Kæra áhugafólk um sviðslistir
 
Til hamingju með Kviku, veftímarit sviðslistadeildar Listaháskólans sem nú kemur út í fyrsta sinn. Vefritið sem mun koma út tvisvar á ári, hefur það hlutverk að skapa vettvang, aðhald og hvata fyrir hverskonar rannsóknarvinnu tengda sviðslistum og vera miðstöð sjónarhorna um fagtengd málefni. Vefritið beitir sér fyrir því að vera vettvangur fyrir orðræðu um sviðslistir á íslensku máli og miðlun þekkingar sem verður til við þá rannsóknarvinnu sem á sér stað í fagumhverfi sviðslista innan sem utan veggja Listaháskólans.
 
Það er hlutverk okkar sem háskóla á fræðasviði lista að stunda rannsóknir sem stuðla að nýrri þekkingu og vitundarsköpun.
 
Við þetta tækifæri er áhugavert að rýna í einkunnarorð Listaháskólans, Forvitni, Skilning og Áræðni sem svo sannarlega endurspeglast í kveikju, framkvæmd og erindi vefritsins:
 
* Við erum forvitin um kveikjur, sköpun, stefnumót, samhengi og ólík sjónarhorn sviðslistanna og sviðslistafólksins
* Við höfum skilning á hlutverki okkar innan fagumhverfi sviðslista sem fæðingarheimili þekkingar og griðarstaður rannsakandans
* Við höfum áræðni til að nýta okkur þær aðferðir vísindanna sem nýtast okkur og hafna þeim sem þvælast fyrir okkur en einnig til að finna upp nýjar rannsóknaraðferðir og miðlunarleiðir
 
Kvika gegnir lykilhlutverki sem gerjunarpottur og miðja miðlunar á sviði sviðslistarannsókna í sem víðustum skilningi, á sem breiðasta vettvangi og með sem fjölbreyttasta móti.
Vefritið er ekki ritrýnt þótt stefnt sé að því að það innihaldi bæði ritrýnt og óritrýnt efni í framtíðinni. Vefritið gefur tilefni til að birta myndbandsbrot, hljóð, myndefni og tengla á gagnvirkt efni og annað sem vefurinn býður uppá. Við fögnum hvers kyns umfjöllunum, ögrunum, ígrundunum, tengingum, skoðunum, rýni, niðurstöðum, sýnishornum, eintölum og samtölum.
Með Kviku er að opnast vettvangur fyrir faglega umræðu á forsendum sviðslistanna þar sem sjónarhorn listamannsins, nemandans og fræðimannsins eru jafn rétthá.
Það er með bjartsýni og eftirvæntingu sem ég ýti úr vör fyrsta tölublaði Kviku.
 

Steinunn Knútsdóttir, forseti sviðslistadeildar Listaháskólans

 

Í ritnefnd Kviku sitja þau:

Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir, lektor í sviðslistafræðum og fagstjóri fræða
Karl Ágúst Þorbergsson, lektor í sviðlistum og fagstjóri sviðshöfundabrautar
Alexander Graham Roberts, lektor og fagstjóri meistaranáms í sviðslistum

GREINAR

208 ósvaraðar spurningar
Skýrsla um ferð eins kennara og 12 nemenda
Að hlusta sig saman

 

HÖFUNDAR EFNIS
 

Karl Ágúst Þorbergsson
Steinunn Knútsdóttir
Sveinbjörg Þórhallsdóttir
Una Þorleifsdóttir

RITNEFND

Alexander Graham Roberts
Ásgerður Gunnarsdóttir
Karl Ágúst Þorbergsson