er líklega þýðing á enska hugtakinu experimental music.

Ég: Google, when did experimental music start?

Vafrinn sem ég nota, Google Crome, leggur til svokallað „featured snippet”:[1]

Mynd 1: Svokallað featured snippet sem Google býður upp á sem svar við spurningunni  „when did experimental music start?"

Fari ég dýpra inn í þetta fyrsta leitarsvar, sem Wikipedia býður upp á, er hugtakið rakið til lykilpersóna í sögu tilrauna á sviði tónlistar á 20. öld. Þar voru menn eins og Pierre Schaeffer í forgrunni, sem stunduðu tilraunamennsku í útvarpshljóðverum frá árdögum þeirra.[2] Hljóðatilraunirnar sem fóru fram í útvarpshljóðverum víða um heim um miðbik 20. aldar falla undir skilgreiningar John Cage á hugtakinu experimental music; að nota ný byggingarefni við gerð tónlistar sem og að framkvæma þekkta aðgerð með óþekktri útkomu.[3] Segulböndin voru vissulega nýtt byggingarefni sem mótuðu hljóðræna útkomu tónlistarinnar. Aðgerðirnar fólust í að búa til tónlist og til varð ný gerð tónlistar þar sem ómögulegt var að segja til um upptök hljóðs; svokölluð akúsmatísk tónlist.[4] Önnur vinsæl útgáfa sögunnar um uppruna tilraunatónlistar er að setja upphafsreitinn snemma á 20. öld, nánar tiltekið í hugmyndum sem settar eru fram í manifesto ítalska fútúristans Luigi Russolo, The Art of Noises.[5]

Hvenær var byrjað að tala um tilraunatónlist á íslensku? Á tímarit.is kemur orðið fyrst fyrir í prentuðum heimildum árið 1978, annars vegar Þjóðviljanum og hins vegar Dagblaðinu. Föstudaginn 14. júlí 1978 birtist fréttatilkynning í Þjóðviljanum um opnun myndlistarsýningar í Gallerí Suðurgata 7 á verkum breska myndlistarmannsins Peter Schmidt. Tekið er fram í tilkynningu að listamaðurinn hafi fengist við margt á ferli sínum en á sýningunni gefi að líta verk unnin með vatnslitatækni. Í greinarstúfnum er sagt frá því að meðan á sýningunni stendur verði leikin tvö verk af segulbandi eftir Brian Eno, samstarf þeirra hafi verið mikið undanfarin ár, en báðir hafi þeir áhuga á „hinu lágværa og yfirlætislausa”. Sagt er nánar frá Eno sem meðal annars hafi stofnað plötuútgáfuna Obscure sem „hafi það markmið að kynna tilraunatónlist nýrrar kynslóðar breskra tónlistarmanna.”[6]

Í Dagblaðinu þann 20. júlí sama ár er sagt frá tónlistarþættinum „Áfangar” á dagskrá Útvarps samdægurs en þar standi til að kynna tónlistarmanninn Brian Eno í tengslum við sýningu á myndlistarverkum Peter Schmidt sem einmitt er gestur þáttarins.[7] Og aftur kemur hún fyrir setningin sem birtist í Þjóðviljanum nokkrum dögum fyrr, Eno hafi stofnað plötuútgáfuna Obscure sem „hefur það markmið að kynna tilraunatónlist nýrrar kynslóðar.”[8] Umsjónarmanna áðurnefnds tónlistarþáttar er getið í fréttinni, það eru þeir Guðni Rúnar Agnarsson og Ásmundur Jónsson. Þann síðarnefnda þekki ég og hringi í hann.

Ég: Blessaður Ási, manstu eftir sýningu á verkum Peter Schmidt sem fór fram í Gallerí Suðurgötu 7 árið 1978?

Hann er nú hræddur um það, og að tónlist Brian Eno hafi hljómað meðan á sýningunni stóð, gott ef þetta var ekki tónlistin sem kom út sama ár undir heitinu Music for Airports, bætir hann við.[9] Ásmundur segir mér svo að þetta hafi verið fyrir þann tíma sem skilgreiningin „Ambient Music” kom til skjalanna. Við nánari athugun sýnist mér orðið hughrifatónlist vera notað sem íslenskun á því fyrirbæri. Ásmundur mundi hins vegar ekki hvaðan íslenskunin á experimental music kom.

Mynd 2: Úrklippa úr Dagblaðinu 20. júlí 1978.

Næst kemur orðið tilraunatónlist fyrir í tímaritinu Svart á hvítu árið 1980 í viðtali við Dick Higgins sem kom til Íslands 1979 í tengslum við sýningu hans í Suðurgötu 7, en þar talar Higgins um listamanninn Al Hanson sem „hafði brennandi áhuga á að vinna með John Cage að tilraunatónlist.”[10] Í prentuðum heimildum sem hýstar eru á tímarit.is kemur orðið tilraunatónlist fyrir alls 13 sinnum á 9. áratugnum, 22 sinnum á 10. áratugnum, 67 sinnum á fyrsta áratug 21. aldar og 37 sinnum á nýliðnum áratug.

Af hverju tölum við ekki um tilraunakennda tónlist? Það væri nær enska hugtakinu sem er sett saman úr einu lýsingarorði (e. experimental) og einu nafnorði (e. music). Íslenskunin er samsett orð, sett saman úr tveimur nafnorðum. Það er reginmunur á þessu; falleg og fegurð er ekki það sama, tilraunir og tilraunakennt ekki heldur. Lýsingarorðin eru lýsandi og ekki eins afgerandi og nafnorð.

Í grein sinni „Five Maps of the Experimental World“ gerir Bob Gilmore tilraun til að kortleggja tilraunatónlist.[11] Kort eitt og tvö falla undir skilgreiningar John Cage sem áður var minnst á. Annars vegar það sem Gilmore kallar mýkri útfærsluna; tónlist skilgreinist sem tilraunatónlist þegar nýir efnisþættir eru notaðir við sköpun hennar. Hins vegar er um harða útfærslu að ræða þegar framkvæmd verks er þekkt en útkoman óþekkt. Þriðja kort Gilmore nær yfir tónlist sem á sér sérstakan stað og stund í sögunni; Bandaríkin upp úr miðri síðustu öld með John Cage og fleiri í forgrunni. Fjórða kortið nær utan um tónlist sem samin er á forsendum skilgreindrar rannsóknar og loks fangar fimmta kortið alla þá áhugaverðu, nýju tónlist sem ekki er avant-garde, sem ekki á rætur að rekja til evrópskrar sígildrar tónlistar. Þessa skilgreiningu rekur höfundur til Michael Nyman og staðhæfinga sem settar eru fram í bók hans frá 8. áratug síðustu aldar, Experimental Music. Gilmore dregur fram vankanta hvers korts fyrir sig með því að benda á takmarkanir þeirra og allar undantekningarnar. Loks klykkir hann út með því að óska eftir fleiri kortum.

Og hvað er þá tilraunatónlist?

Allt þetta?

Af hverju ekki?

Í bókinni Experimental Music since 1970 er skilgreining Jennie Gottschalk, höfundar bókarinnar, svohljóðandi:

Erfitt er að kortleggja tilraunatónlist því ekki er um ákveðna stefnu, stíl eða fagurfræði að ræða. Hún er hins vegar afstaða — opin, spyrjandi, óræð, sem kallar á uppgötvanir. Staðreyndir eða aðstæður eða efni eru könnuð vegna hljóðrænna möguleika þeirra í gegnum aðgerðir sem ná yfir tónsmíðar, flutning, spuna, innsetningar, hljóðritanir og hlustun. Þessar könnunarleiðir miða í átt að hinu óþekkta, hvor heldur sem um er að ræða eitthvað fjarlægt, flókið, ógreinanlegt, eða eitthvað sem lítur út fyrir að vera þekkt.[12]

Tilraunatónlist er samkvæmt Gottschalk afstaða, við getum líka kallað það viðhorf. Afstaða sem krefst forvitni og áræði.

                        Tilraunatónlist er forvitið viðhorf, opin afstaða.

Þá er tímabært að ég ávarpi síðari hluta titils þessa greinar: Hverjum er ekki sama?

Í starfi mínu við Listaháskóla Íslands frá árinu 2016 hef ég ítrekað talað um tilraunatónlist í kennslu minni. Þannig hef ég kennt eftirfarandi áfanga sem allir fjalla um tilraunatónlist með einum eða öðrum hætti:[13]

  • John Cage og bandarísk tilraunatónlist
  • Flytjandinn/tónskáldið
  • Hljóðlist
  • Skerpla
  • Experimental Music Seminar
  • Tilraunatónlist

Ég hef gert það til að staðsetja iðkunina sem ég hef lagt mig fram um að innleiða — í ættboganum sem finna má á þriðja korti Bob Gilmore; í tónlist sem á sér sérstakan stað og stund í sögunni, nánar tiltekið í Bandaríkjunum upp úr miðri síðustu öld þar sem útvíkkaðar hugmyndir um tónlist eru oftar en ekki viðfangið. Einnig hef ég hvatt til þverfaglegrar nálgunar sem aftur mætti staðsetja á fyrsta og öðru korti Bob Gilmore; í iðkun sem nýtir sér ný byggingarefni við sköpun tónlistar og hins vegar í sköpun þar sem framkvæmd verks er þekkt en útkoman óþekkt. Iðulega snýr iðkunin að því að tileinka sér ný byggingarefni við gerð tónlistar, nýjan efnivið, nýja umgjörð, nýja framsetningu með forvitni og áræði að leiðarljósi. Þannig stækka viðteknar hugmyndir um tónlist, eða öllu heldur víkka út.

Að lokum er hægt að spyrja sig hvort notkun á þessu samsetta orði, tilraunatónlist, sé óþörf; tónlist ætti að duga í flestum tilfellum. Tónlist getur hæglega verið búin til og framkvæmd af forvitni og áræði, án þess að nafnorðinu „tilrauna” sé skeytt framan við orðið. Ættum við þá kannski frekar að tala um útvíkkaða tónlist?[14] Eða tónlist handan tónlistar?[15] Hér væri freistandi að byrja að tala um orðið tónlist. Hvað þýðir tónlist? List tónanna? Hvað þá með tónlist sem inniheldur ekki tóna í ströngum skilningi, heldur hljóð og óhljóð, hávaða, líkt og Luigi Russolo talar um í aldargömlu, áðurnefndu manifestoi? Það er efni sem bíður betri tíma.

 

---


[1] 'Featured snippet' eða meðfylgjandi stúfur er, samkvæmt Google, eftirfarandi: „Featured snippets are a special feature of Google Search that receive unique formatting, positioning and are often spoken aloud by the Google Assistant.“ Sótt á Google 30. mars 2020.

[2] Menn, sem vissulega voru konur líka, þrátt fyrir að þær hafi í flestum tilfellum ekki notið sannmælis sem frumkvöðlar í raftónlist fyrr en í seinni tíð.

[3] John Cage, Silence (Middletown, CT: Wesleyan University Press, 1961), 67-75.

[4] Christoph Cox og Daniel Warner, ritstj., Audio Culture (New York, London: Continuum, 2009), 76-81.

[5] Christoph Cox og Daniel Warner, ritstj., Audio Culture (New York, London: Continuum, 2009), 10-14. Manifesto Luigi Russolo má einnig nálgast hér: https://monoskop.org/images/0/09/Russolo_Luigi_The_Art_of_Noises.pdf

[6] „Myndir og tónar í Gallerí Suðurgötu” Þjóðviljinn, 14. júlí 1978, sótt 30. mars 2020 https://timarit.is/page/2861824?iabr=on#page/n6/mode/2up/search/tilraunat%C3%B3nlist

[7] Hér er átt við Rás 1, en á þessum tíma var hægt að rita útvarp með stórum staf þar sem einungis ein íslensk útvarpsstöð var í boði.

[8] „Rætt við Peter Schmidt um Brian Eno” Dagblaðið, 20. júlí 1978, sótt 30. mars 2020 https://timarit.is/page/3078360?iabr=on#page/n21/mode/2up/search/tilraunat%C3%B3nlist

[9] Símtal við Ásmund Jónsson, febrúar 2020.

[10] „Viðtal við Dick Higgins” Svart á hvítu, 1. tölublað 1980, sótt 30. mars 2020

https://timarit.is/page/5386925?iabr=on#page/n18/mode/2up/search/tilraunat%C3%B3nlist

[11] Darla Crispin og Bob Gilmore, ritstj., Artistic Experimentation in Music (Leuven: Leuven University Press, 2014) 23-30. Grein Bob Gilmores má nálgast hér: https://musicexperiment21.files.wordpress.com/2018/05/crispin_darla-bob_gilmore-artistic_experimentation_in_music_an_anthology-2014.pdf

[12] Mín þýðing á: „Experimental music is challenging to pin down because it is not a school or a trend or even an aesthetic. It is, instead, a position—of openness, of inquiry, of uncertainty, of discovery.  Facts or circumstances or materials are explored for their potential sonic outcomes through activities including composition, performance, improvisation, installation, recording, and listening. These explorations are oriented toward that which is unknown, whether it is remote, complex, opaque, or falsely familiar.“ Jenny Gottschalk, Experimental Music since 1970 (New York, London: Bloomsbury Academic, 2016), 1.

[13] Tilraunatónlist, samkvæmt þeim skilgreiningum sem settar eru fram í þessari grein.

[14] Útvíkkuð tónlist er þýðing á hugtakinu Expanded Music, eða Music in the Expanded Field sem meðal annars Marko Ciciliani hefur skrifað um með sterkri tilvísun í skrif Rosalind E Krauss, Sculpture in the Expanded Field.

[15] Sjálf hef ég skrifað grein í Þræði undir heitinu Handan tónlistar sem fjallar um eigin útvíkkaða iðkun innan tónlistar. https://www.lhi.is/tolublad-3-handan-tonlistar. Sótt 30. mars 2020. Einnig vísar titillinn í námskeið sem ég sótti hjá Peter Ablinger á Sumarakademíunni í Darmstadt árið 2014 og hét Composition Beyond Music.