Úrslit FÍT keppninnar réðust miðvikudagskvöldið 27. mars síðastliðinn.

 
Birna Geirfinnsdóttir, lektor og fagstjóri í grafískri hönnun hlaut tvenn verðlaun fyrir verkefni sem unnin voru á vegum hönnunarteymisins StudioStudio sem þau Birna og Arnar Freyr Guðmunsson mynda. Verðlaunin hlutu þau fyrir bókahönnun á yfirlitsverki um verk Rögnu Róbertsdóttur og fyrir hönnun á bókakápu skáldsögunnar „Sextíu kíló af sólskini“ eftir Hallgrím Helgason. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars um bók Hallgríms: „Einstaklega falleg kápa sem segir mikið með tjáningsríkri leturnotkun og skemmtilega útfærðri lausakápu.“
 
Katrín Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri í Hönnunar- og arkitektúrdeild var tilnefnd í flokki geisladiska og platna fyrir hönnun á geisladiski Salsakommúnunnar, Rok í Reykjavík.
 
Í nemendaflokki skiptust  verðlaunin milli tveggja verkefna. Annars vegar voru það þau Atli Sigursveinsson, Stefanía Emilsdóttir og Ísak Einarsson sem hlutu verðlaun fyrir hönnun á útliti útskriftarsýningar BA nemenda í hönnun,arkitektúr og myndlist, Listaháskóla Íslands 2018, Út á tún, en verkefnið unnu þau með Hauki Hafliða Nínusyni, Þórdísi Ólöfu Sigurjónsdóttur, nemendum í arkitektúr, Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur, nemanda í vöruhönnun og Ingerð Tomóðsdóttir Jønsson nemanda í fatahönnun. Þá hlaut Elín Edda Þorsteinsdóttir verðlaun fyrir útskriftarverkefnið sitt Glingurfugl.
Lilja B. Runólfsdóttir hlaut viðurkenningu í nemendaflokki fyrir útskriftarverkefni sitt Skyn og þrír aðrir nemendur voru tilnefndir.
 
Listaháskólinn óskar starfsfólki og nemendum til hamingju með frábæran árangur!