Tölur í óskilum

Gylfi Garðarsson

Opinberar tölur um íslenska tónlistarfræðslu eru af mjög skornum skammti þótt lítið mál væri að bæta úr því sem mestu skiptir. Hvers vegna eru slíkar tölur mikilvægar? Tvö dæmi um rannsóknarefni á þessu sviði.

Hve margir nemendur voru í formlegu tónlistarnámi á Íslandi árið 2017? Ætla mætti að Hagstofan eða Samband sveitarfélaga hefðu svör við þessari einföldu spurningu en það er öðru nær. Reyndar virðast litlar líkur á að nokkur maður viti hver fjöldinn var. Eða hve margir stunduðu nám á trompet í Reykjavík, píanó við Eyjafjörð, gítar á Reykjanesi eða harmóníku á Vestfjörðum. Það sem verra er þá er ómögulegt að finna greiðlega svör við þessum spurningum. Til þess þyrfti svo umfangsmikla rannsókn að jafnvel stéttarfélögum tónlistarkennara er það ofviða. Samt senda allir tónlistarskólar slíkar tölur skilmerkilega til síns sveitarfélags á hverju ári. Eins og þeim ber skylda til.[1] Eftir að tölunum hefur verið skilað inn heyrist hins vegar ekki meira af þeim. Sveitarfélögin hvorki halda þeim til haga né miðla þeim frá sér. Ekki heyra slík gögn á nokkurn hátt undir persónuverndarlög og því er ráðgáta hvernig stendur á þessari leynd um jafn mikilvægar tölur.

Er öllum sama?

Sveitarfélögum til varnar má segja að engin skýr krafa virðist gerð um að halda tölum úr tónlistarfræðslunni til haga og enn síður að miðla þeim skipulega. Ekki krefst ríkið þess, ekki Samband sveitarfélaga og ekki neinn þeirra fjölmörgu hagsmunaaðila sem, í mörgum tilfellum,  sárvantar þessar tölur. Það breytir samt ekki alvöru málsins fyrir alla hlutaðeigandi. Hvernig á t.d. að mæla fyrir skynsamlegri nýtingu opinberra fjármuna á þessu sviði ef engin tölfræði finnst til að byggja á? Hvaða gagn er af talnaupplýsingum sem tónlistarskólarnir útvega samviskusamlega ef þær enda allar inni í milliveggjum opinberrar stjórnsýslu? Halda mætti að flókið og erfitt væri að finna lausn á þessari upplýsingastíflu því hér sé margslunginn vandi á ferðinni. En með fljótlegri athugun sést að líklega er verkefnið fremur auðleyst. Öll sveitarfélög skila nú þegar mikið af talnagögnum um fræðslumál til Hagstofunnar. Þar á meðal um fjölda tónlistarnemenda í FRAMHALDSNÁMI. Hvað er því til fyrirstöðu að telja fram fjölda tónlistarnemenda í GRUNN- og MIÐNÁMI í leiðinni? Ekki er að sjá annað en að með örlitlum viðbótargögnum til Hagstofunnar gætu helstu grunntölur um tónlistarfræðslu landsins legið eins og opin bók fyrir alla sem vantar þær – til að gera gott enn betra. Það eina sem vantar er ákvörðun stjórnvalda. Lítið hvísl frá ráðherra ætti að duga – án þess að nokkur aukakostnaður hlytist af, neins staðar.

Öflugri tónlistarfræðsla á móðurmálinu

Flestum ætti að vera ljóst mikilvægi þess að gott framboð íslenskra kennslu- og nótnarita sé aðgengilegt fyrir tónlistarfræðslu og almenna tónlistarmenningu á Íslandi. Mætti nefna ýmsar gildar ástæður fyrir því, svo sem varðveislu og miðlun íslenskra sönglaga. Önnur veigamikil ástæða er, að í boði séu námsgögn á íslenskri tungu. Það hlýtur að vera forgangsatriði að til séu tónbækur á íslensku, fyrir íslenskt kennsluumhverfi í tónlist á grunn- og miðnámsstigi.

En hvert skyldi vera umfang og eðli þarfarinnar fyrir þetta innlenda tónbókaefni? Höfundar og útgefendur íslenskra tónbóka þyrftu helst, eins og aðrir, að byggja sitt framlag á raunhæfum forsendum. Grundvallargögn til að meta þá þörf sem hér um ræðir eru opinberar tölur svo sem nemendafjöldi í tónlistarfræðslu, skipting þeirra í námsgreinar, námsstig o.s.frv.

Þegar æðsta stjórnvald landsins sýnir enga tilburði til gagnaöflunar um fagið né hirðir um þau gögn sem aðrir leggja til er eðlilegt að mörgum fallist hendur. Sú staða þýðir hins vegar ekki að allir aðrir séu neyddir til að standa með hendur í vösum.

Tvær rannsóknir

Árið 2012 stofnaði hópur af höfundum og útgefendum íslensks tónlistarkennsluefnis félagið Samband íslenskra tónbókaútgefenda (SÍTÓN) til að vinna að sínum hagsmunamálum. Frá stofnun hefur félagið fundið áþreifanlega fyrir því hve alvarlegur skortur er á hvers konar fag- og hagtölum sem hafa áhrif á útgáfu nótna og annars prentaðs efnis fyrir tónlistarstarfsemi í landinu. Tölur um fjölda tónlistarnemenda eftir landshlutum og námsstigi ættu t.d. að vera aðgengilegar grundvallarupplýsingar hér á landi. Slík talnagögn hafa önnur ríki Norðurlandanna birt um áratuga skeið. Á Íslandi eru þau nánast ófáanleg. Vegna mikilvægi þess konar upplýsinga fyrir hagsmuni félagsmanna í SÍTÓN var ákveðið að félagið athugaði möguleika á eigin gagnaöflun og legði eitthvað af mörkum til að bæta úr þeim alvarlega upplýsingaskorti sem við blasir. Hafa tvær grunnrannsóknir verið gerðar fyrir félagið sem varpa skýru ljósi á nokkur mikilvæg atriði sem áður voru alveg óupplýst. Talnagögnin sem rannsóknirnar skiluðu eru ekki síður mikilvæg fyrir tónlistarfagið almennt. Fyrri rannsóknin fjallaði um umfang nótnarita í íslenskum bókasöfnum og var gerð vorið 2014. Hún var kynnt með stuttum pistli á vefsíðu SÍTÓN í formi greinargerðar um aðdraganda, framkvæmd og niðurstöður rannsóknarinnar.[2] Seinni rannsóknin var talsvert umfangsmeiri og fjallaði um notkun á íslensku kennsluefni í grunnnámi tónlistarskólanna 2016. Hún var gerð áramótin 2016-17 og er einnig kynnt á vefsíðunni í formi greinargerðar um tildrög, framkvæmd og niðurstöður rannsóknarinnar.[3]

Fremur en að ræða aðra eða báðar ofangreindar rannsóknir í löngu máli hér þá hvet ég áhugasama lesendur til að nota hlekkina í þær hér í viðauka og smella sér beint í aðra eða báðar greinargerðirnar til að kynna sér þær nánar. Í leiðinni væri ekki úr vegi að fræðast um einhverjar af þeim tæplega 160 tónbókum frá félagsmönnum SÍTÓN sem eru kynntar á www.siton.is.

Viðauki:

Gylfi Garðarsson. Nótnarit í gegni (SÍTÓN, 2015)

Gylfi Garðarsson. Íslenskt kennsluefni í grunnnámi tónlistar 2016-17 (SÍTÓN, 2017)

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda