Listaháskóli Íslands var settur formlega 19.ágúst, í tuttugasta sinn, af Fríðu Björk Ingvarsdóttir rektor skólans.

Nemendur og starfsfólk skólans komu saman í húsnæði skólans í Laugarnesi og hófst dagskráin á óhefðbundinn hátt er útskriftanemar meistaranáms í sviðslistum stigu á stokk og sögðu frá viðburðum vikunnar, en 7 konur eru að útskrifast frá brautinni nú í haust.

screenshot_2019-08-20_at_09.58.23.png
 Frá vinstri: Zofia Tomczyk, Nora Tormann, Paula Diego, Elsa Mencagli, Íris Stefanía Skúladóttir, María Arnardóttir og Ellen Vanderstraeten - Meistaranemar í sviðslilstum 

Uppreisn ímyndunaraflsins

Fríða Björk hóf svo hina formlegu dagskrá. Í ávarpi sínu vitnaði hún meðal annars í hugsuðinn og umhverfisinnan Rebeccu Solnit sem einnig hefur uppi varnarorð Chip Ward umhverfisaktívista um „ógnarstjórnar hins mælanlega“ sem neikvæð áhrif á umhverfið okkar. Listsköpun getur leitt uppreisnina gegn þeim áhrifum.

„Það er ekki til betri aðferð en listsköpun til að leiða „uppreisn ímyndunaraflsins“ gegn stöðnuðum gildum. Til þess að lýsa og nefna það sem Rebecca Solnit bendir á að er ómælanlegt og órætt. Í þessum eiginleika er gildi allrar listköpunar fólgið, því listirnar eru sá vettvangur þar sem hægt er að takast á við hvaða veruleika og hvaða ögrun sem. Þær eru því sterkur og óháður hugmyndafræðilegur umræðugrundvöllur og geta verið mikill áhrifavaldur í samfélaginu, ekki síður en til að mynda stjórnmál.“

Fríða Björk Ingvarsdóttir - skólasetning 2019_mg_5076.jpg

Fríða Björk Ingvarsdóttir 

Hér fyrir neðan má lesa ávarp Fríðu í heild sinni.

Tómas Lemarquis hollnemi frá myndlistardeild ávarpaði samkomuna og sagði frá vegferð sinni í listinni. Tómas hefur getið af sér gott orð sem kvikmyndaleikari og má nefna myndir eins og Blade Runner 2049, Touch me not og Nói Albínói sem hann hlaut Edduna fyrir árið 2003 en sama ár var hann tilnefndur fyrir sama hlutverk til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Hann var hluthafi Shooting star 2004 fyrir hönd Íslands, en þeim sem hlotnast sá heiður eru taldir efnilegustu leikarar í Evrópu það árið. Í ávarpi sínu ráðlagði Tómas öllum að leggja rækt við grunninn því það gerir engum gott að stytta sér leið. Eins hvatti hann viðstadda að halda áfram að læra, eftir formlega skólagöngu því annars er hætta á stöðnun. 

 
Tómas Lemarquis Skólasetning 2019_mg_5128.jpg

Tómas Lemarquis 

Berglind Ósk Hlynsdóttir nemi á öðru ári í fatahönnun lýsti veru sinni hér í skólanum og gaf nýnemum góð ráð. 

Berglind Ósk Hlynsdóttir skólasettning 2019_mg_5178.jpg

Berglind Ósk Hlynsdóttir

 

Ávörp við skólasetningu 

Fríða Björk Ingvarsdóttir

 

Kæru nýnemar, aðrir nemendur og samstarfsfólk,

I

Verið þið öll hjartanlega velkomin á skólasetningu Listaháskóla Íslands á þessu tuttugasta afmælisári háskólastarfs á fræðasviði lista.

Það er alltaf jafn mikil eftirvænting í loftinu á þessum degi; enda eruð þið nýnemarnir það fólk sem kemur inn í skólann með nýjar hugmyndir og vonandi nýjar væntingar. Sú endurnýjun sem þið berið með ykkur er forsenda þess að listaháskólinn haldi áfram að eflast í stöðugu umbreytingarferli og í takti við kjarna listanna hverju sinni - þann kjarna sem þið ætlið að vinna með hér næstu misserin.

Þessi kjarni er vitaskuld síkvikur, enda vita það allir sem hér starfa, að listsköpun er jafn einstaklingsbundin og hún er áleitin gagnvart umhverfi sínu þegar vel tekst til. Við skulum hafa í huga að áhrifamáttur listarinnar byggir á djúpstæðum og óræðum tengslum mannsandans við menninguna, á afstöðu okkar og ræktarsemi við það sem skiptir máli fyrir mennskuna.

II

Í lítilli bók, „Men Explain Things to Me“, eftir einn áhrifamesta hugsuð og umhverfisverndarsinna okkar tíma, Rebeccu Solnit, segist hún hafa eytt síðustu tuttugu árum í að reyna að finna eða búa til þau orð er lýsa því „smágerða og fínlega, því sem er óteljandi, þeirri ánægju og merkingu, sem ekki er hægt að draga í dilka, en liggur þó í kjarna alls.“

Solnit hefur jafnframt uppi varnaðarorð og vitnar í vin sinn Chip Ward, sem varað hefur við því sem hann kallar „ógnarstjórn hins mælanlega“. Hann varar við því að það sem hægt er að mæla eða telja sé nánast alltaf tekið fram yfir það sem ekki er hægt að mæla eða telja: „hagnaður einstaklinga er tekinn fram yfir almannaheill, hraði og skilvirkni fram yfir ánægju og gæði, notagildi fram yfir ráðgátur og merkingu sem eru mikilvægari til þess að lifa af, og hafa þýðingu umfram það að við lifum af, því þær eru undirstaða lífs sem hefur æðri tilgang en við sjálf, í siðmenningu sem er einhvers virði“.

Mér varð hugsað til þessara varnaðarorða Sonit í gær, þegar einn jökla Íslands, Okið, var kvaddur með formlegum hætti með minningarathöfn - eða einskonar útför. Okið hefur á röskum þrjátíu árum hopað undan loftlagsbreytingum og orðið að engu. Þrjátíu ár eru styttri en andartak í landfræðilegri sögu Íslands og grafalvarleg áminning um hverfulleika þeirra umdeildu efnislegu „lífsgæða“ sem við teljum okkur eiga rétt á sem einstaklingar.

Að mati Solnit stafar „ógnarstjórn hins mælanlega“ sem hefur gríðarlega neikvæð áhrif á umhverfi okkar; „ að hluta til af því hversu illa tungumálið og umræðuhefð okkar er til þess fallin að lýsa flóknum, fínlegum og flæðandi fyrirbrigðum“,  en hún stafar einnig af því að „þeir sem móta skoðanir og taka ákvarðanir fyrir hönd okkar allra, hafa brugðist í skilningi sínum á þessum óræðu þáttum. Það er erfitt, stundum jafnvel ómögulegt, að meta það sem ekki er hægt að nefna eða lýsa. Af því leiðir að það að nefna og lýsa er grunnþáttur í öllum byltingum gegn úreltri markaðs- og neysluhyggju. Þegar allt kemur til alls er orsök eyðileggingar jarðar að hluta til - jafnvel að stórum hluta til - sú að ímyndunaraflið er ekki nægilega ríkt, eða hreyfist á sporbaug með mælikerfum sem ekki geta mælt það sem mestu máli skiptir. Uppreisnin gegn eyðileggingunni er því uppreisn ímyndunaraflsins, fyrir hönd þess fínlega, þeirrar ánægju sem ekki verður keypt með peningum og gróðaöfl geta ekki stýrt, hún felst í að búa til merkingu í stað þess að neyta hennar, er uppreisn þess hæga, óbeina og upphafna, uppreisn krókaleiðanna, könnunarinnar og óvissunnar.“

III

Það er ekki til betri aðferð en listsköpun til að leiða „uppreisn ímyndunaraflsins“ gegn stöðnuðum gildum. Til þess að lýsa og nefna það sem Rebecca Solnit bendir á að er ómælanlegt og órætt. Í þessum eiginleika er gildi allrar listköpunar fólgið, því listirnar eru sá vettvangur þar sem hægt er að takast á við hvaða veruleika og hvaða ögrun sem. Þær eru því sterkur og óháður hugmyndafræðilegur umræðugrundvöllur og geta verið mikill áhrifavaldur í samfélaginu, ekki síður en til að mynda stjórnmál.

Þið sem hingað eruð komin til að hefja faglega vegferð ykkar á fræðasviði lista standið því frammi fyrir verkefni sem á væntanlega eftir að móta líf ykkar, ekki bara í nánustu framtíð, heldur allt æviskeiðið. Ný hugmyndafræði, nýjar aðferðir, ný tengsl, áhrif og viðhorf er það sem háskólanám í listum felur í sér í viðleitni til að færa ykkur þau tæki og tól sem þið þarfnist til að efla listamanninn í sjálfum ykkur, styrkja ykkar gagnrýnu hugsun og getu. Það verður ykkar að greina umhverfið þannig að það skili sér í merkingarbærri list sem á erindi við samtímann og vinnur honum gagn.

IV

Og þá að innra starfinu hér við skólann. Listaháskólinn er í stöðugri þróun, hann er ein atkvæðamesta forsenda síbreytilegrar deiglu þeirra samtímalista sem við njótum hér á landi. Um leið er hann forsenda fagmennsku og framþróunar hvort heldur litið er til grasrótar í listum eða þess sem unnið er í formlegum menningarstrúktúr annarra stofnanna. Það er með þessum hætti sem Listaháskólinn er áhrifavaldur langt út fyrir þessa veggi og okkur öll sem hér stöndum eða hér hafa staðið í gegnum tíðina.

Ég geri mér góða grein fyrir því að engin stofnun verður betri af sjálfshóli. En það er samt sem áður mikilvægt að þekkja gildi þess sem vel er gert, ekki síður en að takast á við þau vandamál sem fylgja óvissu um aðbúnað og framtíðaruppbyggingu menntastofnunar á borð við þessa.

Við getum sannarlega sagt að við séum stolt af árangri nemenda okkar, af afrekum þeirra sem lokið hafa námi og gera sig gildandi í sinni listgrein, af vægi okkar fyrrverandi nemenda í íslensku og alþjóðlegu listalífi - sem og af starfsfólkinu þar sem er valin maður í hverju rúmi.

V

Og þá erum við komin að kjarna málsins hvað aðbúnaðinn varðar, því þótt umræðan um Listaháskólann á opinberum vettvangi, snúist iðulega um skort á aðstöðu sem hefur verið viðvarandi vandi frá stofnun, er faglega starfið innan hans eigi að síður í miklum blóma. Húsnæðisþrengingar hafa stælt í okkur bakuggann í lausnamiðuðum vinnubrögðum og kennt okkur mikilvægi þess að vinna saman og eiga heiðarlegt samtal þvert á brautir og deildir.

Áhrifamáttur okkar byggir á samheldni. Ég minntist á það við sama tækifæri í fyrra hversu mikilvægt það væri að huga að félagsanda - að menningu á vinnustað - sem felst ekki einungis í umgjörðinni utan um starfsemina heldur einnig í því hvernig við háttum lífi okkar og störfum innan slíkrar umgjarðar. Þessi staða er enn óbreytt. Það er okkar að viðhalda heilbrigðum jarðvegi hér innanhúss til skoðanaskipta þannig að við ræktum tillitssemi og veglyndi í samskiptum þvert á skólann.

Það mun vonandi koma í ljós á þessu misseri hver framtíð okkar verður og hvert við beinum kröftum okkar við frekari uppbyggingu húsnæðis og aðstöðu. Á meðan við erum að laga starfsemi okkar að nýrri framtíð er þeim mun mikilvægara að horfa til þess að við erum einn skóli, með sameiginlega hagsmuni í því að deila sem mestu hvort heldur horft er til þekkingar eða aðstöðunnar.

Að lokum langar mig til að benda ykkur nýnemum á stefnu Listaháskólans sem lögð var fram í ársbyrjun, þar starfsmenn, nemendur og ýmsir hagaðilar sammæltust um áherslur og aðgerðir sem við teljum skipta sköpum í því að gera góðan skóla enn betri. Stefnuna finnið þið á vefnum okkar.

Um leið og ég lýsi skólann settan haustið 2019, þakka ég áheyrnina og býð ykkur enn og aftur velkomin til vetrarstarfsins.

 

Tómas Lemarquis

Sæl verið þið.

 

Takk kærlega fyrir að bjóða mér að koma og tala við ykkur.

Það er mér sannalega mikill heiður. 

Ekki síst í þessum yndislega skóla þar sem ég átti ein skemmtilegstu ár æfi minnar.

 

Fyrst þegar hringt var í mig heltist yfir mig rosalegur ótti. Ótti við að ég þyrfti að standa mig. Að það væri mikil ábyrgð að reyna blása listamönnum framtíðarinnar eldmóði.

Það kveikti á hinum svokölluðu “fight or flight” viðbrögðum. Flýja eða leggja í gagnárás. Svona er mannskepnan víruð síðan við vorum steinaldarmenn. 

Tígrisdýr ræðst á okkur og annaðvort hlaupum við burt eða verðum aggresíf og ráðumst til atlögu. 

Mín viðbrögð eru gjarnan að vilja flýja. Vilja bara skríða undir sæng og hverfa.

En þá fór ég fljótt yfir í reynslubankann og mundi; nei maður á að grípa tækifærin þegar þau gefast, líka þegar óttinn gerir vart við sig. 

Líklega einmitt þegar hann gerir vart við sig.

 

Óttinn er búinn til í huganum og getur líka verið læknaður í huganum.

Því ég er nokkuð viss um að mörg ykkar finnið fyrir spenningi að byrja í nýjum skóla en líka jafnvel smá ótta. Sem er eðlilegt.

“Nú þarf að stíga á stokk og láta ljós sitt skína”. 

“Var þetta rétt ákvörðun?” 

“Er þetta praktískt eða ekki?” 

Allar þessar hugsanir sem fara í gegnum hugann.

 

Þannig vill til að ég hef lært shamanisma. Eitthvað sem stundað hefur verið meðal frumbyggja um allan heim í árþúsundir og er undanfari trúarbragða.

Aðferðir til sjálfsræktar og heilunar. Til að komast í trans ástand og fara í innri draum-ferðalög. 

Ég er ekki hér til að “akitera” fyrir því, annað en að deila með ykkur aðferð sem ég hef lært þar.

 

Sem listamaður lendir maður oft í aðstæðum sem koma adrenalíninu á fullt og hjartslættinum á hundrað. 

Blóðið fer út í útlimina svo maður geti hlaupið burt frá tígrisdýrinu og að sama skapi fer blóðið úr meltingunni og úr hausnum og þar með heilanum. 

Hugsunin verður ekki eins skýr og allt fer í móðu.

 

Sem betur fer erum við listamenn og konur vel í stakk búin til að nýta þessa tækni því hún gerir tilkall til ímyndunaraflsins.

Shamanarnir líta svo á að óttinn búi í annarri orkustöðinni, svona eins og einum þumli fyrir neðan naflann.

Og er hún táknuð sem jagúar. 

Þegar stressið hellist yfir fara hárin að rísa upp í loft og hann setur upp á sig kryppu og stekkur upp í tré og sýnir tennurnar og klærnar.

 

Svo ég taki dæmi úr eigin lífi. Þá hef ég verið staddur á stóru kvikmyndasetti fyrir Hollywood kvikmynd. Það eru kannski 200 mans í kringum mann að vinna. 

Álíka margir og þið eruð hér nú. 

Og sólin er við það að fara setjast. Það eru 20 mínútur eftir til að geta klárað að taka upp senuna. 

Fólk er farið að hlaupa í allar áttir í stresskasti. Hver dagur kostar fleiri milljónir en maður vill vita af. 

Sumir eru farnir að hækka röddina. 

Og í öllu þessu þarf leikarinn að halda ró sinni og geta leikið og munað textann sem má ekki klikka.

Og það er ekki auðvelt þegar maður er allur strekktur upp á þráð eins og jagúarinn. 

Sérstaklega þar sem við listamenn erum gjarnan ofurnæm á umhverfi okkar. 

(Leik jagúarinn). Það er ekki auðvelt að vera svona og leika.

 

Því ef óttinn er bara abstrakt, óræð tilfinning getur verið erfitt að ráða við hann.

En með því að gefa honum form og lit - í þessu tilfelli jagúar, þá má byrja samningaviðræður við hann.

Maður byrjar á því að fara upp í tré og segja við hann. Þetta verður allt í lagi kisi minn. Svo fer maður að klappa honum bak við eyrun og undir hökuna.

Svona, svona. “Koddu” nú með mér niður úr trénu. Við getum þetta saman.

Og smám saman finnur maður hvernig fer að slakna á kisa og þar með öllu kerfinu í líkamanum. Það slaknar á kjálkunum. Maður fer að geta hugsað skýrt aftur.

 

Núna þegar ég er búinn að róa aðeins niður minn eiginn jagúar get ég sagt ykkur í mjög fljótu bragði frá minni skólagöngu.

 

Eftir að hafa klárað MH og verið í skólaleikritum þar hélt ég til Parísar með uppblásið egó. Viss um að ég væri nú þegar orðinn mikill reynslubolti og sótti um í leiklistar skóla.

Ég fór í inntökupróf og komst beint inn á þriðja ár. En það reyndist hræðileg hugmynd. Þar sem ég stökk yfir grunninn og fór beint inn í ljónagryfju fulla af samkeppni.

Þetta ár átti eftir að brjóta mig niður andlega og kenna mér dýrmæta lexíu.

Það er ekkert sem heitir að stytta sér leið. Það gerist bara í lélegu raunveruleika sjónvarpi að maður verði listamaður á einni nóttu.

 

En við þetta gerðist eitt annað sem er listamanninum hættulegt. 

Ég fór að ljúga að sjálfum mér. Setja upp grímu. “Þetta er nú ekki fyrir mig hvort sem er.” 

“Margir hafa orðið leikarar án þess að fara í skóla”. 

En sannleikurinn er sá að ég er enn að vinna upp núna - það sem ég horfðist ekki í augu við þá.

 

Eftir þessa reynslu kom ég aftur til Íslands og komst inn í Listaháskólann í myndlist.

Staðráðinn í að gera ekki aftur sömu mistök. Hóf ég námið frá grunni og af miklum krafti og þakklæti. Ég blómstraði.

 

Þar kom að annarri lexíu: Enginn er eyland. 

Þegar ég horfi til baka þá sé ég hvað ég var lánsamur að hafa verið partur af svona sterkum árgangi. 

Óvanalega margir sem útskrifuðust árið 2003 eru starfandi listamenn í dag og ættu ekki síður erindi en ég að vera tala við ykkur hér í dag.

Og auðvitað voru þetta allt mjög skapandi og klárir einstaklingar. 

En það er ekki síður andinn sem skapast milli fólks sem býr til örvandi og uppbyggjandi umhverfi sem skiptir máli. 

Það sama sem fékk litið fótboltalið frá Íslandi til að ganga vel á HM. 

Það er hægt að líta á listnám sem þægilegan tíma þar sem mögulega er hægt komast á námslán og hafa það náðugt. 

Það þarf nú ekki að læra eins mikið og  í læknisfræði kannski gæti einhver hugsað. 

Maður gæti líka spurt. 

Er Listaháskólinn góður skóli? 

Auðvitað býður skólinn ýmislegt fram. 

Þið eruð með góðan rektor sem heldur vel utan um rammann eða eins vel og fjármagn leyfir. 

Góða kennara. 

Húsnæðið mætti kannski í sumum tilfellum vera betra en það er önnur umræða.

En það er ekki síst þið sjálf sem skapið skólann og gæði hans. 

Þið fáið jafn mikið út úr honum og þið leggið inn. 

Þannig er skólinn breytileg jafna sem er ólíkur frá ári til árs. 

 

Þannig að ég myndi segja - leggið inn eins mikið og þið getið. 

Og ekki bara fyrir ykkur sjálf heldur líka fyrir heildina. 

Því það hefur margföldunar áhrif sem þið munuð njóta góðs af. 

Ef einn dregur lappirnar þá dregur það heildina niður og öfugt með þá sem eru gefandi. 

Ef margir leggja allt sitt í sölurnar myndast spírall upp á við sem sogar allt með sér upp og allt verður skemmtilegra og meira spennandi.

 

Þegar skólanum lýkur munuð þið þurfa að berjast við allskonar krafta og öfl. 

Bæði meðbyr og mótvind.

Það þarf að afla tekna. Börn fæðast. Námslánin hætta. 

Tíminn sem þið eigið í skólanum er oft laus við þessi öfl.

Það er það sem gerir hann svo dýrmætan.

Það er einstakur tími til að komast að því hvar “drævið” mans liggur. 

Tengjast kjarnanum í sjálfum sér og gleyma því aldrei til þess að geta sótt í þann kraft þegar logninu linnir og vetrarvindarnir taka við.

 

Svipað logn ríkir gjarnan þegar maður er barn. Þá kynntist maður oft drauminum og fyrstu lista ástinni.

Pabbi sýndi mér þöglar super 8mm myndir sem varpað var á vegginn heima. 

Og þá vissi ég að mig langaði að gera eins og þessar þöglu hetjur; Charlie Chaplin, Harold Loyd og Buster Keaton. 

Ég komst í kynni við fegurðina og ljósið í kjarnanum þeirra sem ég gat fundið að hreyfði við einhverju sem speglaðist inni í mér.

Þessi djúpstæðu áhrif sem þessi upplifun hafði á mig var gjöf sem ég vissi að ég þráði að geta gefið áfram.

 

Skólinn rétt eins og barnæskan er annað tækifæri til að fá frið til að finna af hverju maður í ósköpunum er til í að leggja allt þetta ferðalag á sig.

Nýtið það vel.

 

Nú hef ég tekið þátt í ótal kvikmyndum. Og allar hafa þær gefið mér ómælda ánægju fyrir ólíkar sakir.

En tvær þeirra hafa líklega vakið upp hvað sterkust áhrif meðal áhorfenda. Líkt og þöglu myndirnar höfðu á mig sem barn. Sú tilfinning að hafa lagt eitthvað til samfélagsins, djúpan pegil fyrir aðra til að spegla sig í.

Þær hafa veitt mér tilgang og kraft til að fara í gegnum mánuðina þegar enga vinnu var að fá. 

 

Fyrri myndin heitir “Nói Albinói” sem ég lék einmitt í þegar ég var nemandi hér við skólann og sum ykkar hafið kannski séð þegar flest ykkar voruð líklega börn eða unglingar.

Og seinni myndin heitir “Touch me not” og er mynd sem vann Gullbjörninn 2018 á Berlinale hátíðinni. En þau eru ein virtustu verðlaun sem um getur í kvikmynda bransanum. Og því mikið ævintýri og heiður að hafa fengið að vera partur af því.

 

Ég er svo lánsamur að eiga góða vinkonu sem sér í gegnum holt og hæðir. Og einn daginn upp úr þurru segir hún við mig. Þú munt taka þátt í mynd sem tekin verður upp í Bucharest og hún mun vinna stór verðlaun og verða þér mjög mikilvæg.

 

Jú það var eins og við manninn mælt. Mánuði síðar hafði samband við mig leikstjóri frá Rúmeníu með mynd sem taka átti upp í Bucharest.

Það var ekkert handrit svo að segja. Myndin var að mestu improvíseruð. Það var lítið fjármagn og hún innihélt nekt og tabú málefni.

Semsagt margt sem hefði geta fengið mig til að skríða undir sæng og flýja. En þetta virtist skrifað í stjörnurnar og því ég sagði já.

 

Það er ekki auðvelt að mæta á kvikmyndasett að morgni án þess að hafa hugmynd um hvað fram muni fara. 

Stökkva út í tómið og vona að maður lendi einhverstaðar á jörðinni með kvikmyndaverk að lokum.

En neyðin kennir naktri konu að spinna. Og við það að vera stillt upp við vegg fór ýmislegt að flæða upp úr undirvitundinni sem reyndist vera spennandi efniviður í kvikmynd.

Í erfiðleikunum ríghélt ég mér í sýnina sem vinkona mín hafði deilt með mér. 

Hún varð einhverskonar áttaviti sem lýsti upp þokuna. 

Myndin fékk mig til að taka niður margar af þessum grímum sem við setjum upp og fékk mig til að vera hrár og viðkvæmur. 

En það er þegar við þorum að opna þær dyr sem við förum að snerta við einhverju sem skiptir máli. Sumar af þessum grímum komu eimitt frá þeim tíma sem ég átti í franka leiklistarskólanum þegar ég reyndi að fara hraðar en ég réði við.

 

Farið í skólann eins og þetta sé ykkar síðasti skóli og séns til að læra. Gefið allt sem þið eigið.  Útskrifist og hendið þeirri hugmynd út um gluggann og haldið áfram að læra. 

Daginn sem ykkur finnst þið vera búin að læra allt og jagúarinn er hættur að hlaupa upp í tré getið þið verið nokkuð viss um að þið eruð bara að endurtaka  ykkur sjálf og hætt að skapa eitthvað spennandi.

Takið áhættu. Hoppið út í tómið án örryggislínu. Svo lengi sem þið haldið tengingunni við kjarnann mun alheimurinn sjá um að leiða ykkur áfram á rétta braut.

Ef þið takið aldrei áhættu munið þið aldrei komast að því hvað raunverulega í ykkur býr.

 

Látið ljósin ykkar skína skært. Ég vonast innilega til að fá ofbirtu í augun þegar ég sé ykkur og verkin ykkar í framtíðinni. 

Og látum ljóskindilinn ganga mann fram að manni um komandi kynslóðir.

 

Takk fyrir mig.