Sigrún Alba Sigurðardóttir, starfandi deildarforseti Hönnunar- og arkitektúrdeildar, var kosin í stjórn CIRRUS á ársfundi samtakana í Bergen þann 15. febrúar síðastliðinn.

Ásamt Sigrúnu Ölbu voru þau Kristjan Mandmaa sviðsforseti við Listakademíuna í Tallinn, Martin S. Christensen deildarforseti við KADK í Kaupmannahöfn, Maria Göransdotter hönnunarsagnfræðingur við Háskólann í Umeå og Lone Dalsgaard André aðstoðarrektor við Hönnunarháskólann í Kolding í Danmörku kosin í stjórn samtakana.
 
CIRRUS eru samtök og samráðsvettvangur listaháskóla á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum sem kenna hönnun. CIRRUS samtökin hafa það að markmiði að efla samtal um kennslu í hönnun á háskólastigi og auka möguleika bæði nemenda og kennara á að heimsækja skóla og sækja námskeið í öðrum aðildarskólum. Á hverju ári hittast stjórnendur allra skólanna, deila reynslu og bera saman bækur sínar en auk þess eru árlega haldnir fundir og námskeið fyrir kennara og alþjóðafulltrúa í þeim skólum sem eiga aðild að samtökunum.
 
Ársfundur samtakana var haldin í Bergen dagana 14. – 15. febrúar í nýju og glæsilegu húsnæði háskólans sem hannað er af Snöhettan arkitektum. Hönnunardeild skólans hefur nýlega sameinast Myndlistardeild og Tónlistardeild skólans undir einu sviði sem heyrir undir Háskólann í Bergen. Nánari upplýsingar um þetta nýja svið sem kallar á nýjar leiðir í samstarfi má sjá hér: https://kmd.uib.no/en/frontpage
 
Auk Sigrúnar Ölbu sóttu þær Alma Ragnarsdóttir forstöðumaður alþjóðasviðs, Lóa Auðunsdóttir lektor í grafískri hönnun og Birna Geirfinnsdóttir lektor og fagstjóri í grafískri hönnun, ársfundinn. Á fundinum var lögð áhersla á að ræða mörk hins stafræna og hins líkamlega og hvernig þetta tvennt fléttast saman. Þá var fjallað um helstu áskoranir í hönnunarnámi í samtímanum, hvernig fagleg þekking og þverfaglegar áherslur tvinnast saman í hönnunarnámi í ólíkum skólum og hvernig þróa megi kennsluaðferðir. Einnig var rætt um inntak alþjóðavæðingar og hvernig auka megi möguleika nemenda í aðildaskólunum á að taka þátt í stamstarfsnámskeiðum og stuttum hraðnámskeiðum í öðrum skólum. Í Listaháskóla Íslands hefur verið lögð mikil áhersla á að auka möguleika nemenda á að taka þátt í slíkum samstarfsnámskeiðum og gera nemendum úr öðrum skólum innan CIRRUS mögulegt að sækja einstök námskeið í LHÍ. Núna í vor munu til dæmis gestanemendur á námsbraut í fatahönnun taka þátt í námskeiði sem fjallar um sjálfbærni í tískuhönnun og í apríl tekur Listaháskólinn á móti nemendum úr CIRRUS samstarfsskólum sem munu taka þátt í námskeiðinu Together ásamt öllum nemendum á 2. ári í Hönnunar- og arkitektúrdeild. Námskeiðið Together fjallar um þverfaglegt samstarf og möguleika hönnuða á að hafa áhrif út í samfélagið, það verður því gagnlegt fyrir nemendur LHÍ að kynnast sjónarhorni erlendra nemenda á viðfagnsefni námskeiðsins.  
 
Nánari upplýsingar um CIRRUS má finna hér: https://cirrus.artun.ee/