Fimmtudaginn 16.janúar munu fjórir ungin einleikarar stíga á Eldborgarsvið Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Ísland. Tónleikarnir eru afrasktu keppni Ungra Einleikara sem nú hefur verið haldin árlega frá árinu 2003.  
Flautuleikarinn Kristín Ýr Jónsdóttir er í hópi einleikaranna sam báru sigur úr býtum í keppninni í ár en hún hefur stundað tónlistarnám frá 6 ára aldri. Móðir Kristínar er tónmenntakennari og skráði hana þá í píanónám. Þegar Kristín var 8 ára fékk hún sína fyrstu flautu og gerðist fljótlega meðlimur í Lúðrasveit Miðbæjar og Vesturbæjar undir stjórn Guido Baumer. 
Þrettán ára gömul lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún lærði á þverflautu undir handleiðslu Áshildar Haraldsdóttir. Að eigin sögn voru námsár Kristínar í Tónlistarskólanum í Reykjavík afar lærdómsrík og þeim fylgdi dýrmæt reynsla í hljómsveitar- og kammerspili. 
Kristín er nú 21 árs og lýkur sínu öðru ári í danska tónlistarháskólanum Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í vor.  
Kristín er ákveðin og einbeitt. Flutningur hennar og túlkun er einstök og við kynnumst henni betur í stuttu viðtali um keppnina sjálfa og það sem framundan er.

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í UE og hvernig hefur ferlið verið? 

Að taka þátt í keppni Ungra Einleikara er örugglega eitthvað sem flestir tónlistarnemendur í framhaldsnámi stefna að og er gott verkefni til þess að hafa sem markmið þegar maður er í námi. Ferlið hefur verið mjög lærdómsríkt, oftast skemmtilegt en auðvitað líka stressandi.

 

Hvaða verk munt þú flytja og afhverju varð þetta verk fyrir valinu?

Ég mun flytja Flautukonsert eftir franska tónskáldið Jacques Ibert. 
Það þarf að vanda valið þegar flytja á einleik með hljómsveit því þau tækifæri gætu ekki orðið mörg á tónlistarferlinum. Ég ákvað því að velja eitt af mínum uppáhaldsverkum sem ég tengi einstaklega vel við og get hreinlega ekki beðið eftir að spila. 
 

Hvaða tækifæri telur þú að keppnin geti haft í för með sér? 

Það verður bara að koma í ljós býst ég við en þetta er auðvitað frábært að hafa á ferilskránni og ótrúlega góð reynsla.  

Hvað er framundan?

Ég flýg daginn eftir tónleikana til Kaupmannahafnar til að halda áfram í námi og verð að stússast í ýmsu á komandi önn. Á döfinni er síðan ferð til Kína með kammersveit á vegum skólans, flautuferðir til Póllands og Hollands, og ýmis önnur verkefni innan skólans. Síðan er vert að nefna að ég kem til með að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins (Ungfóníunni) á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði næsta sumar.

 

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?

Ekki nema að vitna í skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, Heklugjá, sem ég las nýlega, þar sem hann lýsir listinni á svo skýran hátt 

,,…,fegurðin kemur að handan, hvernig verkið tjáir sig, hreyfir sig, ávarpar okkur, ... ,það er kraftur og tjáning hlutanna sem við túlkum okkur til ánægju, listaverkið er verkjalyf, það losar um sársauka, opnar nýja sýn, nýjan skilning svo við drepumst ekki úr leiðindum í þessu lífi.”
Þetta finnst mér lýsandi fyrir mikilvægi lista.
Áfram listir og listnám!

Einleikararnir fjórir koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg næstkomandi fimmtudag og er miðasala hafin á tix.is
Við þökkum Kristínu Ýr fyrir og óskum henni góðs gengis á stóra sviðinu!