Þann 6. desember mun hinn heimsþekkti tenórsöngvari Stuart Skelton leiðbeina nemendum söngbrautar í opnum tíma.  Með söngvurunum leikur Matthildur Anna Gísladóttir.
Tíminn fer fram í Flyglasal, Skipholti 31 frá kl 14-17.
Áhugasamir eru velkomnir að mæta og fylgjast með.

Stuart Skelton hefur sungið í helstu óperuhúsum heims, Metropolitan-óperunni í New York, óperuhúsunum í Seattle og San Fransisco, Ensku þjóðaróperunni (ENO), Parísaróperunni, Ríkisóperunni í Berlín, Deutsche Oper í Berlín og Vínaróperunni.  Meðal helstu hlutverka hans eru Lohengrin, Parsifal og Peter Grimes auk Florestan í Fidelio, Erik í Hollendingnum fljúgandi, Bakkus í Ariadne á Naxos og Siegmund í Niflungahringnum. 

Skelton hefur einnig komið fram með Sinfóníuhljómsveitunum í Atlanta, Boston, Chicago, Cleveland, San Fransisco og Montreal með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, Sinfóníuhljómsveit Lundúnaborgar og Sinfóníuhljómsveitunum í Sydney og Melbourne. Hann hefur komið fram á tónlistarhátíðunum í Edinborg og Luzern og á BBC Proms og unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Vladimir Ashkenazy, Daniel Barenboim, Christoph von Dohnányi, Christoph Eschenbach, Mariss Jansons, James Levine, Lorin Maazel og Sir Simon Rattle.

Stuart Skelton söng hlutverk Peters Grimes, samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Listahátíðar vorið 2015 en það hlutverk hefur hann túlkað víða, m.a. við Ensku þjóðaróperuna í rómaðri leikgerð Davids Alden, á tónleikum á BBC Proms og með Lundúnafílharmóníunni undir stjórn Vladimirs Jurowski.