Magnús Dagur Sævarsson útskrifaðist frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands í júní 2018.
 
Ásamt því að vera listgreinakennari er Dagur myndlistar- og tónlistarmaður og hóf störf í Garðaskóla í haust þar sem hann kennir einmitt myndlist og tónlist.
 
 

Eflir siðferðisþroska, víðsýni og lýðræðislega hugsun

 
Verkefnið, sem hann kynnti meðal annars á Menntakviku Háskóla Íslands nýverið, byggðist á því að skoða hvað felst í hugtakinu myndlæsi og hvað það hefur upp á að bjóða fyrir menntun.
 
„Í stuttu máli er myndlæsi sú færni í að draga merkingu eða þekkingu frá myndum og geta tjáð sig myndrænt,“ segir Dagur sem útbjó námsefni og prufaði með nemendum.
 
screen_shot_2018-10-23_at_13.02.19.png
 
„Niðurstöður mínar voru í grófum dráttum að myndlæsiskennsla getur aukið leikni nemenda í öllu verklegum þáttum myndlistar. Einnig tel ég að myndlæsiskennsla sé gagnleg leið til þess að efla siðferðisþroska, víðsýni og lýðræðislega hugsun nemenda.“
 
Sjálfur varð hann, á unga aldri, fyrir listrænum hughrifum sem vísuðu honum veginn varðandi val á menntun.
 

Skrítnir og óskiljanlegir listamenn    

„Þegar ég var yngri fór pabbi minn með mig á útskriftarsýningu hjá Listaháskólanum,“ segir Dagur sem segist hafa haft einhverja óljósa hugmynd um að allir listamenn væru skrítnir og óskiljanlegir. „Hins vegar heillaðist ég alveg á þessari sýningu og þegar það kom að því að velja menntaskóla var Fjölbraut í Breiðholti fyrir valinu því þar var listabraut. Þar byrjaði ég í hljómsveitinni Sudden Weather Change en við vorum mjög virkir í nokkur ár.“
 

Leikskólinn kveikti kennsluáhugann

Eftir fjölbraut lá leiðin í LHÍ þar lauk sem Dagur lauk bakkalárgráðu í myndlist árið 2010. „Tveim árum eftir útskrift fannst mér mig vanta ákveðna tæknilega færni í teikningu svo ég fór í Myndlistarskóla Reykjavíkur að læra teikningu. Það reyndist mér mjög gagnlegt og ánægjulegt. Með fram námi hef ég unnið mikið á leikskólum en þar fékk ég fyrst áhuga á menntun.“
 
magnus_dagur_mynd.png
 
„Þegar ég byrjaði á vinna á leikskólanum í hverfinu mínu fann ég fljótlega að kennsla átti vel við mig. Ég hef mikinn áhuga að hjálpa fólki og miðla. Einhvern veginn bjóst ég alltaf við að einn daginn mundi ég verða kennari,“ segir Dagur og bætir við „Ég hafði heyrt góða hluti um námið hér og fannst áhugavert að blanda saman listrænum áhuga og reynslu mínum við kennslufræði.“
 
Aðspurður segist Dagur hafa jákvæða upplifun af tíma sínum sem nemandi í listkennsludeild LHÍ. „Það er mín upplifun að allir kennara sem starfa innan deildarinnar hafa mikinn áhuga á náminu og deildinni. Ég fann fyrir að kennarar sem starfa þar trúa virkilega á okkur. Einnig finnst mér námið vera miklu meira en bara að læra að vera kennari. Það er mín tilfinning að námið hefur ekki bara gert mig að betri kennara heldur líka betri manneskju.“
 

Bjartar sveiflur

 

screen_shot_2018-10-25_at_09.56.13.png
Mynd: Magnús Andersen
 
Ásamt kennslu og myndlistarverkefnum, en Dagur myndskreytir til dæmis kennslubækur, er hann einnig meðlimur í hljómsveitinni Bjartar sveiflur sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið fyrir skemmtilegar útgáfur af þekktum dægurlögum. Hér má sjá myndband af heimsókn hljómsveitarinnar í Stúdíó 12 í RÚV á dögunum.
 
Dagur leikur á gítar í hljómsveitinni sem gaf út rafræna EP plötu með ábreiðum af vinsælum íslenskum lögum 24. október síðastliðinn. 
 
screen_shot_2018-10-25_at_13.54.43.png
Mynd: Hörður Sveinsson