Flemming Viðar Valmundsson er einn af fjórum einleikurum sem báru sigur úr býtum í keppninni Ungir Einleikarar 2020. Nú styttist í stóru studina en einleikararnir munu stíga á Eldaborgarsvið Hörpu fimmtudaginn 16.janúar. 
Flemming hefur langa og haldbæra tónlistarmenntun að baki en um 6 ára aldur hóf hann tónlistarnám í Tónlistarskóla Grafarvogs. Harmónikkan varð fyrir valinu og á 18 ára afmælisdaginn lauk hann framhaldsprófi í hljóðfæraleik. Guðmundur Samúelsson var kennari Flemmings til margar ára en þeir spiluðu saman í Hamónikkukvintett Reykjavíkur sem vann til verðlauna á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna.  Þar að auki hefur Flemming reynt fyrir sér á ýmsum tónlistarlegum vettvangi allt frá klassík yfir í þungarokk.  

Flemming er líflegur karakter með sterka framtíðarsýn. Við kynnumst honum betur í stuttu viðtali um tónlistarlegan bakgrunn hans, upplifun hans á keppninni og allt sem framundan er.

 

En hvað tók við að framhaldsprófi loknu? 

Eftir að hafa lokið harmónikkunáminu og seinna stúdentsprófi frá MH fór ég í Tónlistarskóla FÍH til þess að læra í raun á hljóðfæri sem ég hafði stundað upp á eigin spýtur og lauk þá grunnprófi á bæði bassa og trommur. Ég spilaði jazztónlist með ýmsum samspilshópum áður en ég ákvað að snúa mér hægt og rólega aftur að klassíkinni. 
Ég hóf þá nám í harmónikkuleik við FÍH til þess að læra eins mikið af fræðigreinum jazztónlistar og ég gat á einu ári undir leiðsögn Eyþórs Gunnarssonar. Á sama tíma hóf ég undirbúning fyrir inntökupróf í Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn eftir þónokkra fjarveru frá strangklassískum harmónikkuleik.   
Ég starfaði talsvert sem athafnaspilar og hér og þar sem einleikari en hef einnig starfað í leikhúsbransanum. Þá má nefna Þjóðleikhúsið og Leikfélagi Mosfelssveitar sem setti upp leikritið Ronju Rænigjadóttur en sýningin var valin áhugaverðasta áhugamannaleiksýning ársins. Leikfélagið setti einnig upp Skilaboðaskjóðuna þar sem ég starfaði sem hljómsveitarstjóri. 
Það var svo sömu helgi sem ég vinn 2.sæti Músíktilrauna með þungarokksdúettinum Phlegm og hlaut titilinn ,,Bassaleikari Músíktilrauna” sem ég fæ bréfið um að ég hafi komist inn í skólann úti og lá þá leiðin til Kaupmannahafnar. Nú hef ég lokið 5 misserum og útskrifast því þaðan með BMus í vor. Þar hef ég lært hjá Geir Draugsvoll, og í seinni tíð einnig hjá Andreas Borregaard, en Geir er meðal þekktustu og reyndustu harmónikkuleikurum og kennurum heims. Á þeim tíma hef ég komið víða fram á tónleikum, annað hvort sem einleikari eða í dúettum og kammerhópum, auk þess sem ég tók þátt í keppninni Castelfidardo á Ítalíu (ein sú strærsta í harmónikkuheiminum) og lenti þar í 3.sæti í mínum flokki. 

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í UE og hvernig hefur ferlið reynst þér?  

Einhvern veginn stóð það alltaf til að taka þátt í þessari keppni. Alveg frá því að ég var unglingur leit ég á keppnina sem markmið, ef ég skyldi fara svo langt með hljóðfærið að ná þangað. Þetta er frábær vettvangur fyrir ungt fólk að koma sér á framfæri í þessum tónlistarheimi auk þess sem mér finnst það einstaklega fallegt að fara á tónleika með ungum flytjendum með minni reynslu sem njóta þess að koma fram og fagna hve langt það hefur náð í sinni list og samgleðjast þeim um leið. 
 
Undirbúningsferlið var mér einstaklega erfitt og langt en það var fyllilega þess virði. Þrátt fyrir að verkið sé samið nokkuð seint en þó í þessum stíl, þá sá Nordheim líklega ekki fyrir sér að það yrði nokkurn tíma flutt í þessu staðlaða einleikara-meðleikara formi. Í það minnsta undirbjó hann aldrei neinn meðleikarapart fyrir verkið, eða nokkur annar. Til þess að geta leikið þetta verk í keppninni þurfti ég því að gera það sjálfur. Ég útsetti hljómsveitarpartinn fyrir píanó og harmónikku, auk hljóðupptaka sem ég vann sjálfur, sem var ansi tímafrekt verk samhliða því að undirbúa eigin flutning. Þar að auki gekk erfiðlega að finna píanóleikara í Reykjavík sem gat tekið við því verkefni að spila með mér í keppninni, svo að ég þurfti að taka með mér bæði harmónikkuleikara og píanóleikara í keppnina frá Kaupmannahöfn, en það var ekki í höfn fyrr en daginn fyrir umsóknarfrestinn.  
En þegar í Kaldalón var komið gekk allt eins og í sögu, og ferlið síðan þá hefur verið talsvert léttara.  
Nú hefur stressinu verið skipt út fyrir spenning yfir því að fá að æfa verkið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðan flytja það fyrir forvitin eyru í Eldborgarsal Hörpu. 

Hvaða verk munt þú flytja í Eldborg og afhverju var það verk fyrir valinu?  

Ég mun leika Spur, eftir Arne Nordheim.  Valið kom til eftir að ég tók þátt í keppninni í fyrra og lék þá víðspilaðan harmónikkukonsert frá rómantískatímabilinu. Ég undirbjó fluttninginn á of skömmum tíma auk þess sem umfang konsertsins var ekki innan þægindaramma míns eða í mínum stíl. Það fór svo að ég varð ekki fyrir valinu en ákvað að næst skyldi ég velja eitthvað sem hentaði mér betur, væri jafnvel á hærra erfiðleikastigi og að
ég myndi gefa mér viðunandi tíma til undirbúnings! Með þetta allt í huga kom þessi konsert til, þetta drungalega, einmanalega og sprengikröftuga verk Nordheims fyrir harmónikku og hljómsveit. Verkið er samið árið 1975 og var skrifað fyrir Mogens Ellegaard, sem er oft kallaður faðir klassísku harmónikkunnar, en Mogens var brautryðjandi hljóðfærisins í klassískri tónlist í Skandinavíu og Evrópu. Tónmál og inntak verksins henntar mér vel, verkið er virkilega vel samið og ég hlakka til að miðla krafti þess og harmónikkunnar til áheyrenda í salnum og vonandi til fleiri áheyrenda í framtíðinni. 
 

Hvaða möguleikar opnast við þátttöku í keppninni? 

Þessi keppni er frábær vettvangur og einstakt tækifæri til að spila sem einleikari, það kemur ekki upp í hendurnar á manni sisvona. Þetta er sérstaklega gott tækifæri til að kynna hljóðfærið í þessu samhengi og þessum heimi, en harmónikkan er enn jaðarhljóðfæri í klassíska tónlistarheiminum og þurfa harmóníkuleikarar að nýta hvert tækifæri sem býðst til þess að kynna það. Ef ég hefði ekki fengið þetta tækifæri gætu liðið mörg ár áður en annað tækifæri býðst, hvað þá sem einleikari með atvinnumannahljómsveit á pari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þessi reynsla mun nýtast mér ævilangt, sérstaklega til þess að komast aftur á stóra sviðið eða að spila með hljómsveit. Ég er mjög heppinn að fá að upplifa þetta svona snemma á ferlinum. 
 

Hvað er framundan?  

Eftir tónleika fer af stað undirbúningsvinna fyrir ýmis verkefni. Það stærsta er líklega bakkalárprófið sjálft í Kaupmannahöfn sem verður í júní, en eftir það stefni ég á áframhaldandi nám í sama skóla þar sem ég hef komið sér vel fyrir. Þar mun ég svo nýta mér aðstöðuna til að koma undir mig fótunum og skapa mér nafn sem einleikari, í samspili og framar öllu tónlistarmaður.
 

Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri að lokum?  

Það er ekki hægt að fara nógu mörgum orðum um þá þakkarskuld sem ég er í gagnvart bæði foreldrum mínum, fyrir óbilandi trú, stuðning og þolinmæði í gegnum árin, og kennara mínum Guðmundi, fyrir eilífan velvilja og að hafa gert brautina greiða fyrir mig sem hljóðfæraleikara og tónlistarmann. Ég hlakka til að leyfa ykkur að sjá afraksturinn í Eldborg. 

Einleikararnir fjórir koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg næstkomandi fimmtudag og er miðasala hafin á tix.is
Við þökkum Flemming fyrir og óskum honum góðs gengis á stóra sviðinu!