Atli Ingólfsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Mílanó og París og bjó lengi í Bologna og starfaði við list sína.  Hann býr nú í Reykjavík, semur tónlist og kennir jafnframt hljómfræði og tónsmíðar.  Verk hans eru mörg og af öllu tagi. Atli er prófessor í tónsmíðum við LHÍ.

Ásbjörg Jónsdóttir er tónskáld, söngkona og píanóleikari. Hún hefur samið fjölbreytt tónverk sem hafa verið flutt af ýmsum tónlistarhópum svo sem Caput, Hljómeyki, Foot in the Door og fleirum. Hún lauk meistaranámi í tónsmíðum vorið 2018 frá Listaháskóla Íslands og nam m.a. undir leiðsögn Hróðmars I. Sigurbjörnssonar, Úlfars I. Haraldssonar og Ken Steen. Ásbjörg stjórnar barnakór og sinnir tónlistarkennslu auk þess að vinna að tónlistarrannsóknum og skrifum.

Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari, búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún leggur stund á Sólistanám (e. Advanced Post Graduate Diploma) í tónsmíðum við Konunglegu dönsku Tónlistarakademíuna undir leiðsögn Niels Rosing-Schow og Jeppe Just Christensen en hún lauk einnig Meistaraprófi við sömu stofnun. Þar áður nam hún tónsmíðar á framhaldsstigi undir handleiðslu Gabriele Manca við Verdi-akademíuna í Mílanó og lauk bakkalárprófi frá Listaháskóla Íslands þar sem hún naut leiðsagnar Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Þuríðar Jónsdóttur.

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir, erkitýpur og tónlist sem samfélagslegt fyrirbæri. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Árið 2014 lauk hún doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.

Edda Erlendsdóttir píanóleikari stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan einleikaraprófi og píanókennaraprófi. Hún stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í París og lauk þaðan prófi 1978. Edda hefur verið búsett í París í fjölmörg ár. Hún hefur kennt og starfað, m.a. við Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum.  Edda starfar nú sem gestakennari við Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu hefur Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum á Íslandi, í Frakklandi og víðar í Evrópu. Hún hefur einnig farið í tónleikaferðir til Rússlands, Úkraínu, Bandaríkjanna og Kína. Edda tekur ríkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi,  m.a. á Myrkum Músikdögum, hjá  Kammermúsíkklúbbnum, í Salnum í Kópavogi og á Listahátíð í Reykjavík.

Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð.

Elín Gunnlaugsdóttir nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1993. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Verkaskrá Elínar samanstendur af kammerverkum og söngverkum en hún hefur meðal annars skrifað fyrir Caput-hópinn, Camerarctica og Schola Cantorum auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verk Elínar hafa verið gefin út og verið flutt bæði hér heima og erlendis. Seinustu ár hefur Elín einnig skrifað nýja tónlist fyrir börn; þessi verk eru söngleikurinn Björt í sumarhúsi, tónlistarævintýrin Englajól og Drekinn innra með mér auk tónleikhússins Nú get ég. Elín kennir tónfræði og tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Tónskóla Sigursveins.

Gylfi Garðarsson er frá Ytri-Njarðvík og nam klassískan gítarleik og tónsmíðar í Reykjavík. Hann starfaði á sviði nótnaútgáfu í Danmörku 1988 til 1992 og eftir það á Íslandi. Hann hóf rekstur Nótuútgáfunnar 1993 utan um eigin nótnarit og nótnasetningarþjónustu. Nótnasetningar Gylfa spanna þúsundir blaðsíðna formlega útgefins efnis í þremur löndum. Haustið 2017 lauk Gylfi MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Hann var stofnfélagi í Sambandi íslenskra tónbókaútgefenda (SÍTÓN) 2012 og er formaður félagsins.

Helgi Rafn Ingvarsson (DMus) er tónskáld, stjórnandi, söngvari og stundakennari við Listaháskóla Íslands. Tónlist Helga hefur verið flutt víðsvegar á Íslandi og Bretlandseyjum af hópum eins og Kammersveit Reykjavíkur, Elektra Ensemble, Concorde Contemporary Music Ensemble, The Composers Ensemble, Chroma Ensemble, ALDAorchestra og meðlimum BBCSO svo dæmi séu tekin. Auk þess hefur hann samið og sviðsett fimm kammeróperur. Helgi nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands, Musikhögskolan i Malmö og Guildhall School of Music and Drama í London, og hefur hlotið viðurkenningar og stuðning frá m.a. Guildhall School Trust, Guildhall School Doctoral Candidate Development Fund, The Michael Tippett Musical Foundation, Arts Council England, Listamannalaunum, Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, Lista-og menningarráði Kópavogsbæjar og STEF.

Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson útskrifaðist úr tónsmíðum frá LHÍ 2016. Hann hefur undanfarin ár unnið að tónlist með hljómsveitinni Fufanu. Nú leggur hann stund á meistaranám í tónsmíðum við RMC í Kaupmannahöfn þar sem hann er búsettur.

Sigurður Flosason lauk einleikarprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983. Hann lauk bachelorprófi (1986) og mastersprófi (1988) frá Indiana University í Bandaríkunum í klassískum saxófónleik og jazzfræðum. Aðalkennarar hans voru Eugene Rousseau og David Baker. Framhaldsnám hjá George Coleman í New York 1988-89. Sigurður starfar á ólíkum sviðum íslensks tónlistarlífs. Geisladiskar hans, um þrjátíu talsins, spanna vítt tónlistarlegt svið, þ.m.t eigin tónsmíðar, jazzstandarda, frjálsan spuna og þjóðlagaúrvinnslu. Auk jazztónlistar liggur eftir Sigurð talsvert magn kórtónlistar. Sigurður hefur leikið mikið erlendis, bæði í eigin verkefnum og fjölþjóðlegum samstarfsverkenfum. Hann hefur átta sinnum hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin og tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Hann hefur einnig hlotið tilnefningar til Dönsku tónlistarverðlaunanna og Tónlistarverðlauna DV. Frá 1989 til 2017 var Sigurður aðstoðarskólastjóri og yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H. Hann hefur verið aðstoðarskólameistari og yfirmaður rytmískrar deildar MÍT (Menntaskóla í tónlist) frá 2017 og fagstjóri rytmísks kennaranáms við Listaháskóla Íslands frá 2018. Sigurður hefur haldið fjölmörg námskeið víða um land og erlendis, stýrt námskrárgerð og sinnt margvíslegum stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Þá hefur hann verið formaður stjórnar Stórsveitar Reykjavíkur um langt árabil og stjórnandi margra verkefna hljómsveitarinnar.

Þorbjörg Daphne Hall er fagstjóri fræða og lektor í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur starfað s.l. sex ár. Hún stundar doktorsnám við Háskólann í Liverpool undir leiðsögn próf. Sara Cohen. Viðfangsefni hennar í náminu snýr að hugmyndum um íslenskan hljóðheim í dægurtónlist 21. aldar þar sem sjálfsmynd þjóðar, ímyndir, landslag og náttúra skipa lykilhlutverk. Þorbjörg hefur gefið út greinar og haldið fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum um íslenska tónlist, tónlist og þjóðerniskennd, kvikmyndina Heima eftir Sigur Rós og um tónlist í Kristjaníu í Kaupmannahöfn.

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við LHÍ og MÍT. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af hópum og flytjendum á borð við CAPUT, Basel Sinfonietta, BBC Scottish Symphony Orchestra, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Vertixe Sonora, Nordic Affect, Athelas sinfonietta, Kammersveit Reykjavíkur auk fjölda annarra. Þráinn fer með listræna stjórn tónleikaraðarinnar Hljóðön, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 4