Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýning á þrettán tillögum sem bárust í samkeppni um útilistaverk í Vogabyggð.

Sigurtillagan, Pálmatré, eftir Karin Sander er þar til sýnis auk Endalausa ljósastaursins, eftir A Kassen, en dómnefndin lagði til að Reykjavíkurborg festi kaup á því verki einnig. Það verður hægt að skoða tillögurnar í samkeppninni fyrir Vogabyggð fram yfir helgi á Kjarvalsstöðum.

Carl Boutard lektor við myndlistardeild og Finnbogi Pétursson og Elín Hansdóttir stundakennarar til margra ára við myndlistardeild voru valin til þess að vinna áfram sínar tillögur. Einnig má geta þess að sæti í dómnefnd áttu Ólöf Nordal dósent við myndlistardeild og Ragnhildur Stefánsdóttir, umsjónarmaður mótunarverkstæðis myndlistardeildar.

Við fögnum því að vel og faglega hafi verið staðið að þessari samkeppni og óskum Karin Sander og landsmönnum öllum til hamingju með vinningstillöguna. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur.