Anna Pálína Baldursdóttir nemandi á 2. ári í grafískri hönnun stóð uppi sem sigurvegari í Hönnunarsamkeppni Krabbameinsfélagsins. Sokkar með hönnun hennar verða því fjöldaframleiddir og seldir í Mottumarsinum 2019, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins í þágu karlmanna og krabbameina.
 
Í 2. sæti voru þau Helena Ósk Óskarsdóttir, Katrín Heiðar, Stefán Ari Björnsson og Svava Ragnarsdóttir nemendur á 1. ári í arkitektúr og í 3. sæti var Freyja Maria Cabrera nemandi á 1. ári í grafískri hönnun.
 
Samkeppni um hönnun Mottumarssokkanna er samstarf Krabbameinsfélags Íslands og hönnunar- og arkítektúrdeildar Listaháskóla Íslands.
Dómnefnd var skipuð þeim Evu Maríu Árnadóttur verkefnastjóra og aðjúnkt við námsbraut í fatahönnun LHÍ, Guðmundi Pálssyni, vefstjóra Krabbameinsfélagsins og Kolbrúnu Silju Ásgeirsdóttur, fjáröflunarstjóra félagsins.
 
Mikil ánægja var með fjölda þáttakenda en það voru yfir 50 tillögur sendar inn í keppnina. Mikil gæði voru á tillögunum sem voru margar hverjar virkilega skemmtilegar og vel úthugsaðar.
 
Engin peningaverðlaun eru í boði fyrir vinningstillöguna, en höfundur verður nafngreindur á umbúðum sokkanna.
 
Hönnun sokkanna verður ekki opinberuð fyrr en við upphaf Mottumars 2019 og verður spennandi að sjá útkomuna.
 
Við notum tækifærið og þökkum öllum þeim sem tóku þátt í keppninni kærlega fyrir og óskum sigurvegurunum til hamingju!