Hljóðön – sýning tónlistar

Þráinn Hjálmarsson

Í þessari grein verður fjallað um sýningu Hafnarborgar, „Hljóðön – sýning tónlistar“, sem stóð yfir dagana 26. janúar 2019 – 3. mars 2019. Var sýningin útvíkkun á starfi tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðanar, sem hóf göngu sína árið 2013. Með sýningunni var í senn ætlun að fagna fimm ára starfsafmæli raðarinnar, sem og að víkka enn frekar birtingarmynd og form raðarinnar.

Í fyrri hluta greinarinnar verður lauslega farið yfir þróunarferli sýningarinnar og tildrög hennar frá sjónarhóli sýningarstjóra. En í seinni hluta hennar er að finna texta úr sýningarskránni, sem ætlaður var að veita sýningargestum innsýn í sjónarhorn sýningarinnar á þetta víðfeðma viðfang sýningarinnar; tónlist.

 

Myndband 1: Stikla sýningarinnar Hljóðön – sýning tónlistar

 

Upphaf – Níu bjöllur

Á Hljóðanartónleikum haustið 2016 flutti slagverksleikarinn Frank Aarnink fjóra kafla úr verkinu Níu Bjöllur (1972) eftir Tom Johnson. Verk Tom Johnsons er í raun marglaga þrátt fyrir að bera einfalt yfirborð. Flytjandinn ferðast á milli níu bjallna sem hanga í tónleikarýminu. Í hverjum kafla verksins fyrir sig, gengur flytjandinn sama göngumynstrið á milli bjallnanna og ofan á göngumynstrið bætast svo ólík tónamunstur sem oft eru á skjön við fyrirsjáanleika göngumynstursins. Útkoma verksins er því afleiðing göngumynsturs flytjandans og gönguhraða hans. Tónlistinni eru þannig sett mörk af rýminu sjálfu.

Upplifun verksins hverfist ekki eingöngu um framvindu tónlistarinnar sjálfrar, heldur er verkið litað nærveru flytjandans og rýminu sjálfu. Að flutningi loknum lifir nokkurs konar ómur verksins, þar sem bjöllurnar hanga eftir í rýminu. Það var þessi marglaga tilvísanaheimur verksins sem verður tilefni til þess að Ágústa Kristófersdóttir, safnstjóri Hafnarborga, sá færi á því að víkka út starf tónleikaraðarinnar Hljóðanar, þar sem tónlist samtímans er skoðuð í víðara ljósi og í nýrri samræðu.

mynd1-nine_bells.png

Mynd 1: Göngumunstur í köflum #1, #3, #6 og #7 (frá vinstri til hægri), úr Nine Bell eftir Tom Johnson

 

 

Myndband 2: Stikla fyrir tónleika Hljóðanar 2016, Frank Aarnink flytur Nine Bells eftir Tom Johnson

 

Þráður sýningarinnar

Þar sem verk Toms, Níu bjöllur, varð upphaf þessarar hugmyndar um sýningu tónlistar, lá í augum uppi að hefja  hugmyndavinnu sýningarinnar á að leita viðfangs í þeim ólíku þráðum sem finna má í verkinu. Ein leið í þessu ferli hefði mögulega verið að rekja sig eftir þræði flytjandans. Þar sem finna mætti verk sem að fjalla um ólíka virkni flytjandans í tónlistinni eða verk sem einblínir á, sem dæmi, samband flytjandans við áheyrendur, þátt flytjandans í útfærslu tónlistarinnar eða hreinlega hverfist um persónu flytjandans.

Í þeim þræði mætti sem dæmi tína til verk líkt og The Man[1] Ragnars Kjartanssonar og Rockriver Mary[2] Berglindar Maríu Tómasdóttur, þar sem persóna flytjandans er til umfjöllunar. Þegar skoðuð eru áhrif flytjandans á útkomu verkanna  mætti til dæmis tína til verk þar sem útfærsla þeirra er alfarið í höndum flytjenda. Þar mætti sem dæmi nefna fjölmörg verka Christian Wolffs og John Cage auk nýrri verka líkt og verkið Silent Posts[3] eftir Alexander Schubert.

Dæmi um samtal flytjenda flytjenda og áheyrenda má m.a. finna í verkum James Saunders. En eitt verka Saunders rataði inná efnisskrá Skerplu og Berglindar Maríu á viðburðardagskrá sýningarinnar.

Sá þráður sem að lokum varð ofan á í þróunarferlinu var efnisheimur tónlistarinnar og var þá skoðað hvernig hlutheimurinn í kringum tónlist setur sitt mark á allt hvað varðar upplifun og útkomu. Hér verður tímaleysi safnarýmisins einnig að umhugsunarefni, þá hvernig verkin takast á við hið almenna tímaleysi safnarýmisins þar sem gestum býðst að koma og fara hvenær sem er.

Skilin á milli „hljóðlistar“ og „tónlistar“, ef einhver eru, mætti reyna að skýra út frá ólíkri afstöðu gagnvart tímanum og ólíku hlutverki hljóðanna. Tónlistin hnikar vart frá því að hljóðin og sú sögn sem í þau hafa verið fléttuð séu helsti þráður verkanna. Á meðan hljóðlistin aftur á móti gengst oft við upphafs- og endaleysi tímans í safnarýminu og gerir hljóðin að einum þræði verkanna, þar sem hljóðin eru nýtt til þess að lita sjónræna upplifun og umfjöllunarefnin snúi að rýmum, skúlptúrum eða gjörningum.

Á sama tíma leyfði sýningin sér að afmarka viðfang sitt við þau verk þar sem upplifun tónlistarinnar og hljóðanna er í forgrunni. Þá kom fram snemma í þróunarferli sýningarinnar að það myndi ekki bæta miklu við sögn sýningarinnar að einblína á þessi skil á milli listgreina myndlistar og tónlistar. Þess þá heldur væri hægt að greina markvisst á milli listamannanna eftir bakgrunni þeirra. Nærvera Magnúsar Pálssonar á sýningunni var jafnframt holl áminning um þennan óþarfa greinarmun.[4] [5]

Sýningarstjórn

Hlutverk sýningarstjóra við gerð sýninga er af ólíkum toga. Getur starfið m.a. verið vinna með listamönnum að einkasýningum, þar sem hlutverk sýningarstjórans snýr að samtali við listamanninn um útfærslu sýninganna og almenna verkstjórn tengdri sýningunni. En starfið getur einnig, líkt og í tilviki þessarar sýningar, verið samsetning eftir höfði sýningarstjóra, þar sem sameiginleg heildarfrásögn sprettur fram við samsýningu ólíkra verka. Það er undir hverjum og einum sýningarstjóra komið að finna jafnvægi á milli þessarar frásagnar sýningarinnar og „sjálfstæði verkanna“, þ.e.a.s. hversu sterkt þessi frásögn á að lita upplifun verkanna. Frásögnin getur í sumum tilvikum takmarkað og einfaldað tilvísanaheim verkanna til muna en einnig getur sögnin varpað nýju ljósi á verkin með því að veita nýtt sjónarhorn. Jafnframt þarf sýningarstjóri að vera meðvitaður um sýningargestinn sjálfan, um þann tíma sem tekur að fara í gegnum og upplifa sýninguna og hvernig þessi verk virkja sýningargestinn ólíkt.

Að mati sýningarstjóra er þróun sýningarinnar sterklega lituð af starfi tónleikaraðarinnar. Bæði hvað varðar nálgun á vali verka, sem og framsetningu þeirra. Fjölbreytni í afstöðu verkanna til sýningargestanna var oft einn af útgangspunktum í vali þeirra. Var því í bland blandað saman verkum þar sem hlutverk sýningargests var eingöngu að meðtaka úr fjarlægð og  „kvikari“ verkum þar sem sýningargestir þurftu sjálfir að taka þátt til þess að upplifa verkin áþreifanlega.

Framsetning verka

Framsetning verka og rýmið sjálft leikur stóran þátt í útkomu sýninga og hvernig ljósi verkin bregða fyrir. Þar tekur virkni verkanna breytingum eftir staðsetningu innan rýmisins og framsetningu. Í raun er hægt að gera margar „ólíkar“ sýningar eingöngu með sömu verkunum, þar sem þeim er endurraðað í rýminu og framsetningu þeirra breytt.

Fyrir sýningu verka sem framkalla hljóð eða innihalda hljóðrás, þarf sérstaklega að huga að þeirri hljóðvist sem að sýningin skapar. Taka þarf tillit til verkanna og velta fyrir sér hvort við það eitt að hafa hljóðið einvörðungu aðgengilegt í heyrnartólum hafi neikvæð áhrif á upplifun verkanna. Í þróunarferli sýningarinnar urðu það að lokum verk Bergrúnar, Steinu og Loga Leó, sem fengu að hljóma út í sýningarrýminu og áttu í óræðu samtali í gegnum safnarýmið. Vegna staðsetningar þeirra verka voru þau þó í návígi ótrufluð af hvort öðru.

Á sýningunni áttu Marko Cicilianis og Steinunnar Eldflaug bæði verk, sem unnin voru inn í sýndarheim tölvuleikja og á yfirborðinu gætu átt ýmsa samleið. Í báðum tilfellum var það í hlut sýningargesta að upplifa með því að prófa og kanna þessa sýndarheima. En þrátt fyrir að Marko og Steinunn vinni hugmyndir sínar í sama miðil, þá er upphafspunktur þeirra gjörólíkur. Lék þar framsetning verkanna því lykilhlutverki að skilja á milli þessara tveggja verka á sýningunni.

Í verki Markos eru sýningargestir í könnunarleiðangri um tónsmíð. Tekur þar hljóðheimurinn breytingum eftir ferðalagi gesta um landslag sýndarheims. Til þess að draga fram þessa landslagsupplifun í verkinu var verkinu varpað með þremur skjávörpum á langan vegg og gestir stóðu við stýripinna og könnuðu heim verksins. 

Í verki Steinunnar Eldflaugar er leikurinn markviss tölvuleikur þar sem gestir eiga að leysa þrautir og safna saman hljóðbútum úr lagi listakonunnar. Leysi gestir þrautirnar fá þeir að heyra lag Steinunnar. Leikurinn er því nútímaleg tónlistarútgáfu þar sem sjónræni og hljóðræni heimurinn fellur saman á áreynslulausan hátt. Framsetning verksins á sýningunni snerist því öll að því að gera afstöðu sýningargestsins skýra gagnvart verkinu, að hér ætti að taka sér tíma og leysa leikinn. Verkið var staðsett í herbergi sem skapaði mikla nánd við verkið. Gestir gátu spilað leikinn í sófa og bauðst einnig að fá sér gos úr kæli og snakk með spilamennskunni.

Rými sýningarinnar

Rými sýningarinnar var jafnframt ekki eingöngu bundið við safnarýmið sjálft, því sýningin var víkkuð út bæði í tíma og rúmi. Yfir sýningartímann voru haldnir ólíkir viðburðir þar sem flutt voru tónverk sem ýmist voru hluti af sýningunni eða tengdust höfundunum og efni sýningarinnar með einhverjum hætti.

Sýningarskrá sýningarinnar var nýtt til þess að útvíkka sýningarrýmið og í skránni var að finna verk Einars Torfa Einarssonar, Minnið er þrístefnugata (2018), er það verk sem skírskotar í minningar og minnið og kallast skemmtilega á við hlutskipti sýningarskráa í tengslum við sýningar, þar sem skráin verður oftar en ekki eini haldbæri minnisvarðinn og minning um sýningar.

„Félagslega rými“ sýningarinnar var jafnframt víkkað út í verki Curvers Thoroddsen, Tónlistarhornið (2019), þar sem skilin á milli safnarýmisins annars vegar, með allri þeirri félagslegu hegðun sem fylgir því að sækja safn heim,  og „afdreps“ hins vegar var afmáð. Tónlistarhorn Curvers samanstóð af ólíkum hljóðfærum staðsettum á víð og dreif í kringum flygil Hafnarborgar. Gestum bauðst að leika á öll þessi hljóðfæri nema flygilinn sjálfan. Í sumum tilvikum fannst gestum líkt og ekki væri um eiginlegt verk á sýningunni að ræða, heldur frekar leikhorn staðsett utan sögn sýningarinnar.

Stærsta tákn tónlistarinnar

Í þróunarferli sýningarinnar fór umtalsverð hugsun í það hvernig þáttur flygils Hafnarborgar ætti að vera í sýningunni og afstaða sýningarinnar gagnvart honum. Flygla mætti kalla eitt stærsta og gildishlaðnasta tákn í hlutheimi tónlistar og snerta þeir því þráð sýningarinnar með beinum hætti. Finna má til ótal verk þar sem flyglar eru gerðir að helsta umfjöllunarefni verka listamanna. Ber sýning Tinnu Þorsteinsdóttur, PÍANÓ, á Listasafni Íslands árið 2014[6] vitni um þá miklu flóru af verkum tileinkuð píanóum. Framan af var uppi samtal við Bergrúnu Snæbjörnsdóttur um hvort verk hennar gæti á einhvern hátt nýtt flygilinn, en sköpunarferli Bergrúnar tók hana á aðrar slóðir. Í kjölfarið kom lengi til greina að vensla flygilinn við óklárað verk Atla Heimis Sveinssonar, For Boys and girls (1967). Verkið er afar áhugavert í þessu samhengi við listasöguna. Hver kafli verksins er tileinkaður einum eða nokkrum vinum og samferðamönnum Atla Heimis úr SÚM-hópnum og er líkt og fantasía Atla Heimis um stefnumót þessara ólíku vina sinna við flygilinn. Þannig er það Hreinn Friðfinnsson, sem er til umfjöllunar í kaflanum Molto Tranquillo (fyrir Hrein Friðfinnsson) sem Snæfríður María Björnsdóttir flutti á tónleikum Skerplu og Berglindar Maríu Tómasdóttur í tengslum við sýninguna. Að lokum þróaðist samtalið við Curver Thoroddsen á þá leið að víkka hljóðlistasmiðju hans og færa inn í sýningarrýmið sjálft. Þar fengu gestir færi á að gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn, en jafnframt á lúmskan hátt að yrða á þær andstæður sem finna má í hlutheimi tónlistarinnar, þar sem huglæg gjá reynist á milli „alvöru“ hljóðfæra og „dótahljóðfæra“.

Hér hefur verið stiklað á stóru um þróun sýningarinnar og á þeim sjónarmiða við vali á verkum. Hér að neðan má svo finna texta úr sýningarskrá sýningarinnar sem var jafnframt gestum leiðarljós í gegnum sýninguna.

mynd2-tutti.jpg

Mynd 2: Sýningin í Hafnarborg

Hljóðön – sýning tónlistar [sýningarskrá]

Hljóðön – sýning tónlistar fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem hefur verið á dagskrá Hafnarborgar allt frá árinu 2013 og tileinkuð er samtímatónlist. Víkkar því hér starf raðarinnar tímabundið, þar sem tækifæri gefst til nánari kynna við tónlist og myndlist, sem dreifa úr sér í tímaleysi safnsins. Þráinn Hjálmarsson, tónskáld og listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar, er sýningarstjóri sýningarinnar.

Sýningunni er ætlað að hlera ólík samtöl á milli efnisheimsins og tónlistarinnar, þar sem hlustunin og upplifun tónlistarinnar er sterklega lituð tónum efnisheimsins. Hér eru sýnd verk þar sem sjónrænn þáttur verkanna spilar stórt hlutverk í heildarupplifun hvers verks, skapar tónlistinni annað samhengi og tilvísanaheim og hlustunin er lituð af sjónrænni upplifun. Hér hefur tilvísanaheimur hlutarins áhrif á samband okkar við hljóðin sjálf og tónlistarlega hlustun. Í hlutunum sjálfum er að finna mörk tónlistarinnar, hvernig hún verður til og vindur fram. Ætlunin er að nálgast hljóðin á sem fjölbreytilegastan máta, sem tónlist, sem skúlptúr, sem rými og sem myndflöt. Leyfa efnisheimi tónlistarinnar að leiða okkur áfram í upplifuninni og bæta enn frekar í þessa skynjunarsögu mannsins.

Hlutur tónlistar

Listamaðurinn sá hversu hjákátlegt það var að manneskja, gerð úr marmara, væri
í hugum manna skúlptúr en manneskja af holdi og blóði ekki.
Listamaðurinn þráaðist við: ég er skúlptúr. Þegar ég hreyfi mig er ég kvikur
skúlptúr og þegar ég gef frá mér hljóð er ég hljóðskúlptúr.

Magnús Pálsson

Það er ótrúlegt að maðurinn hafi gert eins óræðan og ósnertanlegan efnivið og hljóð er[7] að jafn veigamiklu viðfangi í upplifun sinni af heiminum, þá í formi tónlistar. Það er ekki sjálfgefið að við veitum hljóði jafn mikla eftirtekt og athygli í dagsins önn líkt og raunin er. En í kringum hljóðin hefur skapast breið menning og er okkur í dag óhugsandi að ímynda okkur mannkynið án þess að því fylgi tónlist í einhverri mynd.

Í gegnum þennan óefniskennda miðil, hljóðið og tónlistina, tekst okkur að draga fram ný samhengi sem við speglum okkur í og sem hafa áhrif á upplifun okkar á heiminum hverju sinni. Saga tónlistar er að einum þræði saga skynjunar mannsins á þessu fyrirbæri, hljóðinu, og viðhorfi til þess óefniskennda miðils. En líkt og með aðrar listgreinar, slæðast einnig inn í tónlistina hugmyndir um samfélagsgerð og tíðaranda.[8]

Til vitnis um það hvernig tónlist hefur breyst í skynjun mannsins í gegnum tíðina má benda á hvernig upptökumiðillinn hefur leikið stóran þátt í því að umvarpa hugsuninni um tónlistina. Með tilkomu hljóðritunar virðist tónlist í dag eiga sína skýrt skorðuðu lokamynd, þar sem allur lifandi flutningur eða flutningur frá öðrum flytjendum verður að eins konar tilbrigði við þá frummynd. Hér rennur tónlistin endanlega saman í skynjun okkar við persónu flytjandans eða höfundarins. Fyrir daga hljóðritunar var það eðlilegur hlutur að tónlist ætti sinn stað og sína stund, bæði hvað varðar rými en einnig tilefnið og samfélagslegt samhengi. Í tónlistinni léði hver flytjandi hverju verki sína rödd, aðstæður og dagsform, sem ekki varð endurtekið.

Við lítum til þess að hlustunin ein og sér sé helsta móttökuleið okkar þegar kemur að skynjun tónlistar en hugmyndaheimurinn í kringum hana er langt því frá jafn óáþreifanlegur og hljóðið sjálft. Í lifandi tónlistarflutningi deilum við tónleikarýminu með lifandi manneskjum í nánd sem litar upplifun okkar af tónlistinni jafnvel þó við streitumst á móti. Á yfirborðinu er leitast eftir því að skapa tónlistinni sem skýrastan og hlutlausastan ramma innan tónleikaformsins, á sama hátt og litið er til hlutleysis safnarýmisins fyrir sjónlistir. En það þarf ekki mikið að bregða út af til að minnstu þöglu atriði liti upplifun okkar sterkum litum.

Löngu fyrir tilkomu upptökutækninnar var það stór hluti tónlistarmenningarinnar að efnisgera tónlistina með einhverjum leiðum: í gegnum orðin (sönginn), hljóðfærin, flytjandann, höfundinn, nótnaskriftina eða huglægari efni á borð við laglínu, hljóm, hryn, tón og þar fram eftir götunum. Allt eru þetta leiðir til þess að koma böndum á þennan óáþreifanlega efnivið. Það er því tæknin, í breiðum skilningi þess orðs (sem nær allt frá hlutum og verkfærum til huglægari hluta á borð við aðferðir, kerfi og skipulag), sem hefur gert okkur kleift að skapa í hljóðum. Hún hefur gefið okkur vettvang þar sem sköpunargleðin fær lausan tauminn. Þessi heimur tækninnar hefur veigamikil áhrif á sköpunarferlið, þar sem leikurinn og sköpunin fer fram með ákveðnum leiðum.

Þannig opna hljóðfæri fyrir vissar tónlistarlegar hugmyndir með möguleikum sínum. Nótnaritun gerir okkur kleift að vinna hlutlægt með tímann en nótnaskriftin sjálf er ein leið til þess að vinna með hljóð og þögn og gera þau áþreifanleg, þó hún hafi einnig í för með sér breytt sjónarhorn á tímann. Tíminn hefur þar verið endanlega kortlagður. Með nótnaskriftinni gefst því færi á að skapa flóknari og lengri vef tónlistar en myndgerving hljóðanna hefur einnig í för með sér breytta sýn á hljóðin sjálf. Tónlistin tekur breytingum með hverri nýrri hlutbindingu hljóðsins, ef svo mætti segja. Það er í reynd ógerningur að slíta sögu tónlistar alfarið frá þeim hlutum sem hana hafa skapað. Hliðstæðu þessarar fullyrðingar má finna í skrifum franska heimspekingsins Maurice Merlau-Ponty um skynjun mannsins en Merlau-Ponty beinti sjónum sínum að þætti líkamans í skynjun okkar á umheiminum. Líkami okkar, verandi eini tengiliður hugans við umheiminn, setur óumflýjanlega sinn lit á skynjun okkar á umheiminum:

„Hér verður [...] á vegi okkar sú hugmynd að maðurinn sé ekki andi og líkami heldur andi með líkama, vera sem fær ekki komist að sannleikanum um hlutina nema vegna þess að líkami hennar er svo að segja á bólakafi í þessum sömu hlutum.“[9]

Hér leyfum við okkur því að álykta að efnisheimurinn sé einn af helstu áhrifavöldunum í skynjunarsögu hljóðanna.

mynd3-magnus_og_marko.jpg

Mynd 3: Í nærmynd: Lúðurhljómur í skókassa (1976) eftir Magnús Pálsson. Í fjarska: Kilgore’s Resort (2019) eftir Marko Ciciliani

Skynjunarsagan

Orð Magnúsar Pálssonar, myndlistarmanns, hér að ofan beinast að hugmyndaheimi skúlptúrlistarinnar en hann gagnrýnir þar að hugmyndaheimur hennar í hugum manna skuli yfir höfuð vera afmarkaður af vissum efnum og formum. Þar sem efniskenndin hefur vissulega sett listrænni sköpun skúlptúrlistarinnar mörk, líkt og í tilfelli tónlistarinnar. En tilvísanaheimur skúlptúrsins er löng saga skynjunar. Ákall listamannsins um yfirfærslu hugmyndaheims skúlptúrsins yfir á líkama af holdi og blóði er í raun að veita hugmyndaheimi og skynjunarsögu skúlptúrsins meiri athygli. Vensl þeirrar sögu við aðra hluti verður upphaf að óvæntu samtali. Með slíkri yfirfærslu bregður líkamanum, af holdi og blóði, fyrir í ljósi skúlptúrsins um leið og það skapast nýjar tengingar innan hugmyndaheims skúlptúrsins.

Bandaríska tónskáldið John Cage kallaði eftir svipaðri aftengingu á milli hugmyndaheims tónlistarinnar og efniviðarins sjálfs um miðbik 20. aldarinnar:

„Ný tónlist: ný hlustun. Ekki tilraun til að skilja það sem sagt er, því ef það ætti að segja eitthvað markvisst væru hljóðin mótuð í orð. Eingöngu ætti að gefa hlustuninni sjálfri athygli okkar.“ [10]

Hlustunin sjálf ætti að gerast helsti leikur tónlistarinnar og þannig mætti í raun svipta tónlistina þeim efnisheimi sem hún hafði takmarkast við, þar á meðal því markmiði að segja sögur og hafa hljóðið eingöngu sem sendiboða frásagna. En hér veitum við hlustuninni sjálfri athygli okkar og með þeim leiðum leyfist hljóðinu í raun að bindast hverju sem er.

Orð Magnúsar bera samtíma hans og viðhorfi til listarinnar einnig vitni. Efnivið listarinnar má sækja hvert sem er og hafa myndlistarmenn þar verið óhræddir við að gera hljóðin og menningu tónlistar að viðfangi í verkum sínum. Í gegnum þann leik hafa komið fram óvænt sjónarhorn á hljóðin: dregin hefur verið fram efniskennd hljóðanna, hljóðunum hefur brugðið fyrir út frá sjónarhorni skúlptúrsins, út frá sjónarhorni rýmisins, en einnig hafa hljóðin verið nýtt til þess að umbreyta upplifun á rýmum, þá í formi hljóðinnsetninga. Tónskáld hafa einnig sóst eftir því að auka vægi efnisheimsins í upplifun tónlistar og hafa þannig áhrif á hlustun áhorfandans og leyfa öðrum skilningarvitum en eyrunum að taka þátt í heildarupplifuninni.

mynd4-bergrun_snaebjornsdottir_-_cumulus_2019_-_detail.jpg

Mynd 4: Verk Bergrúnar Snæbjörnsdóttur, Cumulus (2019)

Sýning tónlistar

Grunnhugmyndin á bak við tónleikaröðina Hljóðön þau fimm ár sem hún hefur verið á dagskrá Hafnarborgar er að leiða áheyrendur inn á slóðir þess fremsta í samtímatónlist og nota aðstæður og nánd salarins til að magna áhrifin. Á sýningunni er hugmyndaheimur tónlistarinnar þaninn út fyrir heim hljóðanna, þar sem sjónræni þátturinn hefur sterka rödd í verkunum og mótandi áhrif á upplifunina. Tónlistin verður hér í senn hljóð og hlutur, flæði tímans er skipt út fyrir flæði í rými, hljóðinu skipt út fyrir hluti, flytjandanum skipt út fyrir hlustandann.

Listamennirnir sem valdir hafa verið til þátttöku eiga það sameiginlegt að fást við hljóð en þeir skilgreina sig sem tónlistarmenn, tónskáld, gjörningalistamenn og myndlistarmenn. Sumir gangast bara við einum titli á meðan aðrir eru allt í senn. Verkum þeirra er teflt saman svo úr verður einhvers konar kakófónía eða samhljómur, allt eftir því hvernig við leggjum við hlustir.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Ásta Ólafsdóttir, Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir, Logi Leó Gunnarsson, Jón Gunnar Árnason, James Saunders, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Magnús Pálsson, Marko Ciciliani, Tom Johnson, Einar Torfi Einarsson og Curver Thoroddsen.

Staðbinding hljóðanna

Sameiginlegur þráður í verkum tónskáldanna Toms Johnsons og Markos Cicilianis og myndlistarmannsins Loga Leós Gunnarssonar er staðbinding hljóðanna við rými, sem gerir rýmin að virkum þætti í upplifun áhorfandans og virkni verkanna. En rými þessara verka og myndheimur þeirra eru ólíkir að upplagi.

Í verki Loga Leós, án titils (2016), verður rýmið í raun að tvívíðum fleti. Veggfastar lyklakippur bregðast við flauti listamannsins, sem birtist á myndbandi, og gefa frá sér hljóð sem ljóstra upp um staðsetningar sínar á veggfletinum. Í hverju kalli listamannsins sprettur því fram ferðalag og tímabundnar tengingar innan veggflatarins.

Í verki Markos Cicilianis, Kilgore's Resort (2019), gefst sýningargestum færi á að ferðast um sýndarheim tölvuleiks þar sem tónlistin sprettur fram í virkni gestsins innan heims leiksins. Hér eru hljóðin staðbundin og tónlistin sprettur fram við könnun og forvitni sýningargesta innan þessa sýndarheims.

Í verki Toms Johnsons, Níu bjöllum (1979), setur rýmið tónlistinni takmörk. Slagverksleikari ferðast eftir ólíkum gönguleiðum á milli níu bjalla sem hanga úr loftinu. Laglínurnar spretta fram í gegnum ferðalag flytjandans á milli bjallnanna. Hér er tími tónlistarinnar afmarkaður af staðsetningu bjallnanna í rýminu og ferðalagi flytjandans.

Efniskennd hljóðanna

Í verkum myndlistarmannsins Jóns Gunnars Árnasonar og James Saunders leika efnisleg form og efniskennd stóran þátt í virkni verkanna. Sýningargestum býðst að handleika verkin og upplifa þá tónlist sem bundin er í form og efni verkanna.

Í verki Jóns Gunnars, Cellophony (1972), hefur sellófani verið komið fyrir í pappahólk. Sprettur fram heill konsert við þær einföldu athafnir að koma sellófaninu fyrir og draga það úr hólknum.

Í verki James Saunders, With Paper (2006), er hljóðheimur pappírs í brennidepli. Hér sprettur tónlistin fram í gegnum einfaldar blýantsteikningar, blaðaklippingar og fingrastrokur eftir pappírsfletinum.

Óskiptur hljóð- og myndheimur

Í verkum Bergrúnar Snæbjörnsdóttur og Steinunnar Eldflaugar Harðardóttur, sem styðst við listamannsnafnið DJ Flugvél og geimskip, mynda hljóð- og myndheimur órjúfanlega heild sem jafnframt undirstrika hvor annan.

Innan verka sinna leitast Bergrún við að skapa innri rökfræði, sem hljóðheimurinn sprettur fram úr. Fyrir sýninguna hefur Bergrún unnið nýtt verk, Cumulus (2019), inn í sýningarrýmið en á opnun sýningarinnar mun slagverksleikarinn Jennifer Torrence flytja sérstaka lifandi útgáfu verksins.

Í tölvuleik Steinunnar Eldflaugar, OUR ATLANTIS (ノ◕ヮ◕) THE GAME  (2018), safna iðkendur leiksins hljóðbútum úr samnefndu lagi Steinunnar, á víð og dreif innan heims leiksins, sem þakinn er myndum og myndmáli sem fylgt hefur tónlist Steinunnar alla tíð, sem órjúfanlegur hluti af henni. Útgáfa leiksins ber vott um nýstárlega leið tónlistarútgáfu í samtímanum, jafnframt því að vera fullkominn samruni þess mynd- og tónheims og leikgleði sem einkennir list Steinunnar.

mynd5-curver-marko-tutti.jpg

Mynd 5: Tónlistarhornið (2019) eftir Curver Thoroddsen (til vinstri) og Kilgore’s Resort (2019) eftir Marko Ciciliani

Hlutgerving hljóðanna

Myndlistarmennirnir Ásta Ólafsdóttir og Magnús Pálsson beina sjónum að efnisgervingu hljóðanna og því hvernig ímyndunaraflið getur litað hljóðupplifunina sterkum litum.

Verk Magnúsar, Lúðurhljómur í skókassa (1976), er innblásið af einni af sögum Barónsins Münchausens, sem greinir frá því þegar Baróninn dag einn, í miklu frosti við veiði, blés í veiðihorn sitt og hljómur þess fraus í lúðrinum svo ekkert heyrðist. Síðar um kvöldið hengir Baróninn lúðurinn upp yfir arininn í veiðikofa sínum sem verður til þess að hljómurinn þiðnar og dettur úr lúðrinum.

Í innsetningu Ástu Ólafsdóttur, Innsettri melódíu (1985), verður hljóðrás innsetningarinnar að nokkurs konar hljóðgervi hlutanna og hlutirnir að hlutgervingu hljóðanna: „Hópar af léttum gagnsæjum formum mynda hring á gólfi. Ofan frá, úr miðju hringsins, heyrist hljóð eins og verið sé að höggva til steina. Lögun hinna þrívíðu forma er mismunandi og tilheyrir hvert form einni tónhæð og eru þannig eins konar þögult mót af hljómum.“[11]

Því miður hafa upprunalegir skúlptúrar innsetningarinnar glatast í tímans rás en eftir liggur ljósmynd frá hinni upphaflegu innsetningu í Nýlistasafninu sem og hljóðrás verksins, sem reynist vera okkar haldbærasta verkfæri til að endurupplifa hlutgervi innsetningar Ástu.

Teikning hljóðanna

Áður en Steina sneri sér alfarið að myndbandsmiðlinum og myndlistinni hóf hún sinn feril sem fiðluleikari og hefur fiðlan verið áberandi í verkum hennar allan hennar listamannsferil. Í myndbandsverkinu, Violin Power (1978), fléttast saman ólík myndskeið frá árunum 1969-78, þar sem Steina leikur á fiðluna, að einum þræði nokkurs konar portrett af listamanninum, en einnig leikur Steina hér fyrir myndbandsmiðilinn og á hann, ef svo mætti segja. Í verkinu hefur fiðluleikur Steinu áhrif á það hvernig myndin bjagast í rauntíma. Hér teiknar Steina í myndbandsmiðilinn með fiðlunni. Tónlistin verður sem afleiða þessarar teikningar í myndbandsmiðilinn.

Myndband 2: Violin Power eftir Steinu

Minning hljóðanna

Í verki Einars Torfa Einarssonar, minnið er þrístefnugata (2018) (e. memory is a three-way road), sem birtist eingöngu hér í sýningarskrá sýningarinnar, er unnið með minni hvers hlustanda fyrir sig. Kallað er eftir hljóðminningum sem bera ákveðin grunneinkenni en það er vissulega í höndum hvers og eins að flokka minningar sínar og skilgreina. Þessum minningum fylgir einnig minning um stað, augnablik og tilfinningu.

Samfélag tónlistar

Yfir sýningartímann koma ólíkir listamenn að viðburðadagskrá sýningarinnar og meðal annars munu myndlistarmennirnir Ásta Fanney Sigurðardóttir og Haraldur Jónsson standa fyrir viðburðinum BLÓÐSÓL III, sem er þriðja samstarfsverkefni þeirra undir sama nafni. BLÓÐSÓL lýsir upp síkvikar væntingar mannsins þar sem þátttakendur eru í senn áhorfendur, viðfangsefni og hvorugt.

   Þá mun Curver Thoroddsen halda úti hljóðsmiðju fyrir grunnskólanemendur úr Hafnarfirði en gestir sýningarinnar munu einnig njóta góðs af, þar sem Curver hefur skapað rými innan sýningarinnar þar sem leik- og sköpunargleðin fær að leika lausum hala.

_____________________________

Hljóðön – sýning tónlistar

26. janúar – 3. mars 2019

Listamenn

Ásta Ólafsdóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Curver Thoroddsen, Einar Torfi Einarsson, James Saunders, Jón Gunnar Árnason, Logi Leó Gunnarsson, Magnús Pálsson, Marko Ciciliani, Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir og Tom Johnson.

Viðburðardagskrá

Ásta Fanney Sigurðardóttir, Barbara Lüneburg, Berglind María Tómasdóttir, Curver Thoroddsen, Haraldur Jónsson, Jennifer Torrence,  Marko Ciciliani og Skerpla*.

*Skerplu skipaði Alicia Achaques, Bergþóra Linda Ægisdóttir, Ísidór Jökull Bjarnason, Karl Magnús Bjarnarson, Kári Sigurðsson og Snæfríður María Björnsdóttir

Sýningarstjóri: Þráinn Hjálmarsson

Sýningardagskrá

Laugardagurinn 26. janúar 2019

 • Kl. 14: Jennifer Torrence, slagverksleikari flytur verk Tom Johnson, Níu bjöllur (1972) ásamt því að frumflytja verk Bergrúnar Snæbjörnsdóttur,  Cumulus (2019).
 • Kl. 15: Sýningaropnun

Fimmtudagurinn 31. janúar 2019

 • Kl. 13-15: Málstofa Marko Ciciliani og Börböru Lüneburg við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, Skipholti 31, 101 Reykjavík. Viðburðurinn er haldinn af Rannsóknarstofu í Tónlist í samstarfi við Myrka Músíkdaga og Hafnarborg. Málstofustjóri er Einar Torfi Einarsson

Laugardagurinn 2. febrúar 2019

 • Kl. 16: Marko Ciciliani og Barbara Lüneburg flytja eigin verk. Kilgore (2017/2018) og Chemical etudes (2018) eftir Marko Ciciliani og Osculation - A Contact Between Curves and Surfaces (2018) eftir Barböru Lüneburg.

Sunnudagurinn 17. febrúar 2019

 • Kl. 14: Skerpla og Berglind María Tómasdóttir flytja verk James Saunders; with paper (2006/8, 2009-) og All the things we make you do (2016), Jóns Gunnars Árnasonar: Cellophony (1972) og Atla Heimi Sveinsson: For Boys and girls: Molto Tranquillo (fyrir Hrein Friðfinnsson) (1967)

Fimmtudagurinn 21. og föstudaginn 22. febrúar  2019

 • Kl. 13–16: Hljóðlistasmiðja fyrir börn (7–11 ára) undir leiðsögn Curvers Thoroddsen.

Laugardagurinn 23. febrúar 2019

 • Kl. 15: Lokaviðburður hjá nemendum í áfanganum „Hljóð sem efniviður“ við myndlistardeild Listaháskóla Íslands í umsjón Curvers Thoroddsen.
  Þátttakendur: Alexander Hugo Gunnarsson, Clara Mosconi, Dúfa Sævarsdóttir, Erla Ósk Daníelsdóttir, Gunnhildur Halla Ármannsdóttir, Högna Jónsdóttir, Hrafnkell Tumi Georgsson, Katrín Björg Gunnarsdóttir, Klemens Hannigan, Kristín Einarsdóttir, Luke van Gelderen, Ronja Mogensen og Styrmir Hrafn Daníelsson

Sunnudagurinn 3. mars 2019

 • Kl. 14: Sýningarstjóraspjall – Þráinn Hjálmarsson og Ágústa Kristófersdóttir
 • Kl. 16: Ásta Fanney Sigurðardóttir og Haraldur Jónsson frumflytja gjörninginn Blóðsól III
Heimildir

Berglind María Tómasdóttir. 2011. Love me tender. Youtube. Sótt 15. Mars 2019: https://youtu.be/12zbm8fXKVI

Cage, John. 1961. Silence: Lectures and Writings by John Cage. Wesleyan University Press. New England, Bandaríkin.

Harnoncourt, Nikolaus. 1988. Baroque Music Today: Music as Speech - Ways to a New Understanding of Music. Amadeus Press. Portland, Oregon, Bandaríkin

Listasafn Íslands. (e.d.). PÍANÓ. Sótt 15. Mars 2019 af http://www.listasafn.is/syningar/nr/187

Magnús Pálsson. 1984. „Kennsla: geggjaðasta listgreinin“, hljóðsnælda vegna sýningar í Nýlistasafninu

Magnús Pálsson. 1978. Ýmsar hugm. fyrir nem. Myndlistadeildar (3. og 4.árs) og forskóla, gögn varðveitt hjá Magnúsi Pálssyni (óútgefið).

Merleau-Ponty, Maurice. 2017. Heimur skynjunarinnar. Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Reykjavík.

Ragnar Kjartansson. 2010. The man. Vimeo. Sótt 15. Mars 2019 af https://vimeo.com/12922707

Schubert, Alexander. (e.d.). Silent posts. Sótt 15. Mars 2019 af  http://silent-posts.net/

Unnur Úlfarsdóttir. 1986. „Ásta Ólafsdóttir myndlistarkona: Myndlistarmaðurinn er tengiliður“. Vikan. 43: 6-9.


[1]    Ragnar Kjartansson. 2010.

[2]    Berglind María Tómasdóttir. 2011.

[3]    Schubert, Alexander. (e.d.).

[4]  Magnús Pálsson hafði víðtæk áhrif á þróun listkennslu hér á landi í gegnum starf sitt við Mynda- og handíðaskóla Íslands. Lagði Magnús þar áherslu á að listsköpun nemenda einskorði sig ekki fyrirfram við efni, tækni og tjáningarmiðla. Heldur leiti að þeim tjáningarmiðli og aðferðum sem henti best þeirra hugmyndum og viðhorfum hverju sinni. (Magnús Pálsson. 1978.)

[5] Magnús Pálsson: „Svo skrítið sem það nú er, hefur myndlistin á síðustu áratugum hætt að vera handverks-eða kunnáttugrein en hefur orðið í staðinn grein alhliða sköpunar. Listin hefur orðið hugsköpunargrein í víðri merkingu. Bilið milli hinna hefðbundnu listgreina er orðið mjög ógreinilegt og meira að segja orðið erfitt að aðgreina skapandi verk á vísindasviðinu og skapandi listaverki. Skák aðgreinist varla frá list. Ljóð verða myndverk og myndverk tónlist“ (Magnús Pálsson. 1984.)

[6]    Listasafn Íslands. (e.d.)

[7] Segjum það hreint út: hljóð er hreyfing á loftmassa í rými sem að eyrun nema.

[8] Í umfjöllun sinni um túlkun barrokktónlistar nefnir stjórnandinn Nikolaus Harnoncourt hvernig samfélagsgerð barrokktímans, þar sem meðvitund um goggunarröð innan samfélagsins var alltumlykjandi, hafi haft áhrif á hugmyndir um mismikið mikilvægi tónanna í tónlistinni, er kom að tjáningu þeirra. Sjá: Harnoncourt 1988: 40.

[9]    Merleau-Ponty, Maurice 2017: 26.

[10]   Cage, John 1961: 10.

[11]   Unnur Úlfarsdóttir. 1986: 7.