Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands vorið 2019 fór fram með hátíðlegum hætti í Silfurbergi Hörpu þann 15. júní. Útskrifaðir voru 127 nemendur frá öllum deildum skólans.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, fjallaði í ávarpi sínu um mikilvægi þekkingarsköpunar í síbreytilegum heimi og mikilvægi þess að útskriftarnemendur þekki tilgang sinn í sínum nýju hlutverkum með glænýja þekkingu.

„Það varðar ekki síst ykkur sem gangið héðan út í dag á vit framtíðarinnar og heimsmyndar í deiglu umbreytinga sem á sér engin fordæmi. Þekkingarsköpun á Íslandi þarf að halda í við þessar umbreytingar. Ekki einungis í dægursveiflu okkar örsamfélags, heldur í takti við þarfir heimsbyggðarinnar, þegar forsendur velfarnaðar okkar allra hverfa frá því að vera efnis- eða framleiðsludrifnar og verða fyrst og fremst þekkingardrifnar.“

„Jafnvel þótt þið séuð tilbúin til þess að kanna hið óþekkta, vinna ný lönd og þróa aðferðir og eigin nálgun þá þurfið þið eigi að síður að þekkja erindi ykkar í listinni. Hver ætlun ykkar er með hverju og einu þeirra verka sem þið skapið.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans.

Í ár fagnar Listaháskólinn 20 ára afmæli. Af því tilefni var forseti Íslands hátíðarræðumaður en hann blés útskriftarefnum eldmóð í brjóst í ræðu sem var hvatning inn í framtíð þeirra sem starfandi listamenn, hönnuðir og kennarar.

Við athöfnina flutti Richard Simm verkið Jeux d'eau eftir Maurice Ravel en Richard lætur í vor af störfum sem meðleikari eftir áratugastarf í tónlistardeild.

Maria Thelma Smáradóttir flutti tvö brot úr verkinu Velkomin heim en verkið er unnið af leikhópnum Trigger Warning. Auk Mariu Thelmu eru í leikhópnum þær Andrea Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils sem leikstýrðu verkinu en þær eru líkt og Maria útskrifaðar úr sviðslistadeild skólans. Að verkinu komu einnig þær Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Ragnheiður Erla Björnsdóttir sem útsettu hljóðmynd og tónlist en þær eru útskrifaðar úr tónlistardeild.

Hefð er fyrir því að fulltrúar nemenda flytji ræðu fyrir hönd samnemenda sinna í hverri deild. Fulltrúar nemenda í ár voru Kristín Dóra Ólafsdóttir fyrir hönd listkennsludeildar, Jóhann Ingi Skúlason og Kimi Tayler fyrir hönd myndlistardeildar, Signý Jónsdóttir og Sigmundur Páll Freysteinsson fyrir hönd hönnunar- og arkitektúrdeildar, Sandra Lind Þorsteinsdóttir fyrir hönd tónlistardeildar og Ásthildur Sigurðardóttir fyrir hönd sviðslistadeildar.

 

Ávarp rektors

Háttvirtur forseti Íslands, starfsfólk, góðir gestir-  og síðast en samt allra helst á þessum fallega degi; kæru útskriftarnemar!

I

Í dag fögnum við ekki einungis þeim tímamótum sem felast í brautskráningu og skólaslitum, heldur einnig því að Listaháskóli Íslands hefur haldið uppi háskólakennslu á fræðasviði lista í tuttugu ár. Fyrsti skóladagur háskólanema í listum á Íslandi var merkisdagur í sögu þjóðar sem um aldabil hafði staðið öðrum að baki á þessu sviði.  Þetta blasir við í gegnum sjóngler okkar að þessum tíma liðnum er við vitum af raun hverju slík háskólamenntum hefur skilað íslenskri menningu.

Það er sömuleiðis merkilegur áfangi að þekkja tilgang sinn og Listaháskólinn stendur einnig á slíkum tímamótum, nýrrar stefnumótunar, um þessar mundir. Reynslan er orðin umtalsverð, markmiðin skýr, aðferðafræðin í stöðugri endurskoðun, rannsóknir komnar á legg og þróun á námsframboði í takti við það sem samtíminn krefst.

En þótt Listaháskólinn sé orðinn fullveðja, eru skyldur þeirrar þjóðar sem stofnaði til hans enn ríkar. Fræðasvið lista þarf varanlegt athvarf helgað áframhaldandi þroska; það þarfnast sérsniðinnar aðstöðu, tækjabúnaðar og fagumhverfis rétt eins og erlendir samaburðarskólar hafa eignast fyrir löngu.

Ísland, rétt eins og aðrar þjóðir, þarf að búa yfir öllum þeim innviðum sem nauðsynlegir eru til að endurspegla sinn eigin veruleika.

Þannig tryggjum við viðgang okkar menningar en ekki síður viðhald fjölbreytileika hinnar stóru heimsmyndar.

II

Enginn getur leyft sér að standa í stað eða staðna. Þekkingarsköpun flýgur áfram allt um kring og færni okkar hér á landi þarf að vinda fram rétt eins og annarsstaðar. Á þeirri hraðferð örlar stundum á hugmyndum um að það sem við búum þegar við sé fullgott. Hafi jafnvel verið betra áður fyrr, þegar allt var einfaldara og listmenntun átti sér stað á öðrum forsendum.

Slíkar hugrenningar eru litaðar ljóma fortíðarþrár og fallegar sem slíkar. En þær geta samt sem áður haft afleitar afleiðingar séu þær teknar fram yfir það sem samtíminn raunverulega krefst af okkur. Það varðar ekki síst ykkur sem gangið héðan út í dag á vit framtíðarinnar og heimsmyndar í deiglu umbreytinga sem á sér engin fordæmi.

Þekkingarsköpun á Íslandi þarf að halda í við þessar umbreytingar. Ekki einungis í dægursveiflu okkar örsamfélags, heldur í takti við þarfir heimsbyggðarinnar, þegar forsendur velfarnaðar okkar allra hverfa frá því að vera efnis- eða framleiðsludrifnar og verða fyrst og fremst þekkingardrifnar.

III

Ef við lítum til orða eins áhrifamesta sagnfræðings samtímans, Yuvel Noah Harari, þá er mannkynið nú á þeim tímamótum að ævagömul lífsmynstur munu raskast óafturkallanlega. Hingað til hefur æviskeiðinu verið skipt niður í tvo meginhluta; annarsvegar ungdómsárin þar sem nám er helsti máttarstólpinn og hins vegar atvinnuþátttöku, sem í kjölfar náms, mótar restina af lífshlaupinu.

Þessi hefðbundnu taktskipti í lífinu eru nú óðfluga að úreldast, því eina leið mannskepnunnar til að njóta sín til fulls og standast kröfur tíðarandans felast í því að sækja sér stöðugt nýja þekkingu og endurnýja þannig getu sína alla ævi.

Harari gengur lengra í spá sinni og segir; „mestöll auðævi fortíðarinnar voru hráefni - ræktarland, gullnámur og þrælar. Stríð voru rökrétt í þessu samhengi þar sem hægt var að auðgast á því að berja á nágranna sínum. Nú til dags eru helstu efnhagslegu auðæfin þekking. Og þekkingu er mjög erfitt að verða sér úti um með ofbeldi.“

Hann sér sem sagt fyrir sér að með þessum miklu umskiptum, geti mannkynið átt sér betri og friðsamari framtíð en áður - fyrir tilstilli þekkingarinnar. Það er í þessari framtíðarsýn sem mikilvægi háskólastarfs kjarnast hvað best.

IV

Til hvers ertu að þessu? er sú spurning sem þið öll, sem nú eruð að útskrifast með splunkunýja þekkingu, þurfið að standa frammi fyrir í hlutverkum ykkar sem listamenn framtíðar. Jafnvel þótt þið séuð tilbúin til þess að kanna hið óþekkta, vinna ný lönd og þróa aðferðir og eigin nálgun þá þurfið þið eigi að síður að þekkja erindi ykkar í listinni. Hver ætlun ykkar er með hverju og einu þeirra verka sem þið skapið.

Það er ögrun að þekkja köllun sína upp að þessu marki í öllum sínum verkefnum. Erfiðara en gengur og gerist á flestum öðrum starfsvettvangi. Að vita sjálf af hverju þið eruð knúin til að gera það sem þið gerið; af hverju og með hvaða hætti þið ætlið að framkalla þetta augnablik sem tengir ykkur við upplifun áhorfanda eða hlustanda - alls þess almennings sem auðgar anda sinn fyrir tilstilli ykkar sköpunar.

V

John Berger, sá mikli hugsuður, leikskáld, rithöfundur og listgagnrýnandi, veltir fyrir sér þeirri spurningu í bók sinni „And Our Faces, My Heart, Brief as Photos“ á hvaða tímapunkti listaverk sé tilbúið af listamannsins hálfu. Hann tekur endurreisnarmálverk sem dæmi og spyr: „Hvenær er málverk fullunnið? Ekki þegar það loks samsvarar einhverju sem þegar er til - svo sem seinni skó úr pari - heldur þegar fyrirséð augnblik þess að einhver horfi á málverkið rennur upp, á þann máta sem málarinn gerði ráð fyrir að slíkt augnablik ætti að vera.“

Og hann heldur því jafnframt fram að það skipti engu máli hvort málarinn var óþekktur eða eftirsóttur. Það eina sem skilur þá að er hvað verkið sjálft hefur fram að færa: hversu vel augnablikið sem einhver nýtur verksins, samsvarar því sem listmaðurinn ætlaði sér. Að mati Bergers á þetta ekki síður við þegar umhverfi verksins tekur breytingum í aldanna rás vegna tískustrauma, breyttrar hugmyndafræði eða þess hver keypti það.

VI

Berger fer nærri því í þessari greiningu sinni, að fanga kjarna þeirrar þekkingar sem listsköpun getur fleytt í gegnum aldirnar. Fanga tilgang, sem stundum stappar nærri því eilífa, og verður þess valdandi að listirnar eiga oft svo mikið sameiginlegt með áhrifamætti þess guðdómlega - eða upphafna -  rétt eins og sjálf náttúran.

Með sömu rökum eru listaverk, hvort sem þau eru gömul eða ný, sá innblástur sem mannskepnunni er svo lífsnauðsynlegur. Þau afhjúpa innsæi listamannsins gagnvart komandi kynslóðum. Stundum er slíkt innsæi fljótt að missa marks og verkið glatar slagkrafti sínum. Í öðrum tilvikum heldur listaverkið áfram að færa okkur leiftur af sannleika handan rýmis og tíma.

Það sem listin hefur fært okkur í gegnum árþúsundin, er því í senn - og í sama augnablikinu - undirstaða fortíðar, samtíðar og framtíðar. Listin er hin alþýðlega forsenda tímaleysis alheimsmyndarinnar sem við allajafna eigum svo erfitt með að nálgast með öðrum hætti - nema þá helst í gegnum geimvísindi.

VII

Í lífum okkar, sem knúin eru áfram af hjóli tímans, hvort heldur sem litið er til þess sem við gerum eða erum, er þetta tímaleysi, þetta augnablik uppgötvunar, skilnings, eða undrunar, ein helsta gjöf listanna til þekkingarsköpunar. Og um leið ómetanlegt hreyfiafl í hugmyndum okkar um mennskuna og stað í tilvistinni.

Og það er ykkar kæru útskriftarnemar að skapa ekki einungis hlutlægar, eða efnislegar aðstæður í ykkar listsköpun, heldur nota aðferðir og hugmyndafræði ykkar eigin fræðasviðs til að mæta þeirri sögu, menningu og minningum sem búa innra með öllum þeim sem leita svara eða innblásturs í listum.

Ég óska ykkur velfarnaðar frammi fyrir þeim áskorunum sem bíða ykkar, og hvet ykkur til að taka hverri þeirra fagnandi þannig að listirnar verði áfram það greinandi og kraftmikla afl sem skýtur stoðum undir íslenska menningu og vitund.

Kærar þakkir fyrir áheyrnina!