Gunnar Kristinn Óskarsson mun, ásamt þremur öðrum einleikurum, stíga á Eldborgarsvið Hörpu næstkomandi fimmtudag. Þar flytur hann einleiksverk fyrir trompet ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands en tónleikarnir eru afrakstur keppni Ungra Einleikara. Keppnin er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitarinnar og hefur verið haldin árlega frá árinu 2003. 
 
Gunnar hóf trompetnám 6 ára gamall í Skólahljómsveit Austurbæjar undir leiðsögn Bjarna Guðmundssonar og síðar Odds Björnssonar.  Hann spilaði svo næstu 11 ár í Skólahljómsveitinni undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur. Með hljómsveitinni tók hann þátt í tónleikaferðum innanlands sem utan, Nótunni og fleiri verkefnum.
Árið 2013 hóf hann nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Eiríks Arnar Pálssonar og síðar Ásgeirs Steingrímssonar og útskrifaðist þaðan með framhaldspróf 2017. Haustið 2018 lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hann stundar nú nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium hjá Nikolaj Viltoft og Jonas Wiik.
Gunnar lék með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2014 - 2017. Hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Malmö Sinfonietta og DKDM Symfoniorkester.
Hann hefur sótt meistaranámskeið hjá Håkan Hardenberger, Phil Cobb, Omar Tomasoni og fleirum. og er einnig virkur meðlimur í kammerhópunum Lúðraflokki Lýðveldisins og kvartettinum Málmi. Gunnar tekur reglulega þátt í tónlistarflutningi í Bústaðakirkju og hefur átt mikið og gott samstarf við Jónas Þóri kantor í mörg ár.
 
Gunnar er sérlega yfirvegaður og einbeittur karakter og það sama má segja um hann sem flytjanda. Hann hefur einstakt vald á hljóðfæri sínu en við kynnumst honum betur í stuttu viðtali þar sem hann segir frá upplifun sinni á keppninni og því sem framundan er. 
 

Hvaða verk munt þú flytja og afhverju var þetta verk fyrir valinu?

 
Ég mun flytja trompetkonsert eftir Arutunian.
Þegar kemur að trompetkonsertum er úrvalið ekki mikið. Við eigum tvo klassíska, einn eftir Haydn og annan eftir Hummel. En svo má segja að 20. öldin sé gullöldin að frátöldu barrokinu sem hefur að geyma nokkur af albestu verkum trompetbókmentanna en valið stóð á milli trompetkonserts eftir annars vegar eftir Haydn og hins vegar Arutunian. Ég er mjög hrifinn af þeim báðum en það verður að játast að sá síðarnefndi er talsvert áhugaverðari til hlustunar. Þó svo að mér þyki mjög vænt um Haydn og er jafnvel hrifnari af honum sjálfur. Á endanum þarf maður einfaldlega að velja, standa með því og fara alla leið. Það þýðir ekkert hik! 
Konsertinn hefur heillandi austrænan blæ enda tónskáldið frá Armeníu og verkið innblásið af þjóðlagatónlist þaðan sem er byggð á öðrum tónstigum en við eigum að venjast hér á Fróni.  
 

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í UE og hvernig hefur ferlið verið?

 
Þetta er náttúrulega eina einleikarakeppnin á Íslandi og frábært tækifæri til þess að fá að undirbúa og kynnast verki mjög vel og svo flytja það. Ferlið hefur verið erfitt en skemmtilegt. Nú hef ég verið að æfa konsertinn í rúmt ár og ég viðurkenni að það getur reynt á þolinmæðina. Áskorunin er að reyna að finna nýja vinkla og kynnast verkinu sem best sem er mjög hollt og þroskandi.
 

Hvaða tækifæri telur þú að keppnin hafi í för með sér? 

 
Það er náttúrulega frábært tækifæri að fá að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynnast starfsháttum þar og kynnast hljóðfæraleikurunum. 
 

Hvað er framundan?

 
Nú tekur við þriðja önnin mín í bakkalárnaminu  í Kaupmannahöfn og mörg verkefni í tengslum við námið. 
 

Er eitthað sem að þú vilt koma á framfæri að lokum?

 
Í fyrsta lagi vil ég þakka Listaháskólanum og Sinfóníuhljómsveitinni fyrir að standa að keppninni! Það er frábært tækifæri fyrir upprennandi hljóðfæraleikara að fá að taka þátt í svona keppni og ég tala nú ekki um að fá að stíga á svið sem einleikari í Eldborg. 
Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á keppninni að kýla á það. Maður hefur engu að tapa en græðir reynslu og þekkingu á ferlinu og kannski mikilvægast, sjálfum sér. 
Undirbúningsferlið er strembið og getur reynt á taugarnar en það er þess virði.

Einleikararnir fjórir koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg næstkomandi fimmtudag og er miðasala hafin á tix.is
Við þökkum Gunnari fyrir og óskum honum góðs gengis á stóra sviðinu!