Um þessar mundir vinna þær Þorbjörg Daphne Hall, lektor og fagstjóri fræða við tónlistardeild LHÍ og Ásbjörg Jónsdóttir, tónskáld og söngkona, að viðamiklu rannsóknarverkefni um sögu djasstónlistar á Íslandi á tímabilinu frá 1930 til 2010.

Niðurstöður rannsóknanna munu meðal annars birtast í útgáfuröð háskólaútgáfunnar Oxford University Press um sögu evrópskrar djasstónlistar (The Oxford History of European Jazz) sem koma mun út í fimm bindum á árunum 2019 til 2022. 

Kortlagning á menningarsamhengi

Rannsókn Þorbjargar og Ásbjargar hófst árið 2017 og lýtur að því að kortleggja viðtökur og áhrif djasstónlistar í menningarlegu og samfélagslegu samhengi.  

Í gegnum sögu djassins er hægt að varpa ljósi á ýmsa þætti svo sem stöðu kvenna, kynþáttahyggju, áhrif frá hersetu í seinni heimsstyrjöld og skemmtanalíf almennings svo fátt eitt sé nefnt en hingað til hefur saga djasstónlistar á Íslandi einkum verið skoðuð og skrifuð út frá flytjendum hennar, hverjir spiluðu, hvar og hvenær.

Veik sjálfsmynd þjóðar

Viðtökusaga djasstónlistar á Íslandi er afar áhugaverð og  afhjúpar meðal annars kynþáttahyggju og veika menningarlega sjálfsmynd þjóðarinnar.

Litið var til Evrópu sem fyrirmyndar í tónlist og menningu en djass var sökum síns svarta uppruna álitinn villimannslegur og siðspillandi fyrir þjóðina. Um þetta vitna fjölmargar heimildir en þær Þorbjörg og Ásbjörg eru komnar til ársins 1970 í gagnasöfnun þar sem leitað er fanga í tímaritum og dagblöðum, útvarpsþáttum, skjalasöfnum, bókum og með viðtölum.  

Mikilvægur menningararfur 

Rannsóknin miðar einnig að því að efla fræðilegan grunn í djassfræðum á Íslandi og setja í samhengi við sögu evrópskrar djasstónlistar en enn sem komið er saga djasstónlistar á Íslandi algerlega óaðgengileg þeim sem ekki tala íslensku. Rannsóknina má því líta á sem fyrsta skref í að setja mikilvægan menningararf í alþjóðlegt samhengi. 

Eins og áður sagði mun rannsóknin birtast í útgáfuröð Oxford University Press en að auki standa vonir til að hægt verði að gefa út bók um efnið á íslensku.

Þess konar músik, eins og t. d. mikið af frumstæðri en kitlandi jazzmúsik síðustu tíma, má líkja við andlegt deyfilyf; eins og öll þess háttar lyf, veldur hún fyrst og fremst vímukenndum doða og sljóleik, og á hana ber því að líta sem óholla dægrastyttingu aðeins. En í raun og veru veikir hún sjálfsvitundina og sálarþrekið, og í því geta falizt greinileg merki andlegrar hrörnunar og úrkynjunar. (Hallgrímur Helgason, 1942)