Sýningin Í Landslagi opnaði í byrjun nóvember á Svavarssafni á Höfn í Hornafirði. Á sýningunni sýna meðal annars Thomas Pausz vöruhönnuður og lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og þær Inga Kristín Guðlaugsdóttir og Elín Sigríður Harðardóttir sem útskrifuðust úr vöruhönnun við Listaháskólann síðastliðið vor.

 
Svavarssafn
Hanna Dís Whitehead er safnvörður á Svavarssafni og hóf störf þar árið 2017. Hún er listhönnuður og útskrifaðist frá Hönnunarakademíunni í  Eindhoven árið 2011. Hún er jafnframt stundarkennari við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Safnið, sem opnaði árið 2011, er í Ráðhúsi Hornafjarðar og var stofnað eftir að ekkja Svavars Guðnarssonar færði sveitarfélaginu verk hans að gjöf. Safnið hefur sýnt verk eftir fjölbreytta listamenn og hönnuði og Listaháskólinn spurði Hönnu Dís aðeins út í sýningarstefnu safnsins:
 
Hanna Dís: „Á Svavarssafni eru þrjár sýningar opnaðar á ári. Fræðslusýning á haustin, sýning með tengingu við svæðið á vorin og verk eftir Svavar Guðnason á sumrin. Hugmyndavinnan á bakvið sýningarnar tengist þessu, auk þess sem við í anda Svavars reynum að koma með nýja sýn á hlutina. Þar að auki reynum við að tengjast áhugasviðum eða umræðum sem eru að eiga sér stað hjá Hornfirðingum. Hönnuðir og listamenn koma hvoru tveggja með ný sjónarhorn á viðfangsefni  og fá gesti safnsins til að velta fyrir sér hlutunum. Það er skemmtilegt að reka safn á landsbyggðinni og auðvelt að eiga í beinum samskiptum og samtölum við samfélagið í kringum okkur. Það er prýðileg umferð af gestum enda ferðamenn á svæðinu orðið allt árið. Þar að auki eru Hornfirðingar duglegir að sækja viðburði á vegum safnsins auk þess sem við fáum marga skólahópa í heimsókn af svæðinu.“
 
img_2197.jpg
Mynd frá Svavarssafni
 
Í landslagi
Vetrarsýning Svavarssafns í ár heitir Í landslagi og opnaði miðvikudaginn 6. nóvember síðastliðinn. Þema sýningarinnar er, eins og nafnið gefur til kynna, tengt landslagi en í texta um sýninguna segir:

„Landslag mótast af þeim náttúrulegu og manngerðu fyrirbærum sem þar eru sýnileg. Það er samspil jarðfræðilegra fyrirbrigða sem og samlífi við dýr og menn. Landslag varpar fram mynd af því lífi sem á sér stað og hefur átt sér stað, og getur jafnvel gefið okkur vísbendingar um það sem getur orðið. Ystu lög landslags mótast af ólíkri menningu og staðháttum hverju sinni. Landslag sem þurrkast út og gleymist eða verður varanlegur hluti af framtíðarmynd landsins. Í landslagi birtist maðurinn og tilraunir hans til að móta og búa í náttúrunni, dýrin sem þar dvelja, trúin á yfirnáttúrlegar verur, auk sýnistöku úr framtíðarsköpunarsögu jarðar.“

Thomas Pausz vöruhönnuður og lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild er einn þeirra sem sýnir verk á sýningunni útfrá verkefninu Non Flowers for a Hoverfly, sem meðal annars hefur verið sýnt í Victoria&Albert Museum í London Verkefnið gengur út á að skilja hvatir frjókornadreifara á borð við býflugur betur til að geta bætt samvinnu manna og skordýra við matarframleiðslu. Að verkinu unnu ásamt Thomasi þau Dr. Shannon Olsson og Vikram Pradhan, rannsakendur hjá Náttúrumiðstöð líffræðilegra vísinda í Bangalore (e. the Natural Center for Biological Sciences) en Vikram leggur nú stund á MA nám í hönnun við Listaháskólann. Verkefnið sjálft nýtir sér sýndarveruleika fyrir býflugurnar til að rannsaka hvernig þær skynja heiminn og umhverfið. Niðurstöður rannsóknarinnar eru síðan notaðar til að skapa form sem virka eins og nokkurs konar gerviblóm. Thomas vann svo innsetningu með gerviblómunum sem hafa verið prentuð með þrívíddartækni.

 
Listaháskólinn spurði Thomas hvort honum finndist þverfaglegt samstarf gagnast sér sem hönnuður:
Thomas Pausz: „Algjörlega! Ég vinn með vísindamönnum, bæði í verkefninu Non Flowers og í nýjasta verkinu mínu sem heitir Spacecoralia, og verkefnin mín hafa alltaf tengst inní líffræði – jafnvel þó atburðarrás þeirra sé staðsett utan líffræðinnar. Í augnablikinu er ég líka í samskiptum við heimspeking sem er í doktorsnámi þar sem hann skoðar sambönd ólíkra tegunda innan manngerðra vistkerfa, til dæmis í gróðurhúsum og geimförum. Þessi samtöl sem ég við ólíka sérfræðinga virka vel meðfram hönnunarvinnunni þar sem ég prófa mig áfram með efni og miðla. Hönnunin og samtalið við sérfræðingana tala inn í hvort annað, en púslast ekki endilega saman. Þetta eru meira eins og brot, en þau búa til töfrana.“
 
 
LHÍ: Segðu okkur meira frá þessu nýja verkefni
Thomas Pausz: Nýjasta verkefnið mitt kallast Spacecoralia (sjá myndir fyrir ofan), það verður sýnt á Hönnunarvikunni í Stokkhólmi. Þar er ég að rannsaka líkindin á milli geimrannsókna og neðanjávarrannsókna. Verkefnið er skáldverk þar sem teymi Geimgrasafræðinga (e. Astrobotanists) sem reyna að rækta plöntur og þörunga í geimnum, lenda óvart í því að skapa nýtt líf sem kallast Spacecoralia.“
Þær Inga Kristín Guðlaugsdóttir og Elín Sigríður Harðardóttir vöruhönnuðir sem útskrifuðust úr vöruhönnun við Listaháskólann í vor 2019 sýna einnig á sýningunni. Verk þeirra Lúpínan í nýju ljósi er bæði hluti af aðalsýningunni en þær eru líka með sýningu í fremra rýminu sem er byggt á því og heitir Ábati eða óværa sem eru veggverk unnin með lúpínu sem aðalefni. 
 
Hlutverk hönnuða
Þau Hanna Dís og Thomas vinna bæði sem hönnuðir og í þverfaglegu samhengi, við nýttum því tækifærið og spurðum þau út í hlutverk hönnuða í samtímanum og þróun þess á næstu árum:
Hanna Dís: „Hönnuðir hafa í raun alltaf haft það hlutverk að koma með nýja sýn á hlutina. Hvort sem það er yfirborð, notagildi eða ferli. Þeir svara því sem er í gangi í samfélaginu að hverju sinni. Nú eru umhverfismál í brennidepli og því margir að svara því kalli.  En við erum almennt líka farin að tala um mikið fleiri hluti en áður og auðveldara er að afla sér upplýsinga um ólík viðfangsefni. Við erum að skapa með mismunandi tilgang hvort sem það er tengt fjöldaframleiðslu, sértæku notagildi eða að hanna eitthvað sem veitir gleði. Hönnun er og verður vonandi allskonar. Hún hefur nefnilega burði til að snerta mismunandi strengi í hinu mannlega.“ 
Thomas Pausz: „Ég heillast mjög mikið af þeirri hugmynd að teygja fagið og hugmyndir okkar um hönnun í margar og ólíkar áttir. Þá er til dæmis hægt að nefna hönnunarblaðamennsku (e. Design Journalism), og hönnunarskáldskap (e. Design Fiction) þar sem ímyndunaraflið er virkjað, og senur, leikmunir og karakterar eru nýttir. Ég held að hvort sem er hefðbundnari hönnun eða hönnun á borð við þessa sem ég lýsi séu jafngildar, og taka þátt í að skapa þá fjölbreyttni sem verður að vera til staðar í faginu.
 
Á sýningunni Í landslagi eru einnig sýnd verk eftir Ásgrím jónsson (verk úr einkasafni), Einar Þorstein Ásgeirsson (að láni frá Hönnunarsafni Íslands), Guðmund Einarsson (verk úr einkasafni), Jón Þorleifsson, Söru Björg Bjarnadóttur, Svavar Guðnason og Sigurð Einarsson. Auk lánsmuna frá Byggðasafni Austur-Skaftafellssýslu og Birni Arnarsyni.
Sýningarstjóri er Hanna Dís Whitehead og um sýningarhönnun sjá þær Hanna Dís og Irene Hrafnan.
Listaháskólinn hvetur alla sem eiga leið hjá Hornafirði að láta sýninguna ekki framhjá sér fara.