Hanna Styrmisdóttir hefur verið ráðin prófessor í sýningagerð við nýja námsleið innan meistaranáms við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Hún stundaði BFA nám í myndlist við Parsons School of Design í París og New York og MA nám í myndlist við Chelsea College of Arts í London. Árið 2004 lauk hún framhaldsnámi á meistarastigi í gagnrýnum fræðum við Listaháskólann í Malmö.

Hanna hefur víðtæka reynslu á sviði sýningagerðar. Hún var listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík frá 2012-2016 og stýrði á því tímabili fjórum hátíðum, í samstarfi við mikinn fjölda listamanna á öllum sviðum, liststofnana og framkvæmdaaðila innanlands og alþjóðlega ár hvert. Hún lagði í starfinu m.a. áherslu á frumflutning og tilurð nýrra verka, og á höfundarverk kvenna og inngildingu almennt. Meðal þeirra fjölmörgu listamanna sem hún starfaði með á Listahátíð eru Guerrilla Girls, Rúrí, Anna Þorvaldsdóttir, Shantala Shivalingappa, Sidi Larbi Cherkaoui, götudanshópurinn FlexN frá Brooklyn og Magnús Pálsson, en Hanna var annar sýningarstjóra gjörningasýningarinnar Lúðurhljóms í skókassa á Listahátíð 2013.

Meðal fyrri sýningargerðarverkefna Hönnu eru HA (Sara Björnsdóttir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 2012); Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands (Libia Castro & Ólafur Ólafsson með Karólínu Eiríksdóttur, Hafnarborg og RÚV (2011); Lóan er komin (Steingrímur Eyfjörð í Íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum 2007); Kúlan, sýningaröð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni (2003); Matthew Barney í Nýlistasafninu (2003) og Pólýfónía, hljóðlistahátíð í Nýlistasafninu (2001).

Þá hefur Hanna lengi starfað sjálfstætt við ráðgjöf á sviði myndlistar og listrænnar stefnumótunar innanlands og utan, og átt sæti í stjórnum og dómnefndum. Hún hefur unnið hjá Listasafni Reykjavíkur og Norræna húsinu, og stýrt verkefnum á borð við Sjónlistaverðlaunin 2006 og Ljósin í norðri á Menningarborgarárinu 2000. Hanna hefur kennt við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og þrívegis verið prófdómari útskriftarárgangs á bakkalárstigi.

Hanna mun leiða nýja námsleið í sýningagerð innan MA náms í myndlist en fyrstu nemendur hefja nám á haustönn 2020.

Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

 

Ljósmynd: Bjarni Grímsson