Þorbjörg Daphne Hall hefur hlotið framgang í stöðu dósents í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Þorbjörg Daphne hefur gegnt stöðu fagstjóra fræða við deildina frá árinu 2011 en hún hóf störf við tónlistardeild LHÍ árið 2010. Hún hefur leitt og mótað fræðikennslu við deildina auk þess sem hún gegndi stöðu deildarforseta vorið 2018 í fjarveru og rannsóknarleyfi Tryggva M. Baldvinssonar.

Þorbjörg stundar doktorsnám við Háskólann í Liverpool undir leiðsögn próf. Sara Cohen og mun verja ritgerð sína í júní næstkomandi. Viðfangsefni hennar snýr að hugmyndum um íslenskan hljóðheim í dægurtónlist 21. aldar þar sem sjálfsmynd þjóðar, ímyndir, landslag og náttúra skipa lykilhlutverk. Hún vinnur jafnframt að stóru rannsóknarverkefni um íslenska jazztónlist (1930-2010) með Ásbjörgu Jónsdóttur. Niðurstöður þeirrar rannsóknar munu meðal annars birtast í The Oxford History of European Jazz (bindi II-V) sem mun koma út 2019-2022 hjá Oxford University Press.

Þorbjörg er ritstjóri bókarinnar Sounds Icelandic ásamt Nicola Dibben, Árna Heimi Ingólfssyni og Tony Michell en bókin kemur út hjá Equinox Publishing. Hún er jafnframt ritstjóri bókarinnar Tónlistarkennsla á 21. öld ásamt Kristínu Valsdóttur og Ingimari Ólafssyni Waage sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2018. Þorbjörg hefur gefið út greinar og haldið fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum um íslenska tónlist, tónlist og þjóðerniskennd, kvikmyndina Heima eftir Sigur Rós og um tónlist í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Þorbjörg er einn ritsjóri Þráða, tímarits tónlistardeildar LHÍ.

Listaháskóli Íslands óskar Þorbjörgu innilega til hamingju með stöðu dósents í tónlistarfræðum við tónlistardeild.