Hrefna Björg Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir hafa verið ráðnar gestaprófessorar við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

Hrefna Björg Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir eru nýráðnir gestaprófessorar á námsbraut í arkitektúr við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og munu gegna því starfi á yfirstandandi skólaári. Þær hafa um langt skeið starfað sem stundarkennarar við deildina og var Hólmfríður fyrsti fagstjóri námsbrautar í arkitektúr. Þær Hrefna og Hólmfríður hafa á undanförnum árum kennt lykilnámskeið fyrir nemendur á fyrsta ári í arkitektúr og átt þátt í að móta þá aðferðarfræði sem lögð eru til grundvallar í náminu.

Hrefna og Hólmfríður útskrifuðust báðar frá Arkitektshögskolen í Osló vorið 1994 og stofnuðu í kjölfarið arkitektastofuna Arkibúlluna. Þær hafa starfað saman alla tíð síðan og hafa á undanförnum árum látið til sín taka á bæði innlendum og erlendum vettvangi, unnið til verðlauna fyrir verk sín en rannsóknir gegna lykilhlutverki í sköpunarferli þeirra.

Meðal verkefna þeirra eru: þjónustuhúsið í Nauthólsvík frá árinu 2001, þjónustubygging og sáluhlið við Gufuneskirkjugarð frá árunum 2008 og 2014 og orlofshús í Brekkskógi frá árinu 2012. Þessi þrjú verkefni voru öll tilnefnd til Menningarverðlauna DV, auk þess sem þjónustuhúsið í Nauthólsvík var tilnefnt til evrópsku arkitektaverðlaunanna, sem kennd eru við Mies van der Rohe. 

Hólmfríður og Hrefna hafa lagt mikla áherslu á rannsóknir í verkefnum sínum og verkefnin mótast gjarnan af rannsókn á samfélagslegum, listrænum eða fræðilegum álitamálum. Áhrif náttúru, umhverfis, sögu og samfélags á mótun bygginga eru þungamiðja í starfi þeirra sem arkitekta en vinnan við hvert verkefni hefst með rannsókn á fyrrnefndum þáttum. Rannsóknin er því aflvaki í vinnu þeirra, allt frá frumdrögum til fullmótaðs mannvirkis. 
Dæmi um stórt rannsóknarverkefni sem þær hafa unnið að er rannsókn á Ofanleitiskapellu Högnu Sigurðardóttur, en afrakstur þeirrar vinnu mátti meðal annars sjá á sýningu í Norræna húsinu árið 2013.

Arkibúllan hefur þrjátíu sinnum tekið þátt í samkeppni og þrettán sinnum komist í verðlaunasæti. Hrefna og Hólmfríður segja samkeppni vera vettvang til að rannsaka og þróa hugmyndir þar sem ólík rannsóknarefni og aðferðir leiða til mögulegrar nýsköpunar í arkitektúr. Þær segja arkitektúr fjalla um hvernig hið byggða fellur að umhverfi og samfélagi og endurspegla samband mannsins við rými og tíma. Um leið fjalli arkitektúr um anda staðarins og „veruleikann bak við veruleikann”.

Hönnunar- og arkitektúrdeild fagnar því mjög að fá þær Hrefnu Björgu og Hólmfríði til starfa og býður þær velkomnar.

Heimasíða Arkibúllunar: https://www.aarkitektar.is/
 
 

Forsíðumynd: Ivan Jones