Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að næstu framkvæmdir sem ráðist verður í á háskólastiginu verði úrbætur á Listaháskóla Íslands. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem spurði ráðherra á Alþingi í dag um niðurstöður frumathugun á húsnæðisvanda Listaháskólans og hvort búið væri að bregðast við þeim bráðavanda sem skólinn stendur frammi fyrir.
Ráðherra svaraði að beðið væri eftir endanlegri niðurstöðu á en hún vonast eftir henni á næstu vikum. Hún telur að Listaháskólinn hafi beðið of lengi eftir úrlausnum á húsnæðisvandanum. Það sé brýnt að bæta úr honum og hann sé ofarlega á stefnuskrá hennar.
Hvað bráðavandann varðar þá sé búið að ná utan um hann. Það þurfi hins vegar að halda vel utan um húsnæðiskostinn og hún og hennar ráðuneyti sé á tánum. Hún tók fram að í Listaháskólanum sé unnið gott starf og tiltók sérstaklega öfluga forystu rektors, Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur.
Eins og þekkt er þá hefur Listaháskólinn átt við húsnæðisvanda allt frá stofnun skólans fyrir 20 árum. Miklar vonir eru bundnar við núverandi ríkisstjórn að leysa úr þessum vanda og hefja aðgerðir í átt að því að koma skólanum undir eitt þak.
 
22308619_930897450399963_9015350548461694895_n_1.jpg