Í byrjun nóvember bauð Listaháskóli Íslands til um opins fundar og umræðna um þróun kvikmyndalistnáms á háskólastigi. Listaháskólinn hefur fengið fjármagn frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þess að undirbúa og þróa kvikmyndadeild.
Á fundinum héldu Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ og Karólína Stefánsdóttir, verkefnstjóri erindi um undirbúning að stofnun kvikmyndadeildar við LHÍ. 
Í erindi sínu sagði Fríða Björk meðal annars að markmiðið með náminu væri bjóða upp á kvikmyndanám á háskólastigi í háskóla sem nú þegar hefur framúrskarandi orðspor fyrir kennslu í öllum öðrum listgreinum. Að bjóða kvikmyndagerðarnemum námtækifæri við hlið þeirra sem stunda nám í tónlist, hönnun, arkitektúr, myndlist, sviðslist, listkennslu og svo framvegis - Í því samhengi sem markar menningarlega sérstöðu okkar hér á landi. Það sem við getum boðið er: sterkt listasamfélag, námsleiðir sem hafa sannað gildi sitt í íslensku menningarlífi, námsumhverfi þar sem nýsköpun á sér stað og þar sem kennarar hafa rannsóknartækifæri sem næra sérsvið viðkomandi.
Auk Fríðu og Karólínu voru fengin til liðs við fundinn þau Katherine Dieckmann leikstjóri og handritshöfundur, prófessor við Columbia háskóla í New York þar sem hún kennir handritsskrif. Fjallaði hún um kvikmyndanám við skólann þar sem mikið er lagt upp úr því að kenna grunndvallar þekkingu á faginu og að sagan og uppbygging hennar er kjarninn í því  að  vinna vel úr miðlinum eftir útskrift. Auk þess að veita nemendum tækifæri til þess að þróa sína eigin rödd sem listafólk.
Mette Damgaard-Sorensonsem er listrænn stjórnandi New Danish Screen hjá danska kvikmyndasjóðnum sem styður við framleiðslu fyrstu mynda leikstjóra. Hún ræddi kvikmyndanám í Danmörku og á Norðurlöndunum, hagnýta kennslu á grunngildum og starfsaðferðum í greininni auk mikilvægi þess að miðla fjölbreyttri þekkingu úr öðrum fögum til þess að búa nemendur sem best fyrir framtíðina. Einnig talaði hún fyrir nauðsyn þess að brúa bilið úr kvikmyndanámi yfir í fagséttina og auka myndlæsi almennings. Einnig fjallaði hún um breytingar á kennsluskrá danska kvikmyndaskólans og hvernig hann er að færast inn í ECTs einingakerfið.
Breski framleiðandinn Ben Gibson og stjórnandi við DFFB eða Þýsku kvikmynda og sjónvarps akademíunni í Berlín áður skólastjóri í London Film School og Australian national film school fjallaði um kvikmyndanám í víðu samhengi og mismunandi aðferðafræði við kennslu kvikmyndagerðar. Ræddi hann um mikilvægi þess að læra vel grunninn í kvikmyndanámi og skapa svigrúm til þess að nemendur fái tækifæri til þess að gera mistök og læra af reynslu með æfingu. Vel mótað kvikmyndanám á háskólastigi er nauðsynlegur liður í því að undirbúa nemendur fyrir fagvettvanginn þar sem mikil samkeppni ríkir og gera áhorfendur núorðið miklar kröfur.
Að lokum fjallaði Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri og handritshöfundur um stöðu nýrra leikstjóra á Íslandi í dag. Líta má svo á að greinin er enn að þróast og mótast og veitir það kvikmyndagerðarfólki frelsi til þess að gera nánast hvað sem er því hefðirnar eru ekki niður njörvaðar. Á síðastliðnum 10 árum hafa íslenskar myndir skapað sér aukinn sess á meðal alþjóðlegra áhorfenda sem nú þekkja ekki aðeins eitt og eitt verk heldur íslenskar kvikmyndir. Með kvikmyndanámi á háskólastigi í landinu gæti það aukið gæði greinarinnar og haft jákvæð áhrif á fagvettvanginn og opnað enn frekar fyrir listrænt samtal við umheiminn.  
 Fundarstjóri var Steven Meyers, ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands en hann fer einnig fyrir stýrihóp sem skipaður var í tengslum við þróunina á náminu.
Eftir erindin var þátttakendum boðið að taka þátt í umræðum um námið í smærri hópum.
umræður á fagfundi 5.nóv. 2019
Frá umræðufundinum í kjölfar erindanna þann 5.nóvember sl. 
 
Setið var í 5 – 8 manna hópum og voru ræddar þær væntningar sem viðstaddir hafa til náms í kvikmyndalist á háskólastigi. Umtalsverð gögn söfnuðust sem unnið verður nánar úr. Það mátti helst greina samstöðu um að námið þyrfti að vera yfirgripsmikið á fyrstu stigum og að nemar þyrftu að fá undirstöðu í öllum helstu liðum kvikmyndagerðar.
Eins var mikið rætt um lengd námsins og á hvaða stigi námið ætti heima. Sérhæfing var títtnefnd sem og frelsi til sköpunar. 
 
Hér má lesa nánar um virtu gestafyrirlesarana
Katherine Dieckmann er rithöfundur og leikstjóri frá New York. Nýjasta verk hennar er Strange Weather með Holly Hunter og Carrie Coon í aðalhlutverkum. Hún hóf feril sinn sem blaðamaður sem skrifaði um menningu fyrir rit eins og Rolling Stone og The Village Voice, eftir það leikstýrði hún tónlistarmyndböndum fyrir hljómsveitir eins og R.E.M., Aimee Mann, Wilco, og nú nýlega fyrir Sharon Van Etten. Hún hefur verið prófessor í handritagerð við Columbia í næstum 20 ár. Hún hefur einnig verið skapandi ráðgjafi Sundance Institute, IFP / Narrative Features Lab og Nantucket Screenwriters Colony.
Mette Damgaard-Sorenson er listrænn stjórnandi New Danish Screen sem ætlað er fyrir unga kvikmyndagerðarmenn sem gera fyrstu kvikmyndir sínar. Þar má nefnamyndir á borð við Sektarkennd og Vetrarbræður Hlyns Pálmason í fyrra. Þar áður var Mette skólastjóri evrópska kvikmyndaskólans í Ebeltoft í Danmörku, kvikmyndafulltrúi hjá Dönsku kvikmyndastofnuninni og hefur starfað sem handrit og þróunarráðgjafi í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Ben Gibson er yfirmaður þýsku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í Berlín. Áður starfað hann við ástralska kvikmyndaskólann og var lengi yfirmaður London Film School. Sem sjálfstæður framleiðandi og sem fyrrverandi yfirmaður framleiðslu hjá British Film Institute má nefna kvikmyndir eins og The Long Day Closes eftir Terence Davies, Wittgenstein eftir Derek Jarman og Love May the Devil eftir John Maybury. Hann hefur einnig dreift kvikmyndum leikstjóra á borð við Almodovar, Marker, Akerman og Godard og verið sýningarstjóri, leikhússtjóri, kvikmyndagerðarmaður og kvikmyndagagnrýnandi og blaðamaður.
Ása Helga Hjörleifsdóttir er íslenskur höfundur / leikstjóri hinna margverðlaunuðu stuttmynda Ástarsögu, Þú og ég, og Síðasta dans. Fyrsti kvikmynd hennar í fullri lengd, Svanurinn, var frumsýndur á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2017. Hún er um þessar mundir að þróa sína aðra kvikmynd, Svar við bréfi frá Helgu eftir bók Bergsveins Birgissonar. Ása Helga situr í stjórn Íslenska leikstjórasjóðsins og sem ráðgjafi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun og stefnu í kvikmyndum. Hún er útskrifuð, með láði, frá Colombia í New York.
 
gestafyrirlesarar á fagfundi 5.nóv.2019

Katherine Dieckmann, Mette Damgaard-Sorenson, Ben Gibson og Ása Helga Hjörleifsdóttir