Sveinbjörg Þórhallsdóttir hefur hlotið framgang í stöðu prófessors í samtímadansi. Sveinbjörg er sú fyrsta sem hlýtur framgang í stöðu prófessors við LHÍ í samtímadansi og eru þetta því stór tíðindi fyrir danssamfélagið á Íslandi.

Sveinbjörg Þórhallsdóttir útskrifaðist árið 1995 sem dansari frá Alvin Ailey American Dance Center í New York og með meistaragráðu sem danshöfundur frá Fontys University í Hollandi árið 2008. Hún hefur víðtæka reynslu sem dansari og danshöfundur hér heima á Íslandi sem og erlendis.

Hún hefur verið lektor við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands síðan 2012 og gegndi áður starfi aðjúnkts við deildina frá 2011. Þar áður var hún kennari við Listdansskóla Íslands í áratug (1998-2007). Hún hefur kennt fjölda námskeiða, einkum í tækni, hreyfingu og skapandi ferli. Sveinbjörg hefur gert viðamiklar breytingar á kennsluskrá samtímadansbrautar, nú síðast í þeim tilgangi að bjóða upp á alþjóðlegt nám í samtímadansi, Contemporary Dance Parctices. Fyrsti árgangurinn er að klára fyrsta árið sitt af þremur nú í vor.

Sveinbjörg er starfandi deildarforseti vormisserið 2019 en hún hefur gengt þeirri stöðu áður þegar hún leysti af hluta af haustmisseris 2018 sem og haustmisserið 2016. 

Mikilvægur þáttur í rannsóknum Sveinbjargar er áhersla á óhefðbundin dans- og sviðslistaverkefni í samstarfi við fjölbreyttan hóp listamanna. Áhersla hennar er í rannsókninni á efninu hverju sinni í samtali við samstarfsaðila sína. Hún hefur áhuga á hvernig ferlið þróast með ólíkum röddum, aðferðum og listamönnum. Hún hefur starfað töluvert sem danshöfundur í leikhúsuppfærslum sem og í sjálfstæðum dansverkum. 

Sveinbjörg er einn af stofnendum Reykjavík Dance Festival (2002) og Samtaka um Danshús (2010) sem í dag rekur Dansverkstæðið þar sem hún situr í stjórn. Sveinbjörg er löggiltur Yoga kennari frá High Vibe Yoga, Ubud, Bali.

Sveinbjörg er í fremstu röð á fagvettvangi hér á landi sem danshöfundur, er forvitinn listamaður sem er opin fyrir þverfaglegu samtali og leitar stöðugt á ný mið. Verk hennar eru rannsóknarmiðuð. Hún hefur umfangsmikla, alhliða reynslu af kennslu í samtímadansi og nýtur algerrar sérstöðu á þessu sviði hér á landi. Hún hefur umtalsverða akademíska stjórnunarreynslu og hún nýtur mikils trausts innan skólans og á fagvettvangi utan hans. 

Hér má sjá brot af verkum hennar.

2018 Atómstjarnan Listahátíð í Reykjavík, Ásmundarsalur - í samstarfi við Steinunni Ketilsdóttir og Jóní Jónsdóttir.

2018 Dúkkuheimilið 2.hluti Borgarleikhúsið

2017 Tímþjófurinn Þjóðleikhúsið

2015 #PRIVATEPUSSY Gamla Bíó - í samstarfi við Steinunni Ketilsdóttir

2014 REIÐ Borgarleikhúsið - í samstarfi við Steinunni Ketilsdóttir

2013 Eyja Þjóðleikhúsið, LHÍ

2011 How did you know Frankie? Hafnafjarðarleikhúsið, LHÍ

2011 Belinda og Gyðja Reykjavík Dance Festival, Tjarnarbíó í samstarfi við Steinunni Ketilsdóttir

2010 Enron, Borgarleikhúsið

2009 Skoppa og Skrítla, Borgarleikhúsið

2008 Private Dancer, Borgarleikhúsið – í samstarfi við Panic Productions

2008 Skekkja Borgarleikhúsið, Íslenski dansflokkurinn

2007 Elasticity, Hafnarfjarðaleikhúsið

2007 Leg, Þjóðleikhúsið

2006 Red Lillies, Hafnarfjarðarleikhúsið

2005 No, He was white, Reykjvík Dance Festival, Ballhaus-Ost í Berlín, hátíð Grand Traverse Bordeaux í samstarfi við Panic Production

 

Við óskum Sveinbjörgu innilega til hamingju með framganginn.