Í gegnum Opna listaháskólann getur fólk sótt námskeið í öllum deildum Listaháskóla Íslands og í októbermánuði hefjast þónokkur áhugaverð námskeið.
 

Jón Leifs

Í námskeiðinu Jón Leifs, sem hefst 1. október, er fjallað um tónlist Jóns Leifs og endurreisn hennar á síðustu þremur áratugum. Augum er beint að innri gerð tónverka Jóns og samhengi þeirra við hvert annað og við verk annarra tónskálda í hans samtíma.
 

Fríspuni í tónlistarkennslu

Fríspuni í tónlistarkennslu er kenndur yfir snarpan tíma, 2. - 13. október. Unnið verður með fríspunatækni byggt á aðferðafræði Anto Pett og Anne-Liis Poll. Unnið verður með fríspuna úti á gólfi út frá ákveðnum tækniæfingum. Námskeiðið hentar öllum tónlistarkennurum og tónmenntakennurum og öðru tónlistarfólki sem hefur áhuga á að skoða og vinna fríspuna. Nemendur vinna saman ásamt kennara, margskonar spunaaðferðir og þjálfa ákveðna þætti s.s. hlustun, viðbragð, tilfinningu fyrir tíma og rými, upphaf og endi svo eitthvað sé nefnt í spunaferlinu.
 

Upplifunar- og útinám- Nýtt námskeið

Í námskeiðinu Upplifunar- og útinám, sem hefst 2. okt., verða kynntar stefnur og straumar í kennslufræði og heimspeki upplifunar- og útináms. Skoðuð verða ólík sjónarhorn út frá hugmyndafræði og kenningum í tengslum við upplifunar- og útinám og helstu frumkvöðlar kynntir. Hugmyndafræði og kenningar verða settar í samhengi við kennslu og miðlun á ólíkum skólastigum s.s. grunn- leikskóla- og frístundastarf auk miðlunar í samfélaginu almennt; safnafræðsla, minni námskeið, útivist og skapandi nám, ferðamennska sem dæmi.
 

Michael Jackson

Áfangi um Michael Jackson hefst 2. október. Þar verður leitast við að varpa ljósi á fjölbreytilegan feril tónlistarmannsins Michael Jackson og þau áhrif sem hann hefur haft á tónlistarbransann og dægurmenningu. Tónlistarlegar rætur Jackson verða skoðaðar, allt frá árdögum R&B, sálartónlistar, söngleikja og rokk og róls til annarra stíltegunda sem áttu þátt í að móta hann sem tónlistarmann. 
 

Suður- amerísk þjóðlagatónlist

Þann 4. okt. hefst Suður-amerísk þjóðlagatónlist. Í námskeiðinu er farið yfir þær landfræðilegu, sögulegu og menningarlegu forsendur sem hafa mótað helstu tónlistarstefnur og stíla í þjóðlagatónlist suður amerískra landa, sem og helstu einkenni þeirra. Námskeiðið skiptist í fjóra fyrirlestra og fjórar vinnustofur. Í fyrirlestrunum verður leitast við að bregða ljósi á þær aðstæður sem hafa mótað helstu tónlistarstefnur í suður ameriskri þjóðlagatónlist. Í vinnustofunum er ætlast til að nemendur æfi upp samleiksverk sem tilheyra mismunandi löndum og stílum.
 

Verkefnastjórnun

Fyrir þau sem hafa áhuga á Verkefnastjórnun hefst þessháttar námskeið 10. okt. Í námskeiðinu skipuleggja nemendur sjálfstæð verkefni í tengslum við atvinnulífið. Farið er yfir aðferðir við þróun, skipulagningu og stjórnun nýrra listviðburða og rýnt í áætlanagerð, fjáröflun, áhættumat, markmiðasetningu, kynningarmál, tengslanet, framkvæmd og matsaðferðir. Nemendur vinna að eigin verkefni sem einstaklingar eða í hópum.
 

Tónbókmenntir 19. aldar- Ljóðaflokkurinn

Í námskeiðinu Tónbókmenntir 19. aldar- Ljóðaflokkurinn eru tekin fyrir mikilvæg afmörkuð viðfangsefni er tengjast tónbókmenntum 19. aldar. Kennsla fer að mestu fram í fyrirlestrum þar sem leitast verður við að bregða ljósi á sögulegt umhverfi, fagurfræði, formfræði og tónsmíðaaðferðir í tengslum við áherslur námskeiðs hverju sinni. Námskeiðið hefst 15. október.
 

Fagurferði, siðferði og nám- Nýtt námskeið

Í námskeiðinu Fagurferði, siðferði og nám , sem hefst 17. október, kljást nemendur við fagurferði og skynjun umhverfis og samfélags í víðu samhengi. Fjallað verður um tengsl fagurferði við siðferði og lífsgæði og hvernig fagurferðilegt uppeldi getur dýpkað dygðalæsi, tilfinningalæsi og umhverfismeðvitund.
 
Unnið verður út frá heimspekilegum kenningum um siðfræði og fagurfræði með áherslu á skynjun og upplifun og tengsl slíkra kenninga við hugmyndir um listkennslu og samband þeirra við grunnþætti aðalnámskrár; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun.
 
Leitað verður m.a. svara við því hvernig auka megi umræðu og vitund um þátt fagurferðilegrar skynjunar í lífsgæðum okkar, sjálfsskilningi og samfélagsvitund.
 
 
Skráning og frekar upplýsingar á heimasíðu Opna LHÍ.