María Heba Þorkelsdóttir, leikkona og listgreinakennari, er alumni frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands.
 
 
„Ég lauk BA námi í bókmenntafræði frá HÍ haustið ´99 á sama tíma og ég hóf nám við Leiklistarskóla Íslands sem þá var og hét. Haustið 2000 var Leiklistarskólinn settur undir hatt LHÍ og breyttist við það í leiklistardeild þaðan sem ég útskrifaðist með BFA gráðu eftir fjögurra ára nám, vorið 2003. 2011 fór ég svo í listkennsluna í LHÍ og útskrifaðist með diploma á masterstigi 2012.“
 
María Heba hef verið sjálfstætt starfandi leikhúslistakona frá því að hún útskrifaðist frá leiklistardeildinni 2003. Hvað varð til þess að hún ákvað að fara í listkennslu í LHÍ?
 
„Mig langaði að bæta við mig kennsluréttindum, ég nýt þess mjög að kenna og á þessum tíma var ég að hugsa um að hætta alfarið að stunda leiklist. Í raun ætlaði ég að fara í kennslufræði námið í HÍ en á allra síðustu stundu snerist mér hugur og ég ákvað að taka listkennsluna í LHÍ. Ástæðan fyrir því að ég valdi LHÍ var einfaldlega sú að ég hafði reynslu af báðum skólum og ég valdi þann skóla sem mér fannst skemmtilegri og þar af leiðandi gagnlegri,“ segir María Heba en henni líkaði dvölin í listkennsludeildinni alveg stórvel. 
 
„Þar kynntist ég fullt af frábæru fólki, bæði í röðum nemenda og kennara sem voru og eru að gera alveg ótrúlega flotta og spennandi hluti. Ég eignaðist nokkra mjög góða vini í náminu sem ég held reglulega sambandi við og hef unnið með einhverjum þeirra bæði við leiklist og eins kennslu.“
 
Hvað fórstu að fást við eftir útskrift?
 
„Ég hef bæði verið að leika á sviði og í sjónvarpi og kvikmyndum og eins hef ég fengist við kennslu á grunnskóla, framhaldsskóla og háskólastigi.“