Að skrifa nótur með hljóðum

Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson

Snemma á síðasta ári stökk ég inn um dyr sem opnuðust, en það var alls ekkert á stefnuskránni hjá mér að athuga einu sinni hvort hurðin væri ólæst. Svo fór sem fór að ég sótti um í meistaranám í tónsmíðum og komst inn. Námið er í Kaupmannahöfn við Rytmíska konservatoríið þar í borg, RMC. Það var upphaflega löngunin til að flytja til Kaupmannahafnar sem varð til þess að ég sótti um í námið, en á þeim mánuðum sem liðu frá því ég komst inn og þar til skólinn byrjaði fóru ákveðnar hugmyndir að gerjast. Ég fór að sjá skýrar tengingar á milli þeirra hugmynda að verkefnum sem ég lagði fram í umsókninni og þess hvernig þær gætu raunverulega orðið að veruleika. Ég hóf því námið af eldmóði við að blanda saman þeim tveimur ólíkum tónsmíðaaðferðum og nálgunum sem ég hafði hrærst í. Annarsvegar var það popp/rokkið sem hefur verið mín aðalgrein innan tónlistarsköpunar síðustu ár og svo á hinn bóginn skrifaðar og listrænt rannsakandi tónsmíðar.

Fyrstu dagana eftir skólasetningu í RMC var ég umvafinn tugum tónlistarmanna allan liðlangan daginn. Ég var fullur af innblæstri í þessu nýja umhverfi og byrjaður að skissa niður hugmyndir, búa mér til kerfi til að stjórna hljóðrófum og hrynjandi, auk þess að semja lög. Ég ætlaði að nýta mér þekkingu mína til að skrifa fyrir hefðbundin kammerhljóðfæri og notfæra mér þann banka af nýbrigðum í spilatækni (e. extended techniques) sem til eru og búa þannig til hljóðrófsheim sem myndi líma hljóðheim laganna saman. Á meðan ég hringsnerist í skólanum að skissa niður hugmyndir hóf ég leitina að mögulegum flytjendum. Ég fór að ræða við þá hljóðfæraleikara sem eru innan skólans og var mér þá heldur brugðið. Í samtölum við þá komst ég að því að þeir þekktu ekki þau verk né þá leiktækni sem ég var að vitna í, lásu ekki nótur nógu vel til að geta spilað verkin og tengdu lítið við þær hugmyndir sem ég var að bera undir þá.

Mér byrjaði að líða smá eins og ég hefði tekið vitlausa ákvörðun með val á skóla, skildi lítið í umhverfinu sem ég var kominn í og fann fyrir hindrunum í framvindu tónsmíðanna. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég var staddur í Mekka Evrópu til að læra spuna og frjálsan djass (e. free improvisation and free jazz). Í kjölfarið taldi ég ólíklegt að ég myndi finna hljóðfæraleikarana sem ég var að leita að til að flytja þá tónlist sem ég var að semja. Að sjálfsögðu hefði ég getað leitað yfir í Konunglega Konservatoríið að hljóðfæraleikurum, en ég var ekki tilbúinn að gefast upp. Ég vildi reyna að halda þessu innanhúss og búa þannig til frjórra vinnuumhverfi. Ég réri því á önnur mið og leitaði til hljóðgervla til að semja fyrir. Með þeim gat ég stjórnað öllu og tókst að smíða tilbrigði af hljóðrófshljóðheimi mínum með þeim. Ég hélt áfram að semja lögin og reyna að púsla þessum tveimur nálgunum saman. Mér þótti árangurinn ágætur og spennandi upphaf að þessari blöndu popptónlistar og tónsmíða.

Það er svo í október sem ég fæ uppljómun. Þá voru tónleikar með öllum úr mínum árgangi. Þeir fluttu sína tónlist, sem hafði verið samin á undanförnum vikum, og var það í fyrsta skipti sem við heyrðum í raun hvað hver og einn, bæði hljóðfæraleikarar og tónskáld, voru að gera. Tónleika eftir tónleika heyrði ég hljóð og spilamennsku sem ég hafði verið að leita að í upphafi annar. Fæstir voru með nótur en ef einhver var með þær þá gekk ég upp að þeim eftir tónleikana í von um að ég gæti lært nótnaskriftina sem flytjendurnir voru að vinna með. Það sem var á nótnapappírnum voru hins vegar örfáir hljómar og laglínur með leiðbeiningum eins og „play freely“. Nóturnar voru bara léttur vegvísir fyrir flutning þeirra. Þetta var allt spilað af innsæi, áhrifum flytjendanna hvern á annan og sjaldnast fyrirfram ákveðið hvað myndi gerast. „What happens, happens“ sögðu þeir þegar ég ræddi við þá eftir flutninginn og það virtist vera algengasta viðhorfið til spilamennskunnar. En hvernig gat ég nýtt mér þetta? Jú, uppljómunin fólst í því að nú vissi ég að ég gat fengið þau hljóð sem ég hafði áhuga á, en þurfti að læra hvernig ég færi að því.

Vinnan byrjaði á því að ræða við þá tónlistarmenn sem höfðu hrifið mig á sínum tónleikum og finna sameiginlegan flöt sem við gætum unnið út frá. Þá var þátttaka Donny McCaslin og hljómsveitar í gerð Blackstar plötu David Bowie góður staður til að hefja samræður því allir þeir spilarar sem komu að mínu verkefni eru miklir aðdáendur McCaslin og hljómsveitar hans. Þannig gat ég sannfært þá um að spila popp. Síðan byrjaði ég að lauma Gérard Grisey að þeim og í kjölfarið fór að hitna í kolunum hjá okkur. Ég setti saman hljómsveit, ef svo má að orði komast, sem var með saxófónleikara, trommara, bassaleikara og svo píanista, sem er ein skærasta vonarstjarna innan frönsku spunasenunnar í notkun á undirbúnu[1] píanói.

Í stað þess að vinna með hljómsveitinni allri samtímis ákvað ég að einbeita mér að einum hljóðfæraleikara í einu. Ég sat með þeim og lærði inn á þeirra spilatækni, þá sérstaklega með píanistanum (sjá dæmi 1), og tók upp alla þá vinnu og tilraunir áður en ég fór svo að skipta mér meira af. Ég byrjaði að fá þá til að útfæra á sinn hátt þau hljóð og hreyfingar sem ég hafði samið fyrir hljóðgervlana. Síðan gerði ég tilbrigði við þá beiðni, tilbrigði eins og að biðja þá að um að framkalla hljóð sem gætu valdið því að hljóðgervlarnir yrðu endurhljómurinn af því sem þeir spiluðu í stað þess að vera sjálfstæð eining. Ég hélt þeirri vinnu áfram og fékk þá meðal annars til að bregðast við ákveðnum hljóðrásum sem spunalistamenn, en ekki öllu laginu í heild sinni. Lét þá spila þau tilbrigði áttund ofar eða áttund neðar, bað þá um að spila með annarri spilatækni og fleiri afbrigðum af þess konar leikstjórn til að framkalla mismunandi viðbrögð frá þeim.

 

Myndband 1: Brot úr vinnustofu með píanóleikaranum Thibault Gomez

 

Ég notaði svo allar þessar upptökur og samdi og formaði upp úr þessum góða og mikla gagnagrunni sem ég var búinn að búa til. Ég tók þannig spunann og skorðaði hann af inn í fast umhverfi. Nú setja eflaust einhverjir spurningarmerki við það að ég hafi skorðað spuna þeirra niður, en í raun var þetta aldrei frjáls spuni. Ég fékk þá í verkefnið til að semja fyrir þá og leikstýra í spunanum til að fá þau hljóð sem ég vildi til að geta búið til minn eigin hljóðheim. Auðvitað fékk ég svo mörg önnur hljóð frá hverjum og einum sem hafði ekki hvarflað að mér að nota í upphafi. Eftir sat ég með gagnabanka af hljóðum. Sum voru rennsli í gegnum heilt lag á meðan aðrar upptökur einblíndu á ákveðinn kafla eða voru bara alveg út í loftið. Það var því mjög mikilvægt að greiða úr, klippa og líma og semja upp úr efninu til að búa til hljóðheiminn sem ég stefndi að í byrjun. Það sem gerðist svo í kjölfarið þótti mér áhugavert. Ég gat sent þeim lögin fullunnin, þeir lærðu spunann sinn sem ég var búinn að hræra í og gátu endurflutt sinn part. Mér hafði tekist að semja hljóð til að semja hljóð og til að flytja hljóð!

---


[1] Átt er við það sem á ensku heitir prepared piano, sem jafnframt mætti kalla hljóðbreytt píanó á íslensku [innskot ritstjórnar]

 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda