Eva María Árnadóttir, aðjúnkt við námsbraut í fatahönnun, hlaut á dögunum veglegan styrk frá Hönnunarsjóði fyrir rannsóknarverkefni sitt Avenue.

Hönnunarsjóður úthlutaði 23,7 milljónum á ársfundi Hönnunarmiðstöðvar Íslands 6. júní síðastliðinn. Alls bárust sjóðnum 95 umsóknir, um ríflega 100 milljónir. Alls eru 50 milljónir í sjóðnum þetta árið en þetta er önnur úthlutunin á árinu 2019. 
 
Rannsóknarverkefni Evu Maríu snýr að rannsóknum og þróun á hönnunar-, sníðalausnum og textílmeðferðum. Markmiðið er að auka notagildi og líftíma fatnaðar þar sem fatnaður er mótaður betur að ólíku vaxtarlagi notenda. Það hyggst Eva María gera með því að fækka stærðum á flíkum úr sex (34, 36, 38, 40, 42, 44) í 2-3 stærðir þar sem jafnt er horft til hæðar og þyngdar. Hið hefðbundna stærðarkerfi sem fataiðnaðurinn notar er unnið út frá því sem hentar best fyrir fjöldaframleiðslu auk þess sem það gerir ráð fyrir að vaxtarlag neytenda sé eins, og ef viðskiptavinur passar ekki í flíkina sé það hans vandi. Þau skilaboð eru að mati Evu Maríu röng og benda til þess að hagsmunir framleiðenda séu ofar hagsmunum viðskiptavina. Í rannsókninni kemur Eva María til með að prófa ólíkar sníðalausnir og textílmeðferðir ásamt því að líta til hönnun barnafatnaðar sem oft hefur einkennst af því að geta lengt/stytt og þrengt/víkkað. Auk þess verður gerð rannsókn með ráðgjöf frá sérfræðingum og segir Eva María að prófanir þeirra lausna sem rannsóknin leiðir af sér á fólki vera lykilatriði.
 
Það verður spennandi að fylgjast með framvindu rannsóknarverkefnisins og hönnunar- og arkitektúrdeild óskar Evu Maríu innilega til hamingju með styrkinn!