Laugardaginn 23. mars klukkan 17 opnar sýningin Re-Fresh eftir Sindra Leifsson, verkefnastjóra og stundakennara við myndlistardeild og Völu Sigþrúðar Jónsdóttur í Harbinger, Freyjugötu 1.

Á sýningunni er ferlið Endurnýjun eða “refresh” rannsakað á hversdagslegan og veraldlegan hátt. Hugmyndir um endurnýjun óma nánast allstaðar.  Einn dagur tekur við af öðrum, vetur tekur við af hausti og nýja árið tekur við með áramótaheitum með von um endurnýjun og breytingar. Allt endurtekur og endurnýjar sig. Við endurræsum tölvuna, þvoum þvottinn okkar og ákveðum jafnvel að fasta í þeim tilgangi að hreinsa meltingarfærin svo þau virki eins og ný. Þörfin fyrir að “refresh-a” er manninum eðlislæg - þráin eftir því að byrja uppá nýtt, með óskrifað blað. 

Listamennirnir notast við sítrónur, kusk úr þvottavélum og lyktina af fersku viðarpússi í skúlptúrum sínum og ljósmyndum. Þeir hafa gengið svo langt að slá hvorn annan utan undir til þess eins að sjá húð sína endurnýjast.

Hvar og hvenær er augnablikið þar sem eitthvað er nýtt en hættir því svo og byrjar að vera gamalt? Hvað þarf að eiga sér stað til að það verði aftur nýtt eða þá alveg eins og nýtt?

e65d17a6-dca5-49e2-b2bc-a56732601927.jpg
 

Sindri Leifsson (f. 1988) vinnur með áþreifanleg efni fyrir skúlptúra og innsetningar sem verða jafnan til í gegnum sjónarhorn gjörninga. Hann vekur upp spurningar um alræði vinnunnar og afurðanna sem til verða með áherslu á ferlið sjálft. Sindri Leifsson lauk MFA gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð árið 2013 og BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi og haldið einka- og samsýningar á Íslandi og víðsvegar erlendis.

Vala Sigþrúðar Jónsdóttir (f. 1993) er myndlistarmaður sem býr og vinnur í Reykjavík. Í list sinni veltir hún fyrir sér hvað telst náttúrulegt, og hvort manngerð tækni hafi á einhvern hátt tök á að gera því sem við köllum náttúru skil í máli og myndum. Vala lauk BA gráðu í myndlist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam síðastliðið vor, og lagði áður stund á nám við Textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í sýningahaldi á Íslandi og erlendis, og starfrækir umræðuhópinn Show and Tell.