Dagana 13.-15. mars dvöldu nemendur á fyrsta ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands á Flúðum og unnu að verkefnum sem öll höfðu skýra tengingu við samfélag og umhverfi staðarins.

Undir lok dvalarinnar stóðu nemendurnir fyrir opnum upplifunarviðburði og buðu gestum að prófa þau verk sem höfðu verið gerð á meðan á dvölinni stóð.
Nemendur hafa frá upphafi árs verið að skoða fjölbreytta baðmenningu víðs vegar að úr heiminum. Á Flúðum löguðu þau rannsóknir sínar að íslenskum aðstæðum og unnu með þann efnivið sem staðurinn bauð uppá.
Verkefnin sem nemendur unnu voru mjög fjölbreytt. Einn hópurinn smíðaði „frumskógargufubað“ úr staðbundnum tómatplöntum og rósum frá ræktendum í Hrunamannahreppi. Verkefnið var innblásið af rússnesku gufubaði og því sem kallast „skógarbað“ (e. forest bathing).
 
Þá fór einn nemandi þá leið að byggja sandsturtu sem gekk útá að nýta hljóðið sem sandurinn gefur frá sér þegar hann fellur á þartilgerða trekt yfir höfði notandans og var tilgangurinn sá að virkja skynfæri og ýta undir núvitund. Annar nemandi bjó til hljóðföng, sem eru eins konar leikföng sem hægt er að leika sér með í vatni og gefa frá sér róandi hljóð.      Tveir nemendur unnu í sameiningu að „Þaradís“ en Þaradísin gengur út á að skapa fjölbreytta upplifun fyrir notendur með þara, þarabaði og þarasmakki.
 
Að lokum má nefna verkefni þar sem innri hreinsun líkamans var skoðuð og þá aðallega útfrá því hvernig nútímamanneskjan hefur hægðir. Með verkinu var ætlunin að benda á að það er ef til vill ekki best fyrir líkamann að sitja á þann hátt sem tíðkast í flestum samfélögum, þ.e. á klósetti. Í raun situr nútímamanneskjan allt of mikið og því stóð nemandinn fyrir sundleikfimitímum á meðan á viðburðinum stóð og vakti fólk þannig til umhugsunar um þessi málefni.
 
Fjöldi fólks mætti á viðburðinn og var sérstaklega ánægjulegt að sjá virka þátttöku unglinga á svæðinu. Bæjarbúar á öllum aldri mættu en auk þess voru nokkrir hópar sem komu frá Reykjavík til að taka þátt í gleðinni.
Nemendurnir eru gríðarlega þakklátir fyrir þær góðu viðtökur sem þau hlutu í  Hrunamannahreppi og þakkar innilega fyrir sig.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá þessum stórskemtilega viðburði: