Halldóra Arnardóttir, doktor í listfræði og sýningarstjóri, hélt opinn fyrirlestur í Laugarnesi fimmtudaginn 28. nóvember 2019.

 
Í tilefni útgáfu bókarinnar Örn Ingi Gíslason, Lífið er LEIK-fimi mun fyrirlestur Halldóru fjalla um arfleið listamannsins sem kennari, allt frá 1983-2015.

 

 

Örn Ingi listamaður; Nemendur = leikmenn sköpunar

 
Örn Ingi (1945-2017) vann þvert á listirnar. Hann var djarfur á breytingar því eitt var að vinna í myndlist - vinna einn og óhræddur við að segja meiningu sína, tjá sig - og hitt, að vinna sem kennari - hlusta á aðra, örva og búa til tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Oft spurði hann sig: Hvernig er hægt að virkja hæfileika sem enginn veit að eru til?
 
„Örn Ingi var hinn óþreytandi plógmaður sem breytti ásum og móum í frjósamt akurlendi,“ skrifaði Pétur Þorsteinsson fyrrum skólastjóri Grunnskólans á Kópaskeri. Það gerði hann ekki síst á Kópaskeri árið 1983 með fyrstu Listahátíð staðarins.
 
Örn Ingi notaði „trúðinn“ sem tákn um þor. „Trúðar eru alltaf á bjargbrún, það eru þeir sem þora að taka áhættu“, sagði hann í viðtali sumarið 2017. Frelsi til athafna var grundvallaratriði þó oft þótti það óþægilegt, auðveldara að láta segja sér fyrir verkum... Það var hins vegar mikilvægt að fara út fyrir þægindaramman öðru hvoru, ekki síst til að búa til nýjar tengingar og taka á flug. 
 
 
orn_ingi_1984.jpg
 

 

Halldóra Arnardóttir er listfræðingur (B.A. Hons) frá University of Essex, England, 1990. Hún lauk meistaraprófi í nútímabyggingalistasögu frá Bartlett School of Architecture, University College London í London, árið 1992 og doktorsprófi árið 1999 frá sömu stofnun. Sjálfstætt starfandi listfræðingur á Íslandi og á Spáni, auk þess gestakennari og fyrirlesari víða í Evrópu, Ameríku og Asíu um verkefnið Listir og menning sem meðferð, arkitektúr og hönnun m.a. í The Bartlett School of Architecture í London, MoMA og Metropolitan of Art í New York, landsþing Grikkja um heilabilun í Tessalóniki, Carleton University í Ottowa, The National College of Art & Design í Dublin og Þjóðminjasafn Seoul í S-Kóreu.
 
Helstu bókverk og verkefni: Sögur húsanna / Historias de Casas (2001-2008) sem greinaflokkur fyrir dagblöðin Morgunblaðið, La Verdad og ABC, sjónvarpsþáttur um Manfreð Vilhjálmsson fyrir Ríkissjónvarpið (2004), þáttaraðir í Ríkisútvarpinu um hönnun og arkitektúr (2005-2007), ‘Innanstokksmunir. Samspil húsbúnaðar og híbýla’ í Hlutavelta tímans. Menningararfur á þjóðminjasafni (2004), Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. (með Pétri H. Ármannssyni 2009), Kristín Guðmundsdóttir híbýlafræðingur/interior designer (2015), Listir og menning sem meðferð, íslensk söfn og alzheimer (2017) og sýningarstjóri sýningarinnar Örn Ingi Gíslason- Lífið er LEIK-fimi í Listasafninu á Akureyri sem leiddi til bókverks með sama titli (2019). 
 
74568671_573929539845926_447180523001872384_n.jpg