Theodóra Alfreðsdóttir hefur verið ráðin aðjúnkt á vorönn 2020 við námsbraut í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Theodóra er vöruhönnuður og er búsett í London. Hún lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og MA gráðu frá Royal College of Art í London 2015. Síðan þá hefur hún unnið að sjálfsprottnum verkefnum ásamt því að vinna fyrir aðra hönnuði, svo sem Philippe Malouin og Bethan Laura Wood. Hún hefur sýnt á fjölda alþjóðlegra og íslenskra sýninga og haldið fyrirlestra víða, má þar nefna þátttöku hennar í sýningunni Crossover sem var sýningarstýrt af hönnunarvettvanginum Adorno og fór fram í Truman Brewery á London Design Festival. Hún var að auki einn mælenda á DesignTalks í Hörpu á Hönnunarmars 2019 og hlaut verðskuldaða athygli fyrir verk sín á Hönnunarmars það sama ár. Þá hefur Theodóra gegnt starfi stundakennara við London Metropolitan University.
 
Verk Theodóru snúast að miklu leyti um þá sögu sem hlutir geta sagt okkur. Það hvernig hlutirnir geta verið til vitnis um framleiðsluferlið sem þeir fóru í gegnum og sagt til um það hvað átti sér stað í samtali vélar, verkfæris eða handverksmanns og efnisins, með það að leiðarljósi að endurskoða gildi efnisheimsins í kring um okkur. Hægt er að skoða verk Theodóru á heimasíðu hennar: https://www.theodoraalfredsdottir.com/
 
Theodóra verður með fyrirlestur um eigin verk og rannsóknir í fyrirlestrarröðinni Sneiðmynd miðvikudaginn 29, janúar kl. 12:10 og eru allir velkomnir á þann viðburð.
 
Það er mikill fengur að fá Theodóru í lið starfsfólks Listaháskóla Íslands og við hlökkum til samstarfsins við hana.