Stjórn Rannsóknarsjóðs Rannís lauk nýverið við úthlutun styrkja til rannsóknarverkefna á árinu 2020. Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og prófessor, við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands var einn styrkþega í flokknum Hugvísindi og listir.
Alls bárust 382 umsóknir í Rannsóknarsjóð og hlutu 55 þeirra styrk eða 14%. Á vefsíðu Rannís segir að Rannsóknasjóður sé leiðandi samkeppnissjóður hérlendis og styrki doktorsverkefni sem og öndvegisverkefni með alþjóðlega tengingu og skara fram úr.[1] 
 
 
Sigrún Birgisdóttir
Sigrún Birgisdóttir hóf störf hjá Listaháskóla Íslands árið 2007 sem fagstjóri námsbrautar í arkitektúr og var ráðin lektor árið 2009. Á árunum 2012 – 2017 var Sigrún forseti hönnunar- og arkitektúrdeildar og frá árinu 2019 hefur hún verið prófessor í arkitektúr við deildina.
Sigrún stundaði nám í arkitektúr við Facoltá di Architettura, Politecnico di Milano á Ítalíu og School of Architecture í Oxford þaðan sem hún lauk BA gráðu. Hún lauk AA Diploma við Architectural Association í London árið 2001. Sem doktorsnemandi  í menningarfræði  á hugvísindasviði við Háskóla Íslands hefur Sigrún jafnframt verið gestanemandi við AHO – Oslo School of Architecture and Design.
 
 
Borgarvæðing landslags: Áhrif ferðaþjónustu á arkitektúr og landslag á 64°
Doktorsrannsókn Sigrúnar sem ber heitið Borgarvæðing landslags: Áhrif ferðaþjónustu á arkitektúr og landslag á 64° fjallar um borgarvæðingu (e. urbanization) í dreifbýli í ljósi vaxandi ferðaþjónustu. Eins og flestir vita hefur fjölgun ferðamanna aukist mikið á síðustu árum en allt að 2,3 milljónir alþjóðlegra gesta hafa sótt Ísland heim á ári hverju. Þessi stórkostlega fjölgun veldur því að starfsemi ferðaþjónustu vex og er orðin ráðandi starfsgrein víða í dreifbýli. Ferðaþjónustan kemur því til með að móta hið byggða umhverfi.
Svæðið sem Sigrún kemur til með að rannsaka fylgir línu þvert yfir landið frá Reykjavík og í austur, eftir ferðaleið á 64° breiddargráðu, á þeirri leið eru einstaka staðir valdnir til skoðunar.
Með rannsókninni sér Sigrún fyrir sér að varpa ljósi á áhrif ferðaþjónustu á þróun byggðar í dreifbýli. Þá verða tengsl hins byggða umhverfis við félagslega, umhverfislega, menningarlega og hagræna þætti í samfélaginu einnig skoðuð.
 
 
Listaháskóli Íslands óskar Sigrúnu Birgisdóttur innilega til hamingju með styrkinn og hlakkar til að fylgjast með þróun rannsóknarinnar.