Harpa Ósk Björnsdóttir, nemi við söngbraut LHÍ, var valin Rödd ársins í söngkeppninni Vox Domini sem fram fór í Salnum í Kópavogi í gær, sunnudaginn 27. janúar 2019. Að auki hlaut hún áhorfendaverðlaunin og hneppti fyrsta sætið í Háskólaflokki en verðlaun eru veitt í þremur flokkum; Framhaldsflokki og Opnum flokki auk Háskólaflokks.

Um Vox Domini

Vox Domini var haldin í þriðja skiptið í ár en að baki keppninni stendur FÍS, Félag íslenskra söngkennara. Keppnin í ár fór fram dagana 25. - 27. janúar en Vox Domini er ætluð söngvurum sem stundað hafa nám í íslenskum tónlistarskólum, bæði lengra komnum söngvurum, sem eru að feta sín fyrstu spor á söngferlinum sem og nemendum sem hafa lokið miðstigi.

Dómnefndin í ár var skipuð ítalska  píanóleikaranum og raddþjálfaranum Alessandro Misciasci, hinum virta söngkennara David Jones, óperusöngvaranum Elmari Gilbertssyni, bandarísku söngkonunni Katherine Johnson og Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, óperustjóra. 

Um Hörpu Ósk

Harpa Ósk Björnsdóttir stundar nám við söngbraut LHÍ hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni og Hönnu Dóru Sturludóttur. Hún var einn fjögurra sigurvegara í einleikarakeppninni Ungir einleikarar 2019 og kom af því tilefni fram á tónleikunum Ungir einleikarar sem fram fóru í Eldborg, Hörpu 17. janúar 2019. Þar söng hún aríur eftir Gustave Charpentier, W. A. Mozart og Leonard Bernstein ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ligiu Amadio. Tónleikunum verður útvarpað á Rás 1, 25. apríl næstkomandi, á sumardaginn fyrsta.

Verðlaun fyrir sigurinn í Vox Domini felst auk heiðurs og nafnbótar í margvíslegu tónleikahaldi og masterklössum. 

LHÍ óskar verðlaunahöfum og þátttakendum öllum hjartanlega til hamingju með árangurinn í glæsilegri keppni.