Snæbjörg Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin í stöðu prófessors við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. 

Kennsluferill Snæbjargar hófst árið 1990 við Leiklistarskóla Íslands þar sem hún kenndi hljóðmótun, textavinnu og íslensku í áratug. Hún nam við íslenskudeild Háskóla Íslands með áherslu á meðferð talaðs máls, hljóðfræði og bókmenntagreiningu. 

Snæbjörg hefur kennt hljóðmótun, rödd og textavinnu við LHÍ allt frá stofnun sviðslistadeildar. Undanfarin fimmtán ár hefur hún verið aðal raddkennari deildarinnar og komið að öllum þáttum raddfagsins. Hún hefur verið mjög virk í samstarfi skandinavíska leiklistarháskóla, sinnt gestakennslu, staðið fyrir ráðstefnum og sótt fjölda námskeiða á þeirra vegum. Hún hefur unnið við sýningar hjá öllum íslensku atvinnuleikhúsunum og smærri leikhópum. Þá hefur hún reglulega kennt raddbeitingu og framsögn við aðra háskóla hérlendis. 

Snæbjörg hefur verið leiðandi í að þróa samþættingu raddfagsins og leiktúlkunarfagsins við sviðslistadeild LHÍ. Hennar helsta sérsvið er heildrænt sjónarhorn á líkama, rödd og texta. Hún leggur áherslu á raddtækni sem skapandi afl í vinnu leikarans. Undanfarin ár hefur Snæbjörg unnið að greiningu og skrásetningu kennslu sinnar við LHÍ með útgáfu að markmiði.

Við óskum Snæbjörgu innilega til hamingju með nýja stöðu og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.