Með hækkandi sól eykst enn námskeiðsframboð í Opna Listaháskólanum og í mars er um auðugan garð að gresja.
 
Mikil ásókn hefur verið í opnu námskeiðin sem deildirnar bjóða upp á í vor og er það svo að tvö af þeim námskeiðum sem hefjast í mars eru fyrir margt löngu orðin fullbókuð. Þetta eru námskeiðin Ritsmiðjan- Myndmál úr myndlistardeild og Listmeðferð í námi I úr listkennsludeild sem eru uppbókuð og því miður er ekki hægt að bæta við nemendum á biðlista.
 
Enn eru laus nokkur pláss á eftirfarandi námskeið sem hefjast í seinni hluta marsmánaðar:
 

Hlutverk og möguleikar dansins

Fim. 21. mars - fim. 4. apríl. Fim. og mán. kl. 13- 15.50. (5 skipti)
 
Í námskeiðinu kynnast nemendur aðferðum og hugmyndum sem byggja á skapandi aðferðum danslistarinnar og möguleikum þeirra í kennslu og sköpun. Tvær megináherslur verða í námskeiðinu. Í fyrsta lagi verða mismunandi aðferðir danssköpunar og spuna rannsakaðar á verklegan hátt ásamt því hvernig nemendur geta nýtt sér þær í eigin vinnu. Í öðru lagi verða fyrirlestrar og umræður um möguleika danslistarinnar í samfélagslegu og pólitísku samhengi út frá ákveðnum verkum, innlendum sem og erlendum.
 
Kennari er Ásgerður Gunnarsdóttir, lektor í sviðslistafræðum við sviðslistadeild.
 
mynd_af_asgerdi.jpg
 
Ásgerður starfar einnig sem dramatúrg, er einn tveggja listrænna stjórnenda Reykjavík Dance Festival og The Festival og var meðstofnandi og stjórnandi sviðlistahátíðarinnar artFart. Af akademískum störfum Ásgerðar má nefna að hún hefur kennt sviðslistafræði við Listaháskólann frá árinu 2013 og verið aðjúnkt og fagstjóri fræða við sviðslistadeild skólans frá hausti 2015. Auk kennslunnar hefur Ásgerður sem fagstjóri komið að stefnumótun og uppbyggingu náms við sviðslistadeild.
 
Ásgerður hefur lokið meistaragráðu í dans- og leikhúsfræði frá Háskólanum í Utrecht, meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands, BA gráðu í fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og diplómanámi í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands.
 
 

Læsi I

Fös. 22. mars- 12. apríl kl. 9.20-12.10 (4 skipti)
 
Markmið námskeiðsins Læsi I er að stuðla að því að þátttakendur öðlist skilning á læsi í víðum skilningi, ekki síst með hliðsjón af kennslu og miðlun.
 
Nemendur bera einnig saman hefðbundið læsi og nýlæsi (miðlalæsi, víðlæsi, myndlæsi) og velta því fyrir sér hvers eðlis hið síðarnefnda sé og hver þáttur þess geti verið í námi og starfi.
 
Nemendur munu glíma við hugtökin læsi, sköpun og samskipti með tilliti til merkingar, túlkunar og skilnings. Ennfremur verða skoðuð tengsl hugsunar og læsis einkum með hliðsjón af skapandi og gagnrýninni hugsun.
 
Kennari er Ingimar Ólafsson Waage, aðjúnkt og starfandi fagstjóri sjónlista í listkennsludeild, myndlistamaður og er einnig með M.Ed í heimspeki menntunar frá Háskóla Íslands.
 
 

Sviðslistir fyrir kennara ungra barna

Fim. 28. mars - 6. apríl (4 skipti)
 
Námskeiðið Sviðslistir fyrir kennara ungra barna hentar þeim sem starfa eða hafa hug á að starfa með börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskóla. Valnámskeið í meistaranámi í listkennslu.
 
Kynntar verða nokkrar leiðir til þess að vinna á skapandi hátt að þverfaglegum verkefnum tengdum sviðslistum með börnum í leikskóla og yngsta stigi grunnskóla. Áhersla er lögð á listrænar tilraunir og verkefni sem reyna á sjálfstæði og virkni þátttakenda. Námskeiðið byggir á verkefna- og hópvinnu.
 
Kennari er Vigdís Gunnarsdóttir, aðjúnkt. Vigdís útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1993 og starfaði sem leikkona hjá Þjóðleikhúsinu fram til ársins 2003. Hún lauk meistaranámi í skrifum og leikstjórn fyrir sjónvarp frá Golsmiths College, University of London, árið 2002 og diplómanámi í listkennslu frá listkennsludeild LHÍ árið 2013.
 
vigdis_gunnarsdottir.jpg
 
Nýverið tók Vigdís við starfi fagstjóra sviðslista við listkennsludeildina. Samhliða kennslu við listkennsludeildina starfar Vigdís sem leiklistarkennari við leiklistardeild Fjölbrautarskólans í Garðabæ auk þess sem hún vinnur “freelance" sem leikkona.