Íslensku myndlistarverðlaunin voru afhent í annað sinn við hátíðlega athöfn í Iðnó. Eygló Harðardóttir var valin myndlistarmaður ársins og Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut hvatningarverðlaun ársins.

Eygló var tilnefnd til verðlaunanna fyrir einkasýningu sína í Nýlistasafninu, Annað rými og Leifur var tilefndur fyrir einkasýningu sína í D-sal Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur, Handrit.

Eygló Harðardóttir hefur starfað sem stundakennari við myndlistardeild Listaháskóla Íslands um árabil. Á meðal síðastliðinna námskeiða má nefna Flöt skúlptúrsins þar sem málverkið var kannað sem þrívíður skúlptúr og Teikningu þar sem unnið var með miðilinn frá ýmsum sjónarhornum.

Leifur Ýmir Eyjólfsson stýrði prentvinnustofu í byrjun vorannar fyrir nemendur allra deilda skólans þar sem unnið var út frá mismunandi prentaðferðum. Prentmiðillinn teygði þar anga sína út fyrir pappírinn og yfir í rýmið.

Við óskum Eygló og Leifi innilega til hamingju með verðlaunin.