Guðbjartur Hákonarson, fiðluleikari, Harpa Ósk Björnsdóttir, söngkona, Hjörtur Páll Eggertsson, sellóleikari og Silja Elsabet Brynjarsdóttir, söngkona, báru sigur úr býtum í keppninni Ungir einleikarar 2019 sem fram fór í Kaldalóni Hörpu, dagana 26. og 27. október 2018.

Þau munu koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn hinnar brasilísku Ligiu Amadio á tónleikum sem haldnir verða 17. janúar 2019 í Eldborg, Hörpu.

Keppni haldin árlega frá 2004

Fimmtán ungir tónlistarmenn tóku að þessu sinni þátt í keppninni Ungir einleikarar sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2004 og veitt fjölmörgum músíköntum færi á að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Keppnin er haldin af Listaháskóla Íslands í samvinnu við Sinfóníuhljómsveitina.

Dómnefnd var að þessu sinni skipuð Árna Heimi Ingólfssyni, Daða Kolbeinssyni, Signýju Sæmundsdóttur, Sigurði Bjarka Gunnarssyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur.

Öll í BA-námi í tónlist

Sigurvegararnir fjórir eru öll í BA-námi í tónlist, hérlendis og erlendis. Guðbjartur Hákonarson (f. 1994) stundar tónlistarnám hjá Mauricio Fuks við Jacobs School of Music, Indiana University. Hjörtur Páll Eggertsson (f. 1998) er í námi hjá Morton Zeuthen við Det Kongelige Danske Musikkonservaotrium.

Silja Elsabet Brynjarsdóttir (f. 1991) hjá Alex Ashworth við The Royal Academy of Music og Harpa Ósk Björnsdóttir (f. 1994) er nemi á söngbraut Tónlistardeildar LHÍ hjá Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Hönnu Dóru Sturludóttur.

Fjölbreytt og spennandi efnisskrá

Fjölbreytt tónlist mun hljóma á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar 17. janúar næstkomandi. Sellókonsert Elgars, Fiðlukonsert Síbelíusar, aríur og sönglög eftir Mozart, Bernstein, Charpentier, Bizet, Mahler og Sibelius.

Sigurvegurum keppninnar eru sendar hjartans hamingjuóskir og öllum þátttakendum færðar þakkir fyrir glæsilega frammistöðu.