Glænýtt tölublað vefritsins Þræðir - tímarit um tónlist er komið út. Líkt og endranær eru efnistökin fjölbreytt og endurspegla þann breiða hóp höfunda sem að tónlistartímaritinu koma hverju sinni en hvort tveggja er um að ræða kennara við tónlistardeild LHÍ sem og höfunda sem koma víðar að. Í nýjasta tölublaði kennir margra grasa, finna má greinar um djasslíf nú og þá, barnatónleikhús, stöðu og hlutverk flytjandans á okkar tímum, tónlist svo ólíkra tónskálda sem Sciarrinos og Dutilleux og greinar/verk þar sem fræðin og listirnar renna saman í eitt.

Í Þráðum má að þessu sinni finna spjall tónskáldanna Elínar Gunnlaugsdóttur og Atla Ingólfssonar um barnatónleikhús auk þess sem Atli býður upp á vangaveltur um eðli og hlutverk tónlistar í okkar sögulausu samtíð.  Ásbjörg Jónsdóttir og Þorbjörg Daphne Hall fjalla um áhrif erlendra tónlistarmanna á íslenska tónlistarsenu á árunum 1930 - 1960 og Bára Gísladóttir skrifar um kvintett ítalska tónskáldsins Salvatore Sciarrino, Raffigurar Narciso al fonte frá árinu 1984 og setur í samhengi við goðsöguna um Narcissus.

Berglind María Tómasdóttir greinir verk sitt Tónlist fyrir mannsrödd, píanó og áheyrendur sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum 2019. Í verkinu er m.a. varpað ljósi á hefðbundið hlutverk flytjandans í samtímatónlist sem túlkandi hins fyrirframgefna „skors.“ Edda Erlendsdóttir fjallar um þrjár prelúdíur franska tónskáldsins Henri Dutilleux og Einar Torfi Einarsson birtir greinina music is not..., sem má kallast verk á mörkum fræða, prósa og tónlistar.

Gylfi Garðarsson óskar í sinni grein eftir að meiri kraftur verði settur í að afla gagna um stöðu tónlistarmenntunar hér á landi og Helgi Rafn Ingvarsson fjallar um skapandi samstarfsferla, dramatískan spuna og óhefðbundnar nótnaritunaraðferðir í nýju tónleikhúsi. Þá er ótalin grein Hrafnkels Flóka Kaktusar Einarssonar sem segir frá aðferð sem hann nýtti sér við að byggja niðurskrifað tónverk á spuna, Sigurðar Flosasonar sem rekur tildrög að stofnun Tónlistarskóla FÍH og Þráins Hjálmarssonar sem fjallar um sýninguna Hljóðön sem hann sýningastýrði sjálfur í upphafi þessa árs. 

Vefritið ÞRÆÐIR er gefið út af tónlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur það hlutverk að skapa vettvang, aðhald og hvata fyrir hvers konar rannsóknarvinnu tengda tónlist, innan sem utan skólans. Vefritið beitir sér fyrir því að vera vettvangur fyrir orðræðu um tónlist á íslensku máli, auka umsvif rannsókna á sviði tónlistar, skapa ný tækifæri, og vera miðstöð sjónarhorna innan tónlistar.

Ritstjórn ÞRÁÐA skipa Atli Ingólfsson, Einar Torfi Einarsson og Þorbjörg Daphne Hall sem öll eru kennarar við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.