Sölvi Kristjánsson, sem lauk MA námi frá Listaháskóla Íslands vorið 2017, er ásamt samstarfsfólki sínu hjá hönnunarstofunni Studio Portland, fulltrúi Íslands í norrænni hönnunarsamkeppni þar sem hanna átti stól með sjálfbærni að leiðarljósi. Stóllinn sem Sölvi hannaði ber nafnið Kollhrif og er búinn til úr sprittkertastjökum úr áli og endurunnum korki.

Umrædd keppni, titluð Nordic Design Competition: Sustainable Chairs, sem norræna ráðherranefndin stendur á fyrir, hafði það að markmiði að auka almenna vitund á framleiðslu umhverfisvænna húsgagna innan Norðurlandanna. Hvert Norðurlandanna gat tilefnt allt að tíu stóla og eftir að dómnefnd fór yfir innsendar tillögur fækkaði stólunum niður í fimm, þannig að hvert Norðurland átti einn stól í keppninni. Þeir fimm hönnuðir sem komust í úrslit, munu sýna verk sín á sjálfbærnisýningu í norræna skálanum á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Katowice í Póllandi nú í desember. Við sama tilefni verður sigurvegari keppninnar tilkynntur. Vinningsstóllinn verður svo til sýnis í Werck hönnunargalleríinu í Kaupmannahöfn í eitt ár og að auki verður vakin athygli á stólnum og hönnuði hans í alþjóðlegri kynningaráætlun norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbærni.

Í umsóknarlýsingu frá norrænu ráðherranefndinni segir meðal annars:
„Í framtíðinni þurfum við að draga úr neyslu, framleiða minna – hugsa í hringrásum, framleiða á heildrænni hátt og sýna meiri tillitssemi. Algjörlega sjálfbær framleiðsla er afar flókið fyrirbæri – allt frá því hvernig afla skal efnis, framleiða vöruna, dreifa henni, nota hana og hvað skal gera við hana eftir að notkun lýkur.” 

Kollhrif Sölva Kristjánssonar er kollur gerður úr endurunnum korki og áli sem hefur verið unnið úr 14.400 uppbrunnum sprittkertum. Hugmyndin með hönnun hans var að auka meðvitund Íslendinga um endurvinnslu á áli hérlendis.

Sölvi Kristjánsson er með BA próf í vöruhönnun frá IED í Mílanó og MA í hönnun frá Listaháskóla Íslands. Um hönnun Sölva og starfsemi Studio Portlands má lesa á heimasíðu hönnunarstofunnar: https://www.studioportland.is/

Það verður spennandi að fylgjast með úrslitum hönnunarsamkeppninnar en loftlagsráðstefnan fer fram dagana 2. – 14. desember næstkomandi. Listaháskólinn óskar Sölva og Studio Portland góðs gengis í Katowice og sömuleiðis til hamingju með góðan árangur.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá þá fimm stóla sem eru í úrslitum Nordic Design Competition: Sustainable Chairs, myndir fengnar af https://www.dezeen.com/2018/11/11/sustainable-nordic-chair-competition-d...