Þorbjörg Daphne Hall dósent í tónlistarfræðum og fagstjóri fræða við Listaháskólan hélt erindi á ráðstefnunni Þjóðaspegillinn sem fór fram síðastliðna helgi á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Þjóðarspegillinn er vettvangur fyrir fræðilega umræðu um það sem efst er á baugi innan félagsvísinda og að þessu sinni voru 250 fræðimenn með erindi. Efnistök Þorbjargar voru byggð á doktorsritgerð hennar þar sem hún ber saman birtingarmynd íslenskrar tónlistar og hugmyndir um gildi hennar við upplifun íslenskra tónlistarmanna á sama málefni.

Hér má sjá brot úr viðtali sem birtist í Fréttablaðinu af því tilefni 1. nóvember.

Í ritgerðinni greindi Þorbjörg umfjöllun um íslenska tónlist og hvernig hún er sett fram í heimildarmyndum.

„Ég talaði líka við tónlistarmenn um hvernig þeir sjálfir lýsa einkennum tónlistarsenunnar og greindi hvernig þeir setja sína tónlist fram í myndböndum og kynningarefni,“ segir Þorbjörg. Myndirnar sem hún dró fram hafi togast á og ekki verið samrýmanlegar.

„Það er líka innri togstreita hjá tónlistarmönnum. Þeir vilja ekki endilega setja sig í þetta íslenska box en gera það kannski af því það virkar svo vel. Sumir þeirra sem ég talaði við vilja bara vera tónlistarmenn en ekki landkynning fyrir Ísland,“ útskýrir Þorbjörg.

Á fyrsta áratug aldarinnar, þegar hljóðheimur krúttanna hafi verið ríkjandi, hafi þetta jafnvel haft áhrif á tónlistarsköpunina.

„Ég held að þetta sé aðeins öðruvísi núna. Á þessum tíma var verið að leita eftir ákveðnu hljóði frá Íslandi. Það var eitthvað ákveðið sem passaði í boxið íslensk tónlist.“ 

Fréttina má lesa í heild sinni hér.
Þorbjörg var einnig einn viðmælanda í þættinum Samfélagið á Rúv. Hún er meðal síðustu viðmælenda en þáttinn er hægt að nálgast í heild sinni hér.