Marteinn Sindri, aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild hlýtur styrk til að vinna að rannsókn um þekkingarsköpun og aðferðarfræði í hönnun.

 
Stjórn Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna hefur lokið úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2019. Marteinn Sindri Jónsson, aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands er einn þeirra sem hlutu styrk úr sjóðnum en alls hlutu 30% umsækjenda styrki.
 
Marteinn Sindri hlaut þriggja mánaða styrk frá Starfslaunasjóði Rannís fyrir verkefnið Staða þekkingar: Tilgátuhönnun (speculative design), gagnrýnin hönnun (critical design), frásagnarhönnun (narrative design) og rannsóknarhönnun (research design).
 
Umfjöllunarefni verkefnisins er nátengt fræðistörfum Marteins Sindra innan meistaranáms í hönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild.  Meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands byggir á tilraunakenndum vinnustofum, nánd við viðfangsefni og persónulegri leiðsögn. Yrkisefni ímyndunaraflins og raunveruleg og aðkallandi verkefni í samtímanum eru höfð að leiðarljósi þar sem viðfangsefni námsins snúa að hönnun annarra veruleika, áður óþekktra valkosta og framtíðarmöguleika sem gjarnan eru til þess fallnir að varpa gagnrýnu ljósi á samtímann. Rannsóknarefni Marteins Sindra á í beinu samtali við þá hugmyndafræði sem hefur einkennt meistaranám í hönnun og mun að öllum líkindum hjálpa til við að móta og dýpka hana enn frekar. 
 
Listaháskólinn óskar Marteini Sindra hjartanlega til hamingju með styrkinn og við hlökkum til að fylgjast með rannsóknarstörfum hans á sviði þekkingar í tengslum við hönnun.