Kvika - 1. tbl. 
8.október 2018

208 ósvaraðar spurningar
Höfundur: Steinunn Knútsdóttir

Hugleiðing um birtingamynd Kaþarsis í þátttökusviðslist samtímans

 

Flestar sviðslistasýningar vekja hughrif sem eru ekki aðeins ætluð vitsmununum heldur öllum skilningarvitunum. Í einni og sömu sýningunni eru notuð margvísleg meðul sem hafa ólíka verkun á upplifun áhorfenda. Vegna eðlis formsins er hægt að stilla upp viðfangsefni á vitsmunalegan, andlegan, sálfræðilegan og líkamlegan hátt í marglaga framsetningu.
Í hefðbundinni leiksýningu upplifir áhorfandinn gjarnan samsömun við persónur á sviðinu sem í heimi verksins ganga í gegnum ákveðna reynslu sem áhorfandinn tengir við. Samsömunin verður til fyrir tilstilli allra þeirra hughrifa sem sýningin byggir á, en ástand áhorfanda og hans samhengi mun þó alltaf hafa áhrif á upplifun hans og ræður því hvernig hann meðtekur verkið og boðskap þess.

Í þátttökusviðslist eða upplifunarsviðslist (e. immersive theatre) sem hverfist um þátttöku og upplifun áhorfandans eða þátttakandans er verið að gera persónulega reynslu hvers og eins að hinum eiginlega efniviði verksins. Forsenda þess að verkið virki er að þátttakandinn gefi sig á vald sýningunni og hafi hugrekki til að sækja persónulega reynslu sína og hleypa henni inn í upplifun sína í verkinu. Ef þátttakandinn gengst við þessu þá verður hann órjúfanlegur hluti af verkinu. Verkið fjallar þá beinlínis um þátttakandann.

"Þegar stúlkan tók í hendina á mér og byrjaði að spyrja mig spurninga þá tók hjartað á mér kipp. Spurningarnar fóru beint inn í kviku og ég grét hljóðlega allan tímann. Þegar ég fór inn í salinn þá fannst mér ég vera í aðalhlutverki - sýningin fjallaði um mig. Mér fannst til dæmis ég hafa getað verið höfundurinn að mörgum ástarbréfanna sem voru lesin upp. Sýningin rótaði mjög uppí mér, ég flýtti mér heim þegar sýningunni var lokið svo ég fengi næði til að melta þetta í einrúmi og í marga daga poppaði sýningin upp í hausnum á mér. Þetta var ótrúleg upplifun, svolítið eins og skilvinda – í gegnum þessa reynslu sá ég sjálfa mig svo skýrt í þessum aðstæðum." (50 ára nýfráskilin kona um „Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, hvar er Guð?“).

Ég hef áhuga á að skoða hvernig upplifun áhorfenda eða þátttakenda getur komið af stað einskonar hreinsun eða κάθαρσις sem hjálpar þeim að horfast í augu við eigin örlög og öðlast þannig vald á eigin aðstæðum að þeir nái að breyta hlutum í eigin lífi til batnaðar. Mig langar sérstaklega að skoða þátttökusviðslist eða upplifunarsviðslist í þessu samhengi.

Fyrsti kafli þeirrar vegferðar er að opna þennan víða efnivið með því að stilla upp spurningum sem varða grundvallandi þætti sviðslistanna og verður það gert í þessari grein.

Hér verður leitast við að opna efniviðinn frekar en að komast að niðurstöðu.

Á síðari stigum rannsóknar minnar mun ég leitast við að svara einhverjum þessara spurninga í gegnum ólíka miðla ss. listsköpun, greinarskrif og fyrirlestra.

aa.h.e._v.jpg
Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, Borgarleikhúsinu.

Útgangspunktur minn að þessu sinni eru hugleiðingar sem leituðu á mig við vinnslu tveggja verka sem ég er höfundur að og lúta að grundvallarþáttum sviðslistanna, væntingum listamannsins og „áhorfandans“ til þess sem fram fer á „sviðinu“. Bæði þessi verk má skilgreina sem upplifunarverk sem gera þátttakandann að aðalpersónu en helsti efniviður verkanna er líf og reynsla gestanna sjálfra.

Fyrra verkið er Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, hvar er Guð? í sviðssetningu Áhugaleikhúss atvinnumanna og var framkvæmt í Borgarleikhúsinu haustið 2015 á dagskrá sviðslistahátíðarinnar Everybody´s Spectacular. Megin efniviður sýningarinnar eru nafnlaus ástarbréf og spurningar sem bornar voru fram af börnum við gesti sýningarinnar í einrúmi og lutu að reynslu gestanna af ást og missi. Form verksins tók mið af helgiathöfn.

Síðara verkið, Síðasta kvöldmáltíðin var fyrst framkvæmt í bænum Cirava í Lettlandi á vegum New Theatre Institute of Latvia 2016 og má flokka sem samfélagsverk þar sem unnið er með frásagnir bæjarbúa af lífinu á staðnum og fjallaði um lífsgæði. Verkið var síðar framkvæmt á fjórum stöðum á Íslandi, á Raufarhöfn, á Höfn í Hornafirði, í Bolungarvík og Keflavík í apríl 2017. Í verkinu er gesturinn leiddur í einsemd í gegnum 14 stöðvar þar sem hann stendur andspænis spurningum um grunnþætti mannlegrar tilveru, á hverjum stað þarf hann að framkvæma táknrænar gjörðir og er að lokum leiddur inn í sviðssetningu sinnar eigin síðustu kvöldmáltíðar. Í kjarna beggja verka liggja áleitnar spurningar um viðfangsefni verkanna sem gestinum er boðið að svara fyrir sjálfan sig.

img_11731-1024x682.jpg
Siðasta Kvöldmáltíðin, Cirava, Lettland.

 

Ég tók saman 208 spurningar sem kviknuðu við gerð þessar verka og gefst hér lesandanum færi á að svara þeim út frá eigin reynsluheimi; spurningarnar lúta að sviðslistinni sjálfri, samtímanum, sviðslistamanninum, þátttakandanum, efniviðnum og Kaþarsis.

Ég kalla eftirfarandi spurningalista þátttökuverk.

Hvernig getur upplifunarsviðslist verið mannbætandi reynsla?

Þátttökuverk

1.      Hvert er hlutverk sviðslistanna í samfélaginu?

2.            Er sviðslistanna að hreyfa við fólki?
3.            Er sviðslistanna að hreyfa fólk?

4.            Er sviðslistanna að breyta heiminum?
5.            Er sviðslistanna að bæta heiminn?

6.            Er sviðslistanna að hjálpa fólki að sætta sig við heiminn?

7.            Er sviðslistanna að vekja fólk?
8.            Er sviðslistanna að svæfa fólk?
9.            Er sviðslistanna að hjálpa fólki að gleyma?
10.          Er sviðslistanna að hjálpa fólki að muna?

11.          Er sviðslistanna að fræða fólk?
12.          Er sviðslistanna að gera eitthvað fyrir fólk?
13.          Er sviðslistanna að gera eitthvað með fólki?

14.         Er sviðslistanna að veita fólki möguleika á andlegri og félagslegri hreinsun?

15.    Sem áhorfandi, hversu opinn ertu fyrir því að láta sýningu hafa áhrif á
         heimsmynd þína?
16.    Sem áhorfandi, hversu líklegt er að þú breytir hegðun þinni vegna áhrifa
         sviðslistaverks?
17.    Sem áhorfandi, hversu tilbúinn ertu að sjá sjálfa/n þig sem aðalpersónu
         sviðslistaverks?

18.    Sem sviðslistamaður, setur þú þig í spor áhorfandans í sköpunarferlinu?
19.    Sem sviðslistamaður, veistu fyrir hvern þú ert að skapa?
20.    Sem sviðslistamaður, spáir þú í hvaða samhengi
          þú talar inn í með listsköpun þinni?

21.     Hvað gerir sviðslist að sviðslist?

22.             Hvernig eru sviðslistir ólíkar öðrum listgreinum?
23.                          Er eðlismunur á listgreinunum?
24.                          Hvað fæst með því að aðgreina listgreinarnar?

25.            Væri hægt að gefa hverskonar upplifun formerkið „sviðslist“?
26.                    Hvenær getur tvívíð mynd talist sviðslist?
27.                     Hvenær getur kvikmynd talist sviðslist?
28.                    Hvenær getur hversdagleg upplifun talist sviðslist?

29.                     Hvað gerist þegar sviðslistaverk er flutt á íþróttaleikvangi?
30.                      Hvað gerist þegar sviðslistaverk er flutt heima hjá þér?
31.                      Hvað gerist þegar sviðslistaverk er flutt á sjúkrahúsi?

32.                    Hver er munurinn á stjórnmálasamkomu og sviðslistagjörningi?
33.                     Hver er munurinn á fyrirlestri og sviðslistagjörningi?
34.                    Hver er munurinn á helgiathöfn og sviðslistagjörningi?
35.                     Hver er munurinn á íþróttaviðburði og sviðslistagjörningi?
36.                    Hver er munurinn á fjölskylduveislu og sviðslistagjörningi?

37.           Hvað gerist þegar fjórði veggurinn fellur í leikhúsinu?

38.           Er eðlismunur á sviðslistaverki og þátttökuverki eða upplifunarverki?

39.     Sem áhorfandi, hversu líklegt er að þú mætir á sparifötunum
          í upplifunarverk eða þátttökuverk?
40.     Sem áhorfandi, hversu mikilvægt er fyrir þig að skilgreina fyrirfram
           tegund verksins sem þú ert að horfa á?
41.     Sem áhorfandi, hversu mikilvægt er að þú fáir að klappa að lokinni
          sviðslistaupplifun?

42.    Sem sviðslistamaður, hversu mikilvægur er sýningarstaður eða vettvangur
         verksins fyrir þér?
43.    Sem sviðslistamaður, er listræn sjálfsmynd þín mikilvæg fyrir listsköpun þína?
44.    Sem sviðshöfundur sem ekki stendur á sviði, gætir þú hugsað þér að vinna
         undir dulnefni?

45.       Hverjir eru lykilþættir sviðslista?

aamottaka.jpg
Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, Borgarleikhúsinu.

 

46.                 Þarf svið?

47.                        Hver eru svið sviðslistanna?
48.                                    Er hægt að hugsa sér sviðslistir án sviðs?

49.                       Hver eru svið útvarpsleikhúsa og vefleikhúsa?
50.                                     Er rétt að tala um svið þegar átt er við rými?

51.                       Hvaða rými geta flokkast undir svið?

52.                                Getur svið verið í hugans rými?
53.                                 Er rétt að nota orðið svið, þegar enginn „sýning“ á sér stað?
54.                                Er rétt að nota orðið svið um vettvang reynslu eða upplifunar?

55.                    Hvað þýðir orðið sviðssetning?
56.                               Hvenær getur reynsla talist sviðssetning?
57.                               Hvenær getur texti talist sviðssetning?
58.                               Hvenær getur hugmynd talist sviðssetning?
59.                               Hvenær getur óhlutbundin upplifun talist sviðssetning?

 

60.                 Þarf flytjanda?

61.                         Hvert er hlutverk flytjandans?
62.                         Hvað felur í sér að vera flytjandi?
63.                         Þarf flytjandinn áhorfanda til að flutningur teljist sviðslist?
64.                         Getur áhorfandi verið flytjandi?
65.                          Getur flytjandi verið hlutur?
66.                         Getur flytjandi verið óhlutbundinn?

67.      Sem áhorfandi, þarftu að samsama þig persónu til að tengjast sviðslistaverki?
68.      Sem áhorfandi, verður þú fyrir samskonar áhrifum þegar þú sérð dýr,
           dúkku/hlut eða mann sem flytjanda?
69.      Sem áhorfandi, sérð þú hliðstæðu í frammistöðu dansara, leikara og
            íþróttamanns?

70.     Sem flytjandi, þarftu að samsama þig hlutverki til að næra þig sem flytjanda?
71.     Sem flytjandi, hvað er hlutverk fyrir þér?
72.     Sem fagmenntaður flytjandi, hvað finnst þér um sviðslistir sem vinna með
          ófaglærðum, dýrum, hlutum eða gera áhorfandann að flytjanda?

73.                 Þarf áhorfanda?

74.                          Þarf áhorfanda til að reynsla geti talist sviðslist?

75.                                   Þarf áhorfandinn flytjanda til að teljast áhorfandi?
76.                                   Er það forsenda að áhorfandinn samsami sig flytjandanum?
77.                                   Hvert er hlutverk áhorfandans?

78.                        Er orðið áhorfandi besta lýsingin á fjölbreyttu hlutverki þeirra sem
                              njóta sviðslista?

79.                        Hvernig getur áhorfandi orðið þátttakandi?

80.                        Hvernig getur áhorfandi orðið aðalpersóna sviðslistaverks?

81.       Ef áhorfandi er aðalpersóna sviðslistaverks, þarf hann áhorfanda?
82.         Hvernig er hægt að vera samtímis aðalpersónan og áhorfandi?
83.            Hvaða orð lýsir best hlutverki þess sem er í senn
                aðalpersóna og áhorfandi í upplifunarverki?

84.                      Hvað gerist þegar áhorfandinn verður þátttakandi?

85.                      Getur þátttakandi talist meðhöfundur að upplifunarverki?

86.                     Fyrir hvern er sviðlist?
87.                      Fyrir hvern er list?

88.                    Í sögu sviðslistanna hvernig breyttist þátttakandi helgiathafnar í
                          áhorfanda?
89.                    Í sögu sviðslistanna hvenær breyttist áhorfandi í neytanda?

90.                   Í samtíma sviðslistum, er áhorfandinn að breytast í vitni?
91.                   Í samtíma sviðslistum, er áhorfandinn að breytast í viðfang?

92.                  Í samtímanum, hvaða þýðingu hefur sviðssetning sjálfsins?
93.                   Í samtímanum hvernig birtast sviðsslistirnar á samfélagsmiðlum?
94.                  Í samtímanum, hver hefur áhuga á öðrum en sjálfri sér?
95.                   Í samtímanum, hver hefur áhuga á sögu annars?

96.            Þarf sögu?

97.                  Verður allt skáldskapur í sviðslistum?

98.                             Er sannleikur í sviðslistum?
99.                             Er lygi í sviðslistum?
100.                           Er blekking í sviðslistum?

101.           Er sagan megin bindiefni sviðslista?
102.                         Er saga forsenda skilnings?

103.           Er alltaf hægt að lesa sögu útúr sviðslistaverki?

104.              Þarf sagan að vera sögð?
105.              Þurfa allir áhorfendur að upplifa sömu söguna?
106.              Hversu mikið getur áhorfandinn tekið þátt í að skapa sögu?

107.       Getur reynsla þátttakanda í upplifunarverki talist saga?
108.       Getur fyrri reynsla þátttakanda verið efniviður sögu/sviðslistaverks?
109.       Er hægt að segja sögu án byrjunar, miðju og endis?

110.         Eru sögur Íslendingum mikilvægari en öðrum þjóðum?

111.         Er framvinda sjálfkrafa saga?
112.        Hvernig er framvinda án sögu?
113.        Er nóg að tíminn líði?

114.         Er mikilvægt að áhorfandi skilji sviðslistaverk?
115.         Hefur áhorfandinn almennt væntingar til þess að skilja sviðslistaverk?

116.         Er umfjöllunarefni sviðslistaverka alltaf manneskjuleg persóna?
117.         Er hægt að segja sögu plöntu í sviðssetningu án þess að gefa plöntunni
                mannlega eiginleika?

118.        Sem áhorfandi, hversu líklegt er að þú túlkir það sem þú sérð á sviði sem
               sögu?
119.        Sem áhorfandi, hversu líklegt er að þú missir áhuga á sýningu sem þú
                hefur ekki skilning á?
120.        Sem áhorfandi, hvað þarfu að skilja til að njóta?

121.        Sem sviðshöfundur, hvaða viðmið hefur þú við samsetningu/byggingu
                verks?
122.        Sem sviðshöfundur, hversu mikið veltir þú sjónarhorni áhorfandans fyrir
                þér við samsetningu/byggingu verks?
123.        Sem sviðshöfundur, hversu mikilvægt er fyrir þig að áhorfandinn skilji þína
                sýn á verkið?
124.        Sem sviðshöfundur, hversu mikilvægt er það fyrir þig að áhorfandinn sjái
                alla þræði verksins?
125.       Sem sviðshöfundur, gefurðu sköpunarkrafti og reynslu áhorfandans gaum?

aai.jpg
Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, Borgarleikhúsinu.

 

126.       Þarf að örva öll skilningarvit áhorfenda eða þátttakenda?

 

127.              Hvaða meðöl sviðslistanna opna inn í það vitsmunalega?
128.              Hvaða meðöl sviðslistanna opna inn í það andlega?
129.              Hvaða meðöl sviðslistanna opna inn í það sálfræðilega?
130.              Hvaða meðöl sviðslistanna opna inn í það líkamlega?

131.       Hvaða skilningavit eru helst örvuð í sviðslistum sem þú þekkir?

132.              Hvaða reynslu hefur þú af því sjónræna í sviðslistum?
133.              Hvaða reynslu hefur þú af því hljóðræna í sviðslistum?
134.              Hvaða reynslu hefur þú af snertingu í sviðslistum?
135.              Hvaða reynslu hefur þú af lykt í sviðslistum?
136.              Hvaða reynslu hefur þú af bragði í sviðslistum?

137.          Hvernig er hægt að útiloka skynjun eins skilningarvits í sviðslistaverki?
138.          Hvernig er hægt að gera einu skilningarviti hærri sess en öðrum í
                 sviðslistaverki?

139.          Hvað gerist með skynjun þegar sviðssetning er utandyra?
140.          Hvað gerist með skynjun þegar sviðssetning er í opinberu rými?
141.          Hvað gerist með skynjun þegar sviðssetning er staðbundin?
142.          Hvað gerist með skynjun þegar sviðssetning felur í sér ferðalag?

143.    Sem áhorfandi, hvaða þættir orka sterkast á þig í sviðslistum? 

144.    Sem sviðslistamaður, hversu meðvitaður ertu um alla þá þætti sem
            áhorfandinn upplifir?

145.             Er þátttökuverk og upplifunarverk það sama?

146.                       Eru öll sviðslistaverk upplifunarverk?

147.        Er upplifun þess sem samsamar sig reynslu leikara á sviði önnur
                en upplifun þess sem fer í gegnum sviðslistaverk sem þátttakandi?
148.                           Er upplifunarverk líklegra til að tala beint til þátttakandans en
                                  leiksýning?
149.                           Er þátttakandi í upplifunarverki sjálfkrafa að vinna með eigin
                                  reynslu?

150.              Ef markmið upplifunarverks er að ná fram andlegri hreinsun gesta,
                     hvað aðskilur þá upplifunarverk og sálfræðimeðferð?

151.              Hvernig getur reynsla þátttakandans verið nægilegur efniviður fyrir
                     sviðslistaverk?

152.              Er það gjaldgengt listrænt framlag að skapa umgjörð um upplifun
                     áhorfanda sem byggir á reynslu hans?

153.             Er það eðlisólíkt að skálda sögu og að skapa ramma fyrir annan að skapa
                    sögu inn í?

154.      Hvaða ábyrgð hefur sviðslistamaðurinn gagnvart þátttakanda sem
               er ætlað að nota sína eigin reynslu í sviðslistaverki?

155.            Hvernig er persónuleg reynsla þátttakanda í þátttökuverki
                   ólík persónulegri upplifun áhorfanda á leikriti?

156.       Hvaða meðöl hefur þátttökusviðslistir til þess að búa til
               ólík sjónarhorn á viðfangsefni?

157.            Er fólk líklegra til að upplifa hreinsunaráhrif eða þörf til breytinga þegar
                    því finnst talað beint inn í þeirra reynsluheim?
158.            Hvernig getur maður verið viss um að tala inn í reynsluheim áhorfenda?

159.        Fer fólk sjálfviljugt í gegnum reynslu sem er líklegt til
               að breyta viðhorfi þess til lífsins?

160.    Upplifir þátttakandinn skort þegar verkið inniheldur
            ekki kunnuglegan listrænan efnivið?
161.                        Ber þátttakandinn kennsl á sviðssetningu þáttökuverksins?
                               Ber þátttakandinn kennsl á sitt eigið framlag til verksins?

162.              Hversu mikilvægur er höfundaréttur í upplifunarverki?

163.             Er munur á þátttökuverki og samfélagsverki?
164.                              Er samfélagsverk alltaf þátttökuverk?

165.                                 Hvar byrjar og endar samfélagsverk?

166. Getur ferli verið hluti af byggingu samfélagsverks?
167. Hvenær í sköpunarferlinu byrjar samfélagsverk að virka?
168. Hvernær telst samfélagsverk vera fullklárað?

169. Þarf sviðslistaverk að vera fullklárað til þess að hafa áhrifamátt?

170. Sem áhorfandi, hvað þarf til þess að þú gefir þig á vald
         í þátttöku- eða upplifunarverki?
171. Sem áhorfandi, telst það sem gerist í upplifunarlistaverki
        sem raunveruleg lífsreynsla?
172. Sem áhorfandi, er líklegra að verk sem spyr þig beinna spurninga um þitt eigið
        líf verði til þess að þú endurmetir afstöðu þína til lífsins?

173. Sem sviðshöfundur, hversu meðvitaður ert þú um áhrif upplifunar
        þátttakandans af framandlegum aðstæðum verksins?
174. Sem sviðshöfundur, skiptir það þig máli hvort gestur misskilur ætlunarverk þitt
        með verkinu?
175. Sem sviðshöfundur, hvaða gildi hefurðu að leiðarljósi í sambandi þínu
        við þátttakendur?
176. Sem sviðshöfundur, hvað viltu þínum áhorfendum?

aa_xiv.jpg
Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, Borgarleikhúsinu.

 

177.                 Getur ást sem viðfangsefni verið samfélagslega áhrifamikið?

 

178.                               Hvaða væntingar hefur áhorfandi til þátttökuverks um ástina?

179.                                            Er mögulegt að finna nýjan flöt á ástinni?
180.                                            Er hægt að skapa listrænt rými sem rúmar allar
                                                    mögulegar útleggingar á ástinni?

181.                            Er ekki hætta á að þátttökuverk um ástina verði klisjukennt?

182.                          Hvernig er hægt að búa til listræna umgjörð sem laðar fram það
                                 sértæka en jafnframt það sam-mannlega?

183. Er hægt að nota helgiathöfn sem form án þess að vísa í trúarbrögð?
184. Er fólk líklegra til að taka virkan þátt í helgiathöfn en listviðburði?

aa_xii.jpg
Ódauðlegt verk um ást og ástleysi, Borgarleikhúsinu.

185.          Hvernig tengjast lífsgæði bæjarfélags spurningum um líf og dauða?

186                       Eru djúpar grundvallandi spurningar um líf og dauða settar fram í
                             sviðslistaverki líkleg til að hafa samfélagslegan umbreytingarmátt?
187.                      Eru spurningar um stjórnmál og samfélagsmál settar fram í
                              sviðslistaverki líkleg til að hafa persónulegan umbreytingamátt?

188.                     Hvort er líklegra til að hreyfa við fólki, persónulega málefni eða
                           samfélagsleg málefni?

189.                     Eru persónuleg viðfangsefni samfélagslega áhrifamikil?

190.                           Hversu tilbúnir eru áhorfendur til að opna sig inn í kviku í
                                   upplifunarverkum sem fjalla um persónuleg málefni?

191.      Hvaða aðstæður þarf að skapa til þess að  áhorfandi eða
             þátttakandi sæki í fyrri persónulega reynslu sína í sviðslistaupplifun?

192.                      Hversu meðvitaðir eru þátttakendur um áhrifamátt reynslu?

193.                      Er erfið reynsla forsenda hreinsunar?

194.                     Er hugsanlegt að upplifunarlist geti verið mannskemmandi reynsla?

195.            Er hægt að búa til rými fyrir fólk í upplifunarverki, til þess að heimsækja
                   óuppgerða hluti og erfiða persónulega reynslu á ábyrgan og tryggan hátt?

196.                     Er siðferðislega ábyrgt að skapa verk sem kallar fram djúpstæð
                            sálfræðileg viðbrögð gesta?

197.                           Ber sviðslistamaður ábyrgð ef gestur verður fyrir taugaáfalli?

198.                                  Þarf sviðslistamaður sem vinnur samfélagsverk að hafa
                                         innsýn í sálfræði?

199.      Sem áhorfandi, hver er mælistika þín
             þegar kemur að því að meta mikilvægi verks?

200.       Frammistaða listamanna?
201.       Nýlunda verksins?
202.       Skemmtanagildi?
203.       Mannbætandi áhrif?

204.                    Hver er máttur spurninga?
205.                               Skiptir máli hver spyr?
206.                    Hver er máttur svara?
207.                              Skiptir máli hver svarar?

208.       Gæti verið að forsenda breytinga sé getan til að spyrja spurninga?

p1080211_3.jpg
Siðasta Kvöldmáltíðin, Cirava, Lettland.

 

NEÐANMÁLS

 
Eftirfarandi lykilhugtök eru notuð á þennan hátt í greininni:
 
Sviðslistir - róf þeirra greina sem vinna með sviðssetningar ss. leiklist, dans, ópera, gjörningalist og sviðssettir tónlistargjörningar.
 
Sviðssetning - framsetningarform sviðslistanna sem tekur á sig ýmsar myndir.
 
Þátttökuverk - listaverk sem er unnið með þátttöku annars fólks en listamanna. Þátttakan getur átt sér stað í sköpunarferlinu og/eða með þátttöku gesta í verkinu sjálfu. Í samhengi þessarar greinar er oftast átt við þátttöku gesta í listviðburðinum sjálfum nema þegar merkingu hugtaksins er ögrað.
 
Upplifunarverk - listaverk sem vinnur beint með reynslu gests í listviðburði og þess sem umhverfir hann í verkinu. Upplifun gestsins liggur í forgrunni.
 
 
Samfélagsverk - listaverk sem unnið er inn í samfélag eða ákveðnar aðstæður, á ákveðnum stað. Fólk sem tilheyrir ákveðnu samfélagi tekur þátt í sköpun verksins eða verkið unnið í nánu samstarfi við samfélagið
 
Áhorfandi og svið: Notkun á orðunum áhorfandi og svið í samhengi upplifunarsviðslista er vandkvæðum bundið enda vísar merking orðanna í mjög ákveðna afstöðu fyrirbæranna ss. á horfandi, sá sem horfir á eitthvað utan frá. Slík skilgreining á ekki við í tilfelli allra sviðslistaverka. Síðar í textanum er spurningum um þessa orðanotkun varpað fram fyrir lesandann að vega og meta