Í Opna listaháskólanum getur fólk sótt námskeið sem kennd eru í öllum deildum Listaháskóla Íslands. 
 
Á skólaárinu 2019 - 2020 er boðið upp á fjölbreytt úrval námskeiða, þar af eru fimm námskeið hefjast í nóvember. 
 

Myndlistardeild LHÍ býður upp á eitt námskeið í nóvember sem fram fer á íslensku

 

Geggjaðasta listgreinin hefst 6. nóvember

Kennarar: Aðalheiður L. Guðmundsdóttir & Jón Proppé
 
Listbyltingin mikla um 1960 hristi upp í öllu og lagði grunninn að ýmsu sem við teljum sjálfsagðan þátt í myndlist nú á dögum: Gjörningum, hljóðlist, bókverkum, póstlist, samfélagslist, landlist, hugmyndalist og notkun ljósmynda og lifandi mynda í myndlist. Í þessu fólst líka samruni hinna ýmsu listgreina eins og sviðslista, tónlistar og myndlistar.
 
Á Íslandi var það einna helst Magnús Pálsson sem kynnti þessar hugmyndir og kveikti áhuga yngri listamanna. Frá árinu 1975 stýrði Magnús nýrri deild við MHÍ sem fékk nafnið Nýlistadeild. Hann gekk út frá því að listnám og kennsla væru ekki bara undirbúningur heldur listgrein í sjálfu sér – „geggjaðasta listgreinin”. Margir nemenda hans urðu síðar með atkvæða- og áhrifamestu listamönnum landsins. Í námskeiðinu er bæði fjallað um listsköpun Magnúsar og hugmyndir hans og aðferðir í listnámi.
 

Listkennsludeild LHÍ býður upp á þrjú námskeið í nóvember, námskeiðin fara öll fram á íslensku

 

Safnafræðsla hefst 6. nóvember

Kennarar: Kristín Dagmar Jóhannesdóttir og Klara Þórhallsdóttir
 
Í námskeiðinu verður hugað að því hvernig fræðsla á söfnum getur mótað og þróað upplifun gesta í gegnum þátttöku þeirra og listræna samvinnu. Sjónum verður einnig beint að stafrænum miðlunar- og sköpunarleiðum ásamt samfélagsmiðlum.
 
Nemendur fá innsýn inn í fræðslustarfsemi á listasafni, vinna hagnýt verkefni og fá tækifæri til að vinna með safngestum. Þeir kynnast fræðilegum kenningum safnafræðslu sem miða að fjölbreyttri og áhrifaríkri fræðslu og skapandi starfi innan og í tengslum við söfn.
 

The Language of the Puppet hefst 7. nóvember

Kennari: Bernd Ogrodnik
 
Í námskeiðinu verður farið ítarlega í sögu, forsögu og notkun brúðuleiklistarinnar í heiminum síðustu aldir. Nemendur munu í framhaldi vera kynntir fyrir grunntækni og frekari möguleikum sem felast í sjö megin gerðum brúðuleiklistarinnar: Skuggabrúðuleikhúsi, Stangarbrúðum, Strengjabrúðum, Handbrúðum, Kjaftbrúður (Prúðuleikararnir, Latibær), Bunraku-Borðbrúður og Grímu- og Hlutaleikhúsi.
 
Áhersla er lögð á færni í að draga fram styrkleika og veikleika mismunandi leikbrúðuforma sem gerir nemendum fært að greina á skilvirkan hátt á milli þeirra óteljandi möguleika sem listformið býður upp á.
 

Námsefnisgerð hefst 21. nóvember

Kennari: Torfi Hjartarson
 
Fjallað er um námsefni og námsgögn sem notuð eru hér á landi, einkum á grunnskólastigi. Einnig eru skoðuð nokkur dæmi um erlend námsgögn. Leitað er svara við spurningunni: Hvert er hlutverk námsgagna? Rýnt er í ólíkar gerðir námsgagna og ýmiss konar námsefni er  kannað og greint með hliðsjón af greiningarlykli.
 
Skoðað er með dæmum hvernig fræðileg afstaða er útfærð í námsefni til dæmis í tengslum við kennsluaðferðir. Rætt er um lykilhugtök í námsefnisgerð og fjallað um rannsóknir og kenningar í tengslum við hana. Nemar spreyta sig á gerð verklýsingar fyrir námsefnisgerð að eigin vali.
 

Tónlistardeild LHÍ býður upp á eitt námskeið í nóvember sem fram fer á ensku

 

The History of Electronic Music hefst 12. nóvember

Kennari: Ríkharður H. Friðriksson
 
The course covers the history of electronic and computer music, including the main streams and genres and the principal composers and works in the field. History of Electronic Music II covers the period after the advent of the computer; i.e., from approximately 1970. The course does not delve deeply into theoretical or technical topics and could therefore be suitable for students from outside the Music Department.
 
Allar nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Opna listaháskólans!