Mörkun sýningarinnar Þetta hefur aldrei sést áður, sem var útskriftarsýning hönnunar- og arkitektúrdeildar og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands árið 2019, fékk í dag tilnefningu til verðlauna Félags Íslenskra Teiknara 2020 í flokknum menningar- og viðburðarmörkun.
 
Það voru þeir Ármann Agnarsson og Helgi Páll Melsted sem hönnuðu umgjörð sýningarinnar en þeir sáu einnig um mörkun á Útskriftarhátíð Listaháskólans í heild sinni árið 2019. Bæði Ármann og Helgi stunduð nám í grafískri hönnun við Listaháskólann með nokkra ára millibili og starfa nú saman á hönnunarstofu Ármanns, auk þess gegnir Ármann starfi stundakennara við námsbraut í grafískri hönnun við LHÍ.
 
Úrslit FÍT keppninnar verða gerð ljós á HönnunarMars 2020 sem hefur verið frestað til júní vegna Covid19.
 
Auk Ármanns og Helga hlutu þau Arnar Freyr Guðmundsson stundakennari við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ og Birna Geirfinnsdóttir fagstjóri í grafískri hönnun við LHÍ fyrir mörkun á HönnunarMars 2019 fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands.
 
Aðrar tilnefningar hljóta Hrefna Sigurðardóttir, fyrrum nemandi í grafískri hönnun við LHÍ fyrir listahátíðina Sequences ix og &&& fyrir sýningar Hildigunnar Birgisdóttur, hollnema LHÍ , Universal Sugar í Vestmannaeyjum og Garðabæ fyrir Listasafn ASÍ.  &&& samanstendur af þeim Arnari Inga Viðarssyni og Arnari Fells Gunnarssyni fyrrum nemendi í grafískri hönnun við LHÍ.
 
Við bíðum spennt eftir úrslitum FÍT keppninnar og óskum okkar fólki innilega til hamingju með tilnefningarnar.
 
Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir af mörkun Útskriftarsýningarinnar, ljósmyndari er Leifur Wilberg Orrason.