Sigrún Alba Sigurðardóttir starfandi deildarforseti og lektor í menningarfræði við hönnunar- og arkitektúrdeild, fékk á dögunum framgang í stöðu dósents.

Sigrún Alba starfaði sem aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild frá 2008 til ársins 2011 þegar hún hlaut framgang í stöðu lektors í menningarfræði og hefur starfað sem slíkur þar til nú. Hún hefur haft mótandi áhrif á fræðikennslu við hönnunar- og arkitektúrdeild og gengdi meðal annars starfi fagstjóra fræðigreina frá 2006-2013 og aftur 2015 – 2016.
 
Sigrún Alba er núverandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar. Hún hefur áður starfað tímabundið sem deildarforseti árin 2013, 2014 til 2015 og vorið 2017. Hún sat í fagráði Listaháskóla Íslands 2012-2013, var í rannsóknarnefnd Listaháskóla Íslands 2008 og ráðstefnunefnd Hugarflugs, ráðstefnu Listaháskóla Íslands um listrannsóknir árin 2011-2013.  Sigrún Alba hefur einnig verið stundakennari við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík.
 
Sigrún Alba lauk B.A. námi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1998 og Cand. Mag gráðu í nútímamenningu og menningarmiðlun frá Kaupmannahafnarháskóla 2004. Hún stundaði einnig nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og doktorsnám við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
 
Sigrún Alba hefur unnið sem sýningarstjóri og sýningarhöfundur að ýmsum verkefnum fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Árnesinga, Þjóðminjasafn Íslands og Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Hún var sýningarstjóri og sýningarhöfundur sýningarinnar Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár sem opnaði á Listasafni Íslands árið 2018, þar stýrði hún jafnframt samstarfi Listasafnsins við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafn Íslands
 
Sérsvið Sigrúnar Ölbu er ljósmyndun og ljósmyndasaga á mörkum hefðbundinna rannsókna og listrannsókna. Hún hefur gefið út fjölda ritverka og má þar telja til bækur, bókakafla, tímaritsgreinar, sýningarskrár, fyrirlestra og pistla í útvarp. Sigrún Alba vinnur nú að rannsóknarverkefni og bók um ljóðræna frásögn í norrænni samtímaljósmyndun.
Árið 2017 gaf Sigrún Alba, ásamt Daniel Reuter, úbókina Snert á arkitektúr. Hugmyndir og frásagnir af íslenskum arkitektúr við upphaf 21. aldar, en meðal annarra bóka má nefna tvær bækur um ljósmyndir sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út, Afturgöngur og afskipti af sannleikanum (2009) og Endurkast/Reflection (2008) og bókina Det traumatiske øjeblik sem kom út í Danmörku árið 2006. Fyrir bókina Afturgöngur og afskipti af sannleikanum var Sigrún Alba tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis og til menningarverðlauna DV. Auk þess hefur Sigrún Alba birt ritrýndar greinar á innlendum og erlendum vettvangi ásamt því að hafa birt kafla og ritdóma í bókum og tímaritum. Hluta þeirra verka hefur hún unnið í samstarfi við bæði íslenska og erlenda listamenn og arkitekta. Þá hefur hún haldið fjölda fyrirlestra um rannsóknir sínar á alþjóðlegum og íslenskum ráðstefnum, sem og erindi í ýmsum fyrirlestrarröðum. Sigrún Alba er í fremstu röð á sínu fagsviði á innanlandsvettvangi, rannsóknir hennar eru frumlegar og bera vott um faglegt hugrekki en auk þess hefur hún umtalsverða reynslu af kennslu á háskólastigi og viðamikla akademíska stjórnunarreynslu.
 
Listaháskóli Íslands óskar Sigrúnu Ölbu innilega til hamingju með stöðu dósents í fræðum við hönnunar- og arkitektúrdeild!