Vísindavaka Rannís fór fram í Laugardalshöll síðastliðinn föstudag, 28. September. Listaháskólinn var þar á meðal fjölmargra sýnenda en markmiðið með Vísindavöku er að almenningur fái tækifæri til að spjalla við vísindafólk og rannsakendur um viðfangsefni þess.
 
Framlög skólans komu frá öllum deildum og endurspegluðu fjölbreytileika rannsókna á fræðasviði lista.
 
Agari flaska Ara Jónssonar, nýútskrifaðs vöruhönnuðar vakti mikla athygli, ekki síst barna og ungmenna og hvatti Ari þau óspart til að stela hugmyndinni og gera eigin tilraunir með þetta umhverfisvæna efni.
 
Tónlistardeild kynnti til sögunar hljóðfærið Lokk eftir Berglindi Maríu Tómasdóttur, flautuleikara, tónskáld og dósent við tónlistardeild, og hljóð- og ljósfærið Huldu, eftir Lilju Maríu Ásmundsdóttur, píanóleikara og fyrrum nemanda við tónlistardeild og tónskáld. Lokkur er settur saman úr gömlum rokk og langspili og ætlað að vera eins konar ímyndað sögulegt hljóðfæri en Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði sem stýrist af því hvernig spilað er á hljóðfærið.
 
Steinunn Ketilsdóttir, dansari og gestarannsakandi við Sviðslistadeild, kynnti rannsóknarverkefni sitt TJÁNINGAR, - virði og vald væntinga í dansi og Kristín Valsdóttir, forseti listkennsludeildar, kynnti nýútkomna bók Framtíðarmúsík – nýjar leiðir í tónlistarmenntun, sem er greinasafn, undir hennar ritstjórn, sem byggja á nýjum rannsóknum og þróunarverkefnum í tónlistarmenntun og tónlistarmiðlun eftir nokkra höfunda.
 
Þá gátu gestir skoðað skúlptúr úr sýningarverkefni Ólafar Nordal, myndlistarmanns og dósents við myndlistardeild, Tilraun um torf. Er þar leitast er við að gefa torfinu, efni með víða skírskotun í jarðfræði, vistfræði og menningu okkar, nýja merkingu og form innan samtímamyndlistar.
 
img_6069.jpg
img_6062.jpg
img_6065.jpg