Fiðluleikarinn Sólveig Vaka Eyþórsdóttir er meðal þeirra fjögurra keppenda sem báru sigur úr býtum í keppninni Ungir Einleikarar 2020. Aðeins 8 ára að aldri hófst námsferill hennar í tónlist, nánar tiltekið í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Þar lærði hún undir leiðsögn Önnu Rúnar Atladóttur til ársins 2009 en þá lá leiðin í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem Ari Þór Vilhjálmsson tók við leiðsögninni. 
Sólveig Vaka, sem oftast er kölluð Vaka, var nemandi við Listaháskóla Íslands frá árinu 2014-1016 þar sem hún stundaði nám í hljóðfæraleik hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Vaka er nú búsett í Þýskalandi þar sem hún stundar nám við tónlistarháskólann í Leipzig. Þá hefur hún sungið í Hamrahlíðakórnum um árabil ásamt því að stunda söngnám hjá Hallveigu Rúnarsdóttur samhliða fiðlunáminu. 
Á námsárum sínum í LHÍ kynntist hún tónlistarmanninum Ólafi Arnalds og hefur nú ferðast víðvegar um heiminn með Ólafi og fríðu föruneyti listamanna að flytja tónlistina hans.
 
Vaka hefur einstaka tilfinningu fyrir tónlist sem skilar sér svo sannarlega í flutningi hennar. Hún hefur mikla útgeislun og framtíð hennar er björt. 
Vaka hefur svarað nokkrum spurningum um upplifun hennar á keppninni og segir frá því sem er framundan hjá þessum unga einleikara. 
 

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í UE og hvernig hefur ferlið verið?

Mig hefur lengi dreymt um að hljóta þetta tækifæri, og mér fannst bara eins og ég væri tilbúin í það á síðasta ári. Ferlið hefur verið strembið og mikil nýjung, en samt mjög ánægjulegt. 

Hvaða verk munt þú flytja og afhverju var þetta verk fyrir valinu?

Ég mun spila fyrsta fiðlukonsert Max Bruch. Ég hef alltaf elskað þetta verk, og ég hafði það bara á tilfinningunni að ég gæti spilað verkið á þann hátt að fólk myndi hrífast af því. Ég vona það allavega! 
 

Hvaða tækifæri sérð þú fyrir þér að keppni sem þessi getur haft í för með sér?

Stærsta tækifærið er bara það að fá að standa á Eldborgarsviðinu og spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og upplifunin sem því fylgir býr eflaust með mér óralengi. 
 

Hvað er framundan?

Ég klára bakkalárnámið í tónlistarháskólanum í Leipzig í sumar, og því fer þetta næstkomandi vor og sumar aðallega í undirbúning fyrir lokatónleika og áheyrnarprufur fyrir áframhaldandi nám. Annars er ég mjög spennt fyrir EM í handbolta og alls konar íþróttaviðburðum!  
 

Einhver lokaorð?

Áfram Liverpool!  
 
Einleikararnir fjórir koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg næstkomandi fimmtudag og er miðasala hafin á tix.is
Við þökkum Vöku fyrir og óskum henni góðs gengis á stóra sviðinu!