Guðmundur Oddur Magnússon - Goddur, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, er sérstakur gestur Hugarflugs 2020. 

 
 
Goddur flutti erindi sitt Konur ruddu brautina  föstudaginn 14. febrúar 2020 kl. 16.45-17.30 í húsnæði LHÍ, Laugarnesvegi 91, í fyrirlestrarsal L193. 
 
 
Goddur Oddur Magnússon, Goddur, hefur starfað við Listaháskóla Íslands frá stofnun lengst af sem prófessor grafískri hönnun. Þar áður var hann fagstjóri grafískrar hönnunar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann lærði grafíska hönnun við Emily Carr University of Art & Design á árunum 1986-1990 en stundaði einnig myndlistarnám við nýlistadeild MHÍ frá 1976-1979. Hann hefur kennt og haldið námskeið og fyrirlestra víða innanlands sem erlendis ásamt dagskrárgerð við RUV. Hann hefur einnig kennt við LungA skólann á Seyðisfirði og setið í stjórn þess skóla frá upphafi. Verk hans hafa verið birt í fjölmörgum útgáfum frá fyrirtækjum eins og Taschen, Laurence King í Lunúnum og svo Die Gestalten í Berlín.
 
Árið 2018 fékk Goddur úthlutað stórum rannsóknarstyrk frá RANNÍS vegna verkefnisins Sjónarfur í samhengi: notkun, myndmáls í prentsögu Íslands frá 1844-1944 en þar er um að ræða viðfangsefni sem lengi hefur verið eitt af hans helstu hugðarefnum.
 
Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins er að safna saman, greina og flokka myndræna framsetningu í prentuðu efni á tímabilinu 1844-1944 og setja hana í sögulegt samhengi. Tilgangurinn er að greina áhrif hönnunar á myndmál, tengingu myndmáls og texta við samfélagslega þætti eins og þjóðareinkenni, sjálfstæðisbaráttu og stofnun lýðveldis. Kjarni verkefnisins eru gerðir og myndrænn uppruni prentmyndamóta sem og myndræn þróun prentunar vegna áhrifamátts fjölföldunar. Myndefni og myndmál í fjölfölduðu efni eru rannsóknarviðfangið, allt frá einblöðungum til myndmáls hins opinbera. Rannsóknin er samvinnuverkefni Listaháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Hönnunarsafns Íslands.
 

Konur ruddu brautina

 
Rætur hagnýtrar grafíklistar má rekja til síðustu áratuga 19. aldar en verður þó ekki sérstök starfsgrein fyrr en snemma á 20. öld. Hagnýt grafíklist er það sem við köllum í dag grafíska hönnun. Það voru tvær konur sem lærðu þessa faggrein fyrstar Íslendinga.
 
Starfi þeirra verða gerð skil í þessum fyrirlestri ásamt frásögn af tveim systrum sem annarsvegar voru brautryðjendur nútímamarkaðsmennsku hér á landi og hins vegar örlagavaldar ungs pilts, sem sendur var til Kaupmannahafnar til að læra teikningu og tréskurð, en stofnaði skóla við heimkomuna við lok 19. aldar í Grjótaþorpinu. Sá skóli, þó í mýflugumynd væri, lagði grunninn að íslenskum sjónmenntum á 20. öld. Í þeim skóla tóku sín fyrstu spor Jóhannes Sveinsson (síðar Kjarval), Guðjón Samúelsson, Guðmundur frá Miðdal, Sigríður Zoega, Osvaldur Knudsen, Ríkarður Jónsson, Grímur Engilberts ásamt hundruðum annara.