Gestagangur
Sigurður Oddsson: Rannsóknir og hönnun

Sigurður Oddsson er grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi (e.art director) sem hefur verið starfandi í faginu í um tíu ár eða allt frá því að hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2008. Sigurður hélt fyrirlestur um rannsóknir sínar og hönnun 5. mars 2019 í Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, upptöku af fyrirlestrinum má finna hér fyrir neðan.
 
Sigurður hefur starfað sem listrænn stjórnandi (e. art director) hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks en þar hefur hann sérhæft sig í mörkun á fyrirtækjum; allt frá einkennum fyrir veitingastaði á borð við Skelfiskmarkaðinn og Kex Hostel til stærri fyrirtækja á borð við Víking brugghús, Þjóðminjasafn Íslands og Icelandic Lamb.
 
Sigurður hefur jafnan unnið sjálfstætt að eigin verkefnum meðfram vinnu. Þar ber helst að nefna verkefni fyrir ýmsa tónlistarmenn, t.d. Högna, Sturla Atlas og Young Karin -   mörkun fyrir menningarverkefni og viðburði, svo sem fyrir Útvarp 101, Everybody's Spectacular og We Live Here, auk fjöldann allan af bókakápum og myndskreytingum.  Þar að auki hefur Sigurður lagt mikla stund á eigin rannsóknarverkefni og sýningar og verið áberandi á HönnunarMars síðustu ár.